Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Fitusprenging í lambakjöti frá Ástralíu.
Fitusprenging í lambakjöti frá Ástralíu.
Mynd / Matís
Fréttir 11. mars 2024

Fita á lambahryggvöðvum hefur jákvæð áhrif á bragðgæði

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Samkvæmt niðurstöðum úr nýlegri skýrslu Matís eru vísbendingar um að fita á lambahryggvöðvum hafi jákvæð áhrif á bragðgæði og því sé ástæða til að slaka á núverandi kynbótamarkmiðum um minni fitusöfnun.

Óli Þór Hilmarsson og Guðjón Þorkelsson voru í rannsóknarteymi Matís. Mynd/Aðsend

Guðjón Þorkelsson var í teymi Matís sem vann að rannsóknunum þar sem borin voru saman kjötgæði lambaskrokka sem flokkaðir væru í mismunandi kjötmatsflokka evrópska EUROP- flokkunarkerfisins. Hann segir að feitustu skrokkarnir hafi komið best út, þeir sem voru í fituflokki 3+, samkvæmt reglum Evrópusambandsins, en mögrustu skrokkarnir sem eru í fituflokki 2- hafi komið lakast út úr kjötgæðamælingu þótt munurinn hafi verið frekar lítill.

Fitusprenging gefur bragðgæði og meyrni

Hann segir fituflokkana í EUROP- kerfinu segja til um hvað það er mikil fita utan á skrokkunum. „Skrokkarnir eru flokkaðir frá því að vera mjög magrir í að vera mjög feitir. Flokkarnir eru aðgreindir með tölustöfum frá 1 til 5, frá því að vera mjög magrir til þess að vera mjög feitir.

Fitusprenging er svo annar hlutur, en það er fita sem við sjáum inn í vöðva. Við getum líka mælt hana með efnagreiningum. Ákveðin fitusprenging í vöðva er talin hafa góð áhrif á bragðgæði. Sérstaklega safa, bragð en einnig meyrni.“

Hefur verið gengið of langt?

Guðjón segir að niðurstöðurnar bendi til að slaka megi á kynbótamarkmiðum varðandi fitu utan á lambaskrokkum

„Hryggvöðvar úr fituflokki 3+ voru marktækt mýkri, meyrari og safaríkari en úr öðrum flokkum. Að sama skapi voru hryggvöðvar úr fituflokki 2- minnst meyrir og minnst safaríkir af öllum flokkunum í tilrauninni. Ein af þeim spurningum sem við erum að reyna að svara með þessum rannsóknum er hvort gengið hafi verið of langt í því að rækta gegn fitu utan á lambskrokkum og hvort slaka eigi á kröfum í því sambandi.

Núverandi kjötmat á Íslandi greinir ekki 2- skrokka og 3+, eins og þeir eru mældir samkvæmt kjötmatsreglum Evrópusambandsins. En þeir eru undirflokkar fituflokka 2 og 3. Síðasta haust fóru um 47 prósent skrokka sláturlamba í fituflokk 2 og um 50 prósent í fituflokk 3. Það er spurning hvort þessi flokkun sé nógu nákvæm eða hvort taka eigi upp undirflokka í kjötmatinu.“

Lambaskrokkar. Mynd/Bbl

Fremur lítil rannsókn

Guðjón segir að þau sem standi að rannsókninni vilji ekki fullyrða of mikið um niðurstöðurnar og vera frekar varkár í túlkun á niðurstöðunum, því þetta hafi verið lítil rannsókn með fáum sýnum. „Í haust skoðuðum við líka arfgengi fitusprengingar, fitu í vöðva, og þá hvort hægt sé að rækta meira fyrir slíkri fitusöfnun. Magn fitusprengingar fylgir ekki vaxandi fitu utan á skrokkunum eins og einhverjir kynnu að ætla.“

Í ágripi að skýrslu Matís kemur fram að athyglisvert sé að af um 14,5% af lambaskrokkunum sem slátrað var í seinni slátrun á tilraunabúi Landbúnaðarháskóla Íslands hafi farið í Evrópuundirflokkinn 3+. 

Hugsanlega væri hæft að endurskoða fituflokkunina og vinna slíkt kjöt og selja sem sérstaka gæðavöru.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f