Erfið staða námsins
Þungt hljóð var í fulltrúum garðyrkjubænda á deildarfundi búgreinarinnar vegna stöðu garðyrkjunámsins á Reykjum sem nú er undir Fjölbrautaskóla Suðurlands (FSU).
Í máli Axels Sæland, formanns deildarinnar, kom fram að eftir að starfsmenntanámið á Reykjum var fært frá Landbúnaðarháskóla Íslands árið 2022 hafi skólastarfið farið hratt hnignandi og væri svo komið að það væri verulega vanfjármagnað sem kæmi niður bæði á kennsluaðstöðu og viðhaldi á tækjum og húsnæði. Ein birtingarmyndin væri sú að einungis fjórir nemendur af um 100 væru þar í staðnámi.
„Staða garðyrkjunámsins er afar veik, Reykir búnir að vera olnbogabarn menntakerfisins í langan tíma og ekki séð fyrir endann á því á meðan umgjörðin er ekki betri. En í grunninn vantar varanlega framtíðarsýn fyrir staðinn og námið sem þar fer fram. FSU hefur verið að leita leiða til að aðlaga námið þeirra starfi en finnur hvorki leiðir til hagræðingar né eflingar námsins,“ segir Axel um stöðuna.
Núverandi samningar ekki vaxtarhvetjandi
Axel fór á fundinum yfir sérstakar áherslur garðyrkjubænda í aðdraganda næstu búvörusamninga, eftir að núverandi samningstíma lýkur í lok árs 2026. „Við setjum fjögur atriði á dagskrá sem okkar helstu mál; tryggingarvernd, tollvernd, fjárfestingarstuðning og nýliðun. Öll þessi atriði passa með hinum búgreinunum. Svo þarf búvörusamningur að fara að snúast um hvernig við náum fram aukinni framleiðslu þar sem mikil eftirspurn er eftir öllum afurðum garðyrkjunnar. En núverandi samningar eru ekki vaxtarhvetjandi,“ segir hann.
Um nýliðun segir að hana þurfi að efla og styrkja grundvöll til kynslóðaskipta innan garðyrkjunnar. Núverandi nýliðunarstuðningur sé ógagnsær og ómarkviss og hafi ekki hvetjandi áhrif til nýliðunar. Tryggja þurfi gagnsæi við stuðningsúthlutanir og greiðan aðgang að fjármögnun á lægri vöxtum en þekkist í dag. Nýliðar í garðyrkju taki oftast við búum í rekstri og þurfi þá oft að bera háan viðhalds- eða framkvæmdakostnað á fyrstu árum rekstrarins. Tækniþróun sé ör innan landbúnaðarins og svigrúm þarf að vera fyrir nýliða til að hámarka framleiðni rekstursins með innleiðingu viðeigandi tækninýjunga.
Stöðugur afkomubati í blómum og salati
Ívar Ragnarsson, ráðgjafi hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) á rekstrar- og umhverfissviði, kom á fundinn og gerði grein fyrir rekstrarniðurstöðum garðyrkjunnar fyrir árið 2023. Helstu niðurstöður úr rekstrarverkefninu eru þær að afkoma ársins á heildina litið fyrir alla garðyrkjuna var 22,5 prósentum betri en árið á undan og sú besta á fimm ára tímabilinu þar á undan. Í yfirliti Ívars kom fram að garðyrkjan sé að meðaltali minna skuldsett en aðrar búgreinar. Afkoman var heldur lakari í ylræktinni en rótargrænmetinu á því ári sem skýrist meðal annars af meiri uppskeru í útiræktuninni. Stöðugur afkomubati hefur verið á undanförnum árum í framleiðslu á blómum og salati.
„Rekstrargreining RML er alltaf áhugaverð og þar sýndi sig svart á hvítu núna hvað útiræktin er sveiflukennd grein. Árið 2023 var gott ár í útirækt og allt var með bændum og því verður afar fróðlegt að sjá hvernig 2024 kemur út þar sem það var afar erfitt ár veðurfarslega,“ segir Axel.
Axel áfram formaður
Axel verður áfram formaður garðyrkjudeildar Bændasamtaka Íslands, en hann er blómabóndi á Espiflöt í Reykholti.
Þau Óli Björn Finnsson í Heiðmörk Laugarási, Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir hjá Sólskins grænmeti, Flúðum og Eygló Björk Ólafsdóttir, Vallanesi á Fljótsdalshéraði munu áfram starfa með honum í stjórn. Jón Helgi Helgason, kartöflubóndi á Þórustöðum í Eyjafirði, fer úr stjórn og Guðni Þór Guðjónsson, kartöflubóndi hjá Garðagulli í Þykkvabænum, kemur nýr inn.
