Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Norður-Þingeyingar á útsýnispalli á Austurey.
Norður-Þingeyingar á útsýnispalli á Austurey.
Mynd / Bóas Ingi Jónasson
Lesendarýni 6. janúar 2023

Fé og fleira fallegt í Færeyjum

Höfundur: Daníel Hansen, forstöðumaður Fræðaseturs um forustufé.

Á vordögum kviknaði sú hugmynd hjá bændum í Norður- Þingeyjarsýslu að fara í bændaferð til Færeyja. Haft var samband við undirritaðan og hann beðinn um að skipuleggja ferðina.

Daníel Hansen

Safnast var saman við ferjuna á Seyðisfirði þar sem ferðin hófst. Eftir ljúfa ferð í ferjunni komum við til Þórshafnar seinni part fimmtudags. Ákvað fólk að fara með strætisvagni í bæinn og finna gott veitingahús.

Þegar vagnstjórinn hleypti okkur inn var hann svolítið sposkur á svip. Aftar í vagninum lágu fjórir lambskrokkar á gólfinu, bílstjórinn var að flytja þá á milli staða og átti þá sjálfur. Þeir voru búnir að hanga í fjórar vikur og áttu eftir að hanga lengi til að vera tilbúnir í skerpikjöt.

Aðrir farþegar kipptu sér ekkert upp við þetta en okkur varð hugsað til MAST.

Straumeyjardagur

Fyrsti viðkomustaður dagsins var Búnaðarstovan  Kollafirði. Þar tók starfsmaður á móti okkur, Dorthea Joensen, og sagði okkur frá starfseminni og almennt frá landbúnaði í Færeyjum. Dorthea hefur unnið mikið starf undanfarin ár í því að koma ullinni í verð.

Saksun er einn fallegasti staður í Færeyjum og eyddum við megninu af deginum þar. Við skoðuðum hús sem er margra alda gamalt og er safn í dag. Þaðan lá leiðin í kirkju staðarins og síðan í fjárhús hjá bóndanum Jóhanni Jeggvanssyni, en hann er einn fjárflesti bóndi eyjanna. Þar inni voru bæði kindur sem biðu slátrunar og sem átti eftir að sleppa út. Sláturhúsið var ekki stórt eða nýtískulegt. Þar er samt slátrað um 100 kindum á dag og mest hefur verið slátrað 200. Þeir hafa félagsskap um smölun og slátrun, smala í fimm daga, slátra síðan í fimm daga og halda áfram þar til búið er að heimta allt.

Sláturlömb í Gjógv.

Hrútarnir eru teknir úr og sleppt í féð í byrjun desember. Húsfreyjan á staðnum bauð upp á kaffi, meðlæti og skerpikjöt á eftir. Hún hafði verið á Bændaskólanum á Hólum og talaði góða íslensku. Á heimleiðinni var komið við í verslun með alls kyns landbúnaðarvörur.

Verðlaunahrútar í Lamba.

Austureyjardagur

Þennan dag notuðum við til að skoða Austurey, fórum fyrst um göngin en stoppuðum svo í versluninni Navia í Rúnavík. Þessi verslun er með alls kyns prjónavörur, mest úr færeyskri ull. Stutt frá Rúnavík er bærinn Lamba en þangað hafði bóndinn Jón Nónklett boðið okkur til að skoða valda hrúta. Fallegur staður sem gaman er að koma til.

Flíkur framleiddar úr færeyskri ull.

Eftir skoðunarferð þar um héldum við til Eldurvíkur sem er lítið þorp. Þar tók á móti okkur þýskur maður sem hefur tekið ástfóstri við staðinn og byggt sér hús þar. Hann er í góðu samstarfi við bændur og kaupir af þeim ull og lætur vinna vörur úr þeim, bæði band og þæfðar vörur, allt unnið í Þýskalandi. Kaffi og meðlæti var hjá einum bóndanum, vini hans, og að auki besta skerpikjötið sem við fengum í ferðinni.

Stærsti póstkassi heims er í Skopun.

Við nutum leiðsagnar Þjóðverjans um þorpið og í dulda perlu staðarins, Gjána, stundum nefnd Drottningargjáin eftir að Danadrottning heimsótti hana. Þetta er gjá inn í klettavegginn og hellir yfir. Þarf að fara margar tröppur niður í hana en einnig er lítil bryggja í henni.

Sandeyjardagur

Fyrst var farið í Kirkjubæ og litast um í rústunum þar. Þá var farið í Gömlurétt þar sem ferjan yfir til Sandeyjar fer. Stutt er í að göngin yfir í Sandey opni en það verður mikil samgöngubót.

Litast um í Kirkjubæ.

Það er þegar farið að nota þau við sjúkraflutninga. Móttaka var fyrir okkur í félagsheimili staðarins. Það gerðu tvær íslenskar konur, Heiðrún og Kristrún Einarsdætur frá Patreksfirði. Þær sögðu okkur frá mannlífi og fleiru og enduðu á því að fara með okkur í aðstöðu sem sveitarfélagið skaffar þeim fyrir ýmsar hannyrðir, aðallega úr ull.

Næst var ekið um eyna og þorpin skoðuð.

Á Sandi lentum við í skemmtilegum atburði, „kúadellu-lottói“. Þar er túnbleðli skipt í reiti og hver reitur er til sölu. Þá er kú hleypt út og beðið eftir að hún skíti. Þar sem fyrsti skíturinn lendir er vel mælt út og eigandi þess reits fær vegleg verðlaun. Þetta er gert í fjáröflunarskyni fyrir ungmennafélög og nemendafélög. Verðlaunin síðasta ár voru flugmiðar til Grænlands og Íslands. Sú sem vann síðasta ár var eigandi veitingahússins Á mölinni í Skálavík þar sem við fengum góðar veitingar. Hún sagði að oft myndist mikil stemning í kringum þetta, kýrin er hvött til að skíta með miklum látum.

Auglýsing um „kúadellulottóið“.

Lokakvöldinu var eytt í dýrindis veislu í boði Búnaðarsambands Norður-Þing, en daginn sem við fórum heim breyttist veðrið, kom rok og rigning.

Skylt efni: Færeyjar | bændaferð

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f