Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Fæðuöryggi á haustmánuðum
Lesendarýni 5. september 2022

Fæðuöryggi á haustmánuðum

Höfundur: Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur og verkefnastjóri hjá MS

Fæðuöryggi er nú efst á dagskrá alþjóðastofnana en stríðið í Úkraínu hefur aukið enn á þær áskoranir sem þó voru ærnar fyrir. Verð á matvælum hefur þotið upp um heim allan og milljónir eru á barmi hungursneyðar

 Erna Bjarnadóttir.

Alþjóðabankinn birti í júlí sl. skýrslu þar sem m.a. er að finna upplýsingar um hækkanir á matvælaverði víðs vegar um heiminn.

Meðfylgjandi mynd sýnir þessar hækkanir í nokkrum löndum heimsins sl. 12 mánuði fram til júlí síðastliðins. Gríðarlegar hækkanir eru í mörgum fátækum löndum sem reiða sig mjög á innflutning. Í þessum löndum ver fólk að jafnaði háu hlutfalli af ráðstöfunartekjum sínum, jafnvel allt að helmingi, til kaupa á matvælum. Hækkanir sem þessar stefna því lífskjörum almennings í voða.

Fátækustu lönd heimsins fara verst út úr ástandinu. Reikningur þeirra vegna kaupa á innfluttum matvælum hefur hækkað og í kjölfarið er hætta á að þau lendi í skuldavandræðum. Á sama tíma er hækkunin hvað minnst í hagkerfum eins og Kína (2,9%) og í Japan (3,7%) sem styður sinn landbúnað ríkulega. Á Íslandi mælist hækkun matvöruverðs 7,3%. Í fljótu bragði eru einu löndin í Evrópu þar sem hækkunin er minni en hér á landi, Írland, Frakkland, Lúxemborg, Sviss og Noregur (tölur fyrir maí). Tyrkland trónir á toppnum með 94,3% hækkun.

Horfur næstu mánuði

Þó matvæla- og hrávöruverð sé nú tekið að lækka á heimsmarkaði eftir að hafa náð sögulegum hæðum á fyrri hluta ársins er alls ekki fyrirséð með hversu lengi ástandið verður að ganga niður. Miklir þurrkar í Evrópu hafa lækkað spár um uppskeru og eru þær nú rétt neðan við meðaltal síðustu fimm ára hvað helstu korntegundir snertir. Víðs vegar í heiminum hafa lönd gripið til útflutningsbanns eða annarra takmarkana á útflutning á ýmsum matvælum til að tryggja framboð innanlands. Fyrrgreind skýrsla Alþjóðabankans gefur yfirlit yfir slíkar aðgerðir. Einnig hafa nokkur lönd gripið til takmarkana á útflutningi mikilvægra hráefna. Kína hefur t.d. bannað útflutning á hrá fosfór og útflutningur á áburði er leyfisskyldur. Kyrgistan og Rússland hafa einnig bannað útflutning á áburði og Úkraína á köfnunarefnisáburði.

Erfið staða bænda í Evrópu

Aðföng til landbúnaðar eru enn dýr í sögulegu samhengi og framboð þeirra að einhverju leyti háð óvissu. Þetta mun hafa áhrif á ákvarðanir bænda um hvort og hve mikið þeir munu framleiða á komandi mánuðum. Mjólkurframleiðendur í ESB skrifuðu opið bréf til Evrópusambandsins í júlí sl. Þar lýstu þeir stöðu framleiðenda og áhyggjum sínum af framtíðinni. Vegna mikilla verðhækkana á aðföngum eru margir bændur tekjulágir og safna jafnvel skuldum og geta ekki greitt sér laun. Í bréfinu kemur fram að laun bænda í Frakklandi séu aðeins um 430 kr/klst í laun (3,09 evrur), í Lúxemborg um 730 kr/klst og Litháen um 325 kr/klst. Danskir og hollenskir kollegar þeirra ná ekki endum saman og safna skuldum til að geta greitt sér laun. Þá má sem dæmi nefna að á fyrsta ársfjórðungi ársins 2022 hækkaði fóðurkostnaður í Frakklandi úr tæpum 15 kr/lítra mjólkur á árinu 2021 í ríflega 20 kr, eða um 33%. Svipaða sögu af kostnaðarhækkunum er að segja frá öðrum löndum.

Samtök mjólkurframleiðenda í Evrópu lýsa því miklum áhyggjum af stöðunni sem er uppi. Hana má ekki aðeins rekja til stríðsins í Úkraínu heldur einnig til þróunar landbúnaðarstefnu ESB sl. 20 ár. Miklar breytingar hafa verið gerðar á henni en afleiðingarnar eru núna að koma fram af fullum þunga. Þá benda samtökin á að mun meiri kröfur af ýmsu tagi eru gerðar til bænda í ESB en annars staðar í heiminum. Samtökin leggja áherslu á að sömu kröfur verði gerðar til framleiðsluaðferða við innfluttar landbúnaðarafurðir og gerðar eru innan ESB. Í bréfinu er beinlínis bent á nauðsyn þessa til að tryggja samkeppnisstöðu mjólkurframleiðenda og að því verði afstýrt að heilsu neytenda innan ESB sé með þessu, stefnt í hættu. Léleg afkoma og fækkun í stétt bænda ógnar því nú framtíð reksturs kúabúa og þar með mjólkurframleiðslu innan Evrópusambandsins.

Bændur á Íslandi standa frammi fyrir sömu áskorunum

Hér á landi hafa bændur einnig þurft að mæta nær fordæmalausum hækkunum á framleiðslukostnaði. Slíkt krefst aukins fjármagns fyrir reksturinn sem eykur enn á framleiðslukostnaðinn þegar vextir fara sömuleiðis hækkandi. Verð á innfluttu korni til fóðurs hefur hækkað undanfarið, t.d. á byggi til fóðurs sl. 12 mánuði (frá júlí ́21 – júní ́22) um 21%, á harðhveiti um 59% og á maís um 37%. Myndin sýnir þessa þróun frá ársbyrjun 2020

Lækkanir á aðfangaverði skila sér seint

Áburðarverð er nú tekið að lækka á heimsmarkaði eftir miklar hækkanir undanfarna mánuði. Alþjóðabankinn gefur mánaðarlega út vísitölu áburðarverðs. Árið 2010 liggur til grundvallar = 100. Í júlí 2022 stóð vísitalan í 213,08 stigum og hafði hækkað um 67,84% síðustu 12 mánuði. Í janúar 2022 var vísitalan 200,61 stig. Hún er því enn 6,2% hærri nú en var þá. Líklegt er að áburðarverð lækki áfram í takt við lækkun olíuverðs.

Á móti því vinna þó m.a. takmarkanir á útflutningi framleiðslu- landa sem fyrr voru nefndar og aukin fjárbinding í rekstri vegna hækkana á aðfangaverði á sama tíma og vextir hafa hækkað mikið.

Því er ljóst að áfram verða miklar áskoranir á framleiðsluhlið matvæla á komandi mánuðum.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...