Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Framkvæmdasvæði GeoSalmo í Þorlákshöfn.
Framkvæmdasvæði GeoSalmo í Þorlákshöfn.
Fréttir 14. nóvember 2024

Fjögur landeldisfyrirtæki í Bændasamtökunum

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Deild landeldis innan Bændasamtaka Íslands var stofnuð sumarið 2022. Fjögur landeldisfyrirtæki eru nú innan þeirra vébanda, eitt hefur þegar hafið rekstur en hin eru í uppbyggingarfasa.

Bjarki Már Jóhannsson.

Formaður deildarinnar er Bjarki Már Jóhannsson frá landeldisfyrirtækinu GeoSalmo, sem er í uppbyggingu við Þorlákshöfn. Stefnt er á að rekstur seiðaeldisstöðvar fyrirtækisins að Laugum í Landsveit hefjist næsta vor. Næsti fasi verður svo að reisa sjálfa laxeldisstöðina í Þorlákshöfn en gert er ráð fyrir um 24 þúsund tonna framleiðslugetu á ári í fullbyggðri stöð. Stefnt er að því að þeim afköstum verði náð í kringum 2029–2030.

Þrjár stöðvar í Þorlákshöfn

Að sögn Bjarka er laxeldisstöð First Water (sem áður hét Landeldi) þegar komin í rekstur og hefur um þúsund tonnum verið slátrað þar. Áætluð framleiðslugeta þar verður um 50 þúsund tonn á ári. Ein stöð til viðbótar er fyrirhuguð í Þorlákshöfn, Thor Landeldi, með um 20 þúsund tonna framleiðslu, en uppbygging er þar að hefjast.

Þá er ónefnt eitt fyrirtæki sem er innan deildar landeldis Bændasamtakanna, stöðin Laxey í Vestmannaeyjum. Hún er í uppbyggingu en rekstur á seiðaeldisstöð er þegar hafin og stutt í að fiskur þar fari í áframeldiskör. Framleiðslan þar verður áætluð um 32 þúsund tonn á ári af laxi úr landeldi.

Tölvuteikning af stöð GeoSalmo.

Ung búgrein

„Starf búgreinadeildarinnar hefur hingað til einkennst af því að vinna með Bændasamtökunum að málum sem snúa að leyfismálum og reglugerðum í kringum búgreinina. Búgreinin er ung og því mörg atriði sem þarf að skoða. Bændasamtökin hafa staðið þétt með okkur í samtölum við eftirlitsaðila og löggjafann og aðstoðað með sinni sérþekkingu.

Nú stendur yfir vinna í matvælaráðuneytinu þar sem unnið er að frumvarpi varðandi ný heildarlög um sjókvíaeldi, landeldi og hafeldi. Ráðuneytið hefur kallað eftir samtali við greinina sem hefur verið unnið með Bændasamtökunum,“ segir Bjarki.

„Einnig hafa úrgangsmál fengið mikla umfjöllun þar sem horft hefur verið til hvernig nýta megi seyruna frá fiskeldisstöðvunum sem áburð eða jarðvegsbæti fyrir bændur og hafa Bændasamtökin verið partur af því starfi,“ bætir hann við.

Straumar næringarefna

Að sögn Bjarka hefur landeldi verið stundað á Íslandi í tugi ára með góðum árangri, þó það hafi verið á fremur litlum skala. „Í dag er staðan sú að landeldi á laxi er í miklum vexti og sýna áform fyrirtækja að greinin hefur alla burði til að verða einn af framtíðar burðarstólpum útflutnings á Íslandi. Það er mikilvægt að reyna eftir fremsta megni að nýta þá strauma næringarefna sem geta nýst á milli búgreina og með því styrkja stoðir íslenskrar matvælaframleiðslu enn frekar,“ segir Bjarki og vísar þar til fiskeldisseyrunnar sem mun falla til í miklu magni frá landeldinu.

„Næstu mánuðir munu fara í að halda áfram því samtali sem hefur verið í gangi við stjórnvöld varðandi straumlínulögun á umsóknarferlum hjá hinu opinbera. Verkefnin eru mjög háð leyfisveitingum og því nauðsynlegt að reyna að besta þá ferla til að tryggja eðlilega málsmeðferð og að afgreiðslutími dragist ekki úr hófi. Einnig er áframhaldandi vinna varðandi bestun á leiðum til að nýta þá hliðarstrauma sem koma frá eldinu.

Framtíðin er björt fyrir greinina og ljóst að laxeldi á landi mun verða mjög áberandi í atvinnulífinu á Íslandi á komandi árum.“

Skylt efni: GeoSalmo

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...