Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
„Samanlagt erum við að tala um að hryssa sé í tökubásnum í 30-40 mínútur á ári að meðaltali. Þess á milli eru þær úti í náttúrunni og í haganum með folöldin sín,“ segir Gísli.
„Samanlagt erum við að tala um að hryssa sé í tökubásnum í 30-40 mínútur á ári að meðaltali. Þess á milli eru þær úti í náttúrunni og í haganum með folöldin sín,“ segir Gísli.
Fréttaskýring 18. desember 2021

Erfitt að sitja undir því að vera kallaður dýraníðingur

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

„Mér þykir mjög erfitt að sitja undir því að vera kallaður dýraníðingur. Eins og ég þekki starfsemina þá er aðbúnaður alveg til fyrirmyndar. Ég kannast ekki við þær aðferðir sem koma fram í myndbandinu og það er augljóst að þar hefur orðið einhver misbrestur. Það er mér framandi að starfsemin fari fram með þessum hætti,“ segir Gísli Sverrir Halldórsson dýralæknir. Hann hefur stundað blóðtökur í sjö ár.

Gísli segist ekki kannast við þá aðila sem uppvísir eru að harkalegri meðför dýra í myndbandi dýraverndarsamtakanna AWF/TSB og segir þá ekki dýralækna. Sjálfur þjónustar hann fimm bæi með 20-65 merum á hverjum stað.

Gísli Sverrir Halldórsson.

„Við kappkostum að allt sé gert í rólegheitum. Megnið af þeim hryss­um sem ég tek blóð úr eru tamdar, mismikið auðvitað. Þær temjast líka við að fara í tökubás og eru vanar þeim út af öðrum aðgerðum, s.s. þegar verið er að snyrta hófa, tagl og fax, gefa ormalyf og fangskoða. Ég fer tólf sinnum á blóðtökutímabilinu á hvern bæ, bæði til að taka sýni og blóð og fylgist með hryssunum. Blóðtakan sjálf tekur að meðaltali 5 mínútur og flestar hryssur fara 5-6 sinnum í blóðtökur. Sumar fara kannski þrisvar og nokkrar átta sinnum. Samanlagt erum við að tala um að hryssa sé í tökubásnum í 30-40 mínútur á ári að meðaltali. Þess á milli eru þær úti í náttúrunni og í haganum með folöldin sín.“

Annar raunveruleiki en myndbandið sýnir

Að sögn Gísla á búgreinin og starfsemin hér á landi ekkert skylt við suður-amerískar aðferðir.„Í sumar fylgdust erlendir gestir sem voru að kynna sér starfsemina með blóðtökum hjá mér og þeir voru gáttaðir á hvað hryssurnar voru rólegar og yfirvegaðar. Mér þótti vænt um að heyra það enda er það þvert á þá ímynd sem myndbandið bregður upp af þessari atvinnugrein. Það yrði enginn vandi að klippa saman myndbönd sem endurspegla allt annan raunveruleika. Samkvæmt minni reynslu fer blóðtaka fram í rólegheitum, við erum ekki í neinu kapphlaupi við tímann. Ég nota 1-2 tökubása á hverjum stað og stend við hlið hryssunnar og held við nálina meðan blóðtakan fer fram. Hryssurnar eru auðvitað misjafnar eins og reiðhrossin. Sumar kæra sig ekkert um mann á meðan aðrar lygna augunum og bíða.“

Eftirlitið telur hann gott en tekur því fagnandi verði það aukið. „Fyrir utan eftirlit okkar dýralækna með hryssunum og aðbúnaðinum á meðan við erum að störfum þá koma eftirlitsaðilar bæði frá MAST og Ísteka. Í mínu tilfelli hef ég fengið eftirlitsheimsóknir á alla bæina frá báðum aðilum á síðastliðnum tveimur árum. Það má vel auka það, til dæmis með myndatökum eða stikkprufum,“ segir Gísli.

