Fjárfest fyrir um 8 milljarða á athafnasvæði First Water
Landeldisfyrirtækið First Watter hefur tekið í notkun fyrstu 25 metra áframeldistankana á athafnasvæði sínu í Þorlákshöfn og hefur fiskur verið settur í þrjá tanka.
First Water hefurstarfrækt laxeldi á landi síðan 2022 í minni tönkum en það hefur fjárfest fyrir um 8 milljarða á athafnasvæði sínu við Laxabraut í Þorlákshöfn, fyrst og fremst í tönkum, búnaði og innviðum sem tengjast áframeldi.
Gert er ráð fyrir að fyrsta fasa af 6 verði lokið á þriðja ársfjórðungi árið 2027 og að framleiðslugeta í hverjum fasa verði 10.000 tonn af slægðum laxi. Það er á pari við framleiðslugetu stærstu landeldisfyrirtækja bæði í Noregi og Bandaríkjunum.
Fiskurinn dafnar vel í tönkunum
Eggert Þór Kristófersson, forstjóri First Water, segir laxfiskinn dafna vel í tönkunum og að allur tæknibúnaður virki sem skyldi. „Já, við erum afar ánægð með þennan mikilvæga áfanga í uppbyggingu félagsins að taka þessa nýju tanka í rekstur. Á næstu vikum munum við hefja slátrun og útflutning á slægðum fimm kílóa laxi sem er mjög eftirsótt vara á alþjóðlegum mörkuðum og við höfum þegar fyllt upp í pantanir,“ segir Eggert Þór.
Atvinnumálaráðherra í heimsókn
Hanna Katrín Friðriksson atvinnumálaráðherra heimsótti athafnasvæði First Water nýlega þar sem stjórnendur og starfsmenn kynntu starfsemina, sýndu henni nýju áframeldistankana og þá uppbyggingu sem átt hefur sér stað á svæðinu og fóru yfir framtíðaráform félagsins.
First Water flutti út um 1.300 tonn af laxi á síðasta ári en heildarútflutningur frá 2023 eru um 2000 tonn.
Eggert Þór segir að framleiðslan lofi mjög góðu þar sem um 94% þeirra afurða sem framleiddar hafa verið séu flokkaðar sem hágæða afurðir og hafi hlotið mjög góðar viðtökur hjá erlendum kaupendum. „Það er mikil þörf á aukinni próteinframleiðslu í heiminum,“ segir Eggert og bætir við að út frá magni og umhverfisáhrifum sé laxeldi einn hagfelldasti kosturinn þegar kemur að því.