Mögulegt bann ekki boðlegt

„Hesturinn er eina dýrategundin á Íslandi sem er bæði gæludýr og húsdýr. Aðeins hér á landi þekkist það að vera með hross í stóðum. Þú finnur ekki hjarðir á Norðurlöndum eða Evrópu. Þetta er sérfyrirbrigði á Íslandi, sér í lagi því við höfum landrýmið fyrir fjölda hrossa. Þess vegna er þessi starfsemi hér. Stóðbændur höfðu framan af tvo kosti til að afla tekna; annars vegar að selja til lífs og tamninga og hins vegar til manneldis. Svo bætist blóðmerarbúgreinin við fyrir rúmum 40 árum síðan og hefur hún vaxið síðan. Ég sé ekkert athugavert við hana en með þeim fyrirvara að rétt sé staðið að henni,“ segir Gísli.


Hann telur ekki vitrænt að stöðva búskapinn á grundvelli dýraníðs eins og lagt er til í frumvarpi sem nú er í meðförum Alþingis.

„Ég fagna því að það sé verið að fara ofan í saumana á starfseminni. Allir sem að henni koma mega líta í eigin barm, ekki síður dýralæknar en aðrir. En ég á erfitt með að sætta mig við ef þetta verður bannað á forsendum dýraníðs. Afleiðingin yrði slátrun á ríflega 5.000 hryssum sem yrði einfaldlega hent.“

Kemísk efni notuð hér á landi til að samstilla búfé

Gísli segir að verið sé að framleiða verðmæta afurð sem eftirspurn sé eftir.

„Úr blóðinu er unnið hormón sem notað er til að samstilla gangmál hjá búfénaði. Í öllum búrekstri, einnig hér á landi, eru efni notuð til að samstilla bæði kýr, kindur og hross. Það er gert hér á landi með kemískum efnum, unnið í efnaverksmiðjum. Afurðin sem fæst úr merarblóði er hins vegar lífræn og það er botnlaus eftirspurn eftir henni um allan heim.“
Dýralæknar fá greitt fyrir vinnu sína miðað við fjölda hryssa í blóðgjöf. Gísli segir að samningur milli Ísteka og dýralækna hafi verið endurnýjaður í sumar.

„Hann er mjög ítarlegur og ábyrgð dýralæknisins er skýr, við berum ábyrgð á blóðtökunni. Það vantar heldur ekki viljann hjá Ísteka og bændum til að vel að verki sé staðið og allir eru að vanda til verka að mínu mati.

Því það bera allir same­iginlega ábyrgð á því að gæta að velferð dýranna. Enda er bændum og dýralæknum sérstaklega umhugað um hana.“

Mikilvægt hlutverk dýralækna

„Dýrlæknarnir gegna mikilvægu hlutverki og leggja í raun mat á hverja hryssu við hverja blóðtöku. Þeir hafa komið með mikilvægar ábendingar um hvað má betur fara og þannig komið að því að móta starfsskilyrði fyrir greinina.

Sigríður Björnsdóttir.

Þrátt fyrir að alla jafna sé um reynslumikla dýralækna að ræða getur verið erfitt að hafa heildar yfirsýn eftir að blóðtaka hefst og því er þetta fyrirkomulag eitt af því sem er til skoðunar,“ segir Sigríður Björnsdóttir, sérgreinadýralæknir hrossa hjá Matvælastofnun.
Þótt dýralæknar vinni á akkorði sé enginn ávinningur fólginn í því fyrir þá að ýta undir stress og flýti.

„Hross eru viðkvæm og það versta sem þú gerir, ef þú ætlar að auka skilvirkni, er að stressa þau upp og gera þau örvingluð. Það ber öllum saman um.
Eina sem þú hefur upp úr því er að allt gengur verr. Sem betur fer er langalgengast að allir sem að blóðtökunni koma gangi fumlaust til sinna verka.“

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...