Endurskoðuð landsáætlun um útrýmingu á riðu
Landsáætlun stjórnvalda og bænda um útrýmingu á sauðfjárriðu var nýlega endurútgefin í endurskoðaðri útgáfu.
Hún var upphaflega undirrituð 8. júlí 2024 af þáverandi matvælaráðherra, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttur, Hrönn Ólínu Jörundsdóttur, forstjóra Matvælastofnunar, og Trausta Hjálmarssyni, formanni Bændasamtaka Íslands. Með henni er stefnt að útrýmingu á riðuveiki í sauðfé hér á landi með umtalsvert breyttri nálgun. Horfið er frá því að reyna að útrýma riðusmitefninu sjálfu og megináhersla lögð á að útrýma veikinni með ræktun fjárstofns sem ber verndandi arfgerðir gegn riðu.
Helstu breytingar lúta að uppfærslu ræktunaráætlana í kafla þrjú og breytinga á kafla átta sem fjallar um fjármál og bætur.
Orðalags- og efnisbreytingar
Meðal orðalagsbreytinga má nefna að orðið „heimaeinangrun“ er skipt út fyrir orðalagið „fé skuli haldið innan fjárheldra girðinga fjarri öðru fé“. Ástæðan er sú að orðið einangrun er talið hafa of þrönga merkingu miðað við takmarkanir sem gilda um fé á riðubæ í kjölfar uppkomu riðuveiki. Það sé til dæmis leyfilegt að setja á afrétt fé úr riðuhjörð sem er arfhreint með verndandi arfgerð eða sem hefur mögulega verndandi genasamsætu á móti verndandi genasamsætu – og þannig er mögulegt að hluti hjarðarinnar sé ekki í einangrun.
Meðal annarra markverðra breytinga má nefna að í kafla 3.3 er fjallað um mögulegar undanþágur fyrir gripi með einstaka eiginleika, með tilliti til arfgerða, og að það sé fagráð í sauðfjárrækt sem hafi heimild til að veita þær.
Þessu er breytt á þann veg að undanþágur verði veittar af MAST af fenginni umsögn frá fagráði í sauðfjárrækt og erfðanefnd landbúnaðarins. Rétt þykir að slíkar undanþágur séu á hendi stjórnsýslustofnunar.
Þá er tafla fjögur uppfærð í kafla 3.3 miðað við árið 2025 og markmið sett fyrir árin 2027 og 2029, en í 1. útgáfu voru markmið ekki sett fyrir þau ár. Bætt er við markmiðum fyrir ær á áhættubæjum og öðrum bæjum í áhættuhólfi, frá og með árinu 2026.
Í kafla 3.3. er tafla fimm uppfærð og breytt, þannig að árið 2025 verði meira en 95 prósent sölulamba með arfgerðir V/x eða MV/x og engin með VRQ/x [V=Verndandi, MV=Mögulega verndandi].
Þannig geta allt að fimm prósent sölulamba verið með arfgerðina ARQ/ARQ. Gert er ráð fyrir að slík lömb séu þá eingöngu frá líflambasölusvæðum og háð leyfi frá Matvælastofnun.
Greiðslur samkomulag ráðuneyta og MAST
Meðal breytinga sem varða fjármál má nefna að í inngangi að áttunda kafla eru tilvísanir í einstaka fjárlagaliði teknar út, þar sem fjárlagaliðir geta breyst. Þess í stað er vísað í ríkissjóð og orðalag verður almennt þannig að útfærsla á framkvæmd greiðslu kostnaðar og bóta verði samkvæmt samkomulagi milli ráðuneyta og MAST, það er ráðuneyta fjármála og atvinnuvega, í stað þess að tilgreina nákvæmlega hvernig staðið skuli að framkvæmd.
Samhliða er hnykkt á því með breyttu orðalagi að hlutverk atvinnuvegaráðuneytis sé að afla fjárheimilda og að hlutverk Alþingis sé að veita fjármuni í verkefni. Fyrra orðalag var ekki talið nægilega nákvæmt, en þar sagði eingöngu að ráðuneytið annaðist fjármögnun.
Stjórnsýsla afurðatjónsbóta til MAST
Loks eru endurbætur á ákvæðum um bætur. Varðandi útgreiðslu bóta verður sú breyting að gert er ráð fyrir að stjórnsýsluleg úrvinnsla afurðatjónsbóta færist til MAST, en í 1. útgáfu var gert ráð fyrir að það væri í verkahring ráðuneytisins, þannig myndast réttur bónda til að kæra stjórnvaldsákvörðun MAST til ráðuneytisins. Einnig er hnykkt á orðalagi um bætur fyrir hluti og efni á þann hátt að nú er skýrt að bæturnar eiga við um það sem er fargað samkvæmt fyrirmælum MAST.
Í kafla 8.1. var notað orðalagið „framkvæmd“ í stað „viðgerða“ varnargirðinga, en í endurskoðaðri útgáfu er talið nauðsynlegt að verkefnið nái einnig til þess að fjarlægja girðingar. Tekið var út að MAST geri samninga við verktaka sem er talið óþarft að tiltaka sérstaklega þannig að stofnunin hafi frjálsar hendur um útfærslu á framkvæmd. Hnykkt er á orðalagi varðandi úrvinnslu umsókna um greiðslur þannig að greiðslur séu almennt inntar af hendi innan tiltekins dagafjölda frá fullnægjandi umsókn.
Bætur fyrir hluti og efni byggist á mati matsmanns
Í sama kafla er ákvæði breytt varðandi bætur fyrir bústofn sem skorinn hefur verið niður, þannig að þær skuli byggjast á umsókn og framlagningu reikninga fyrir kaupum líflamba í stað þess að setja bótaupphæð fyrir hvern grip í reglugerð. Þá kemur nú einnig fram að sé kaupum líflamba ekki lokið innan þriggja ára frá niðurskurði, eða endurreisn bústofns fer ekki fram, verði bætt á grundvelli þess sem út af stendur og tekið mið af markaðsverði líflamba með V/x arfgerð (arfblendið með verndandi arfgerð).
Þá er í sama kafla breytt ákvæði um bætur fyrir hluti og efni sem er fargað að fyrirmælum MAST í kjölfar uppkomu riðuveiki.
Gert er ráð fyrir að þær skuli byggjast á umsókn og framlagningu matsblaðs óháðs matsmanns sem skilar mati sínu bæði til bóndans og MAST, í stað þess að MAST vinni og ákveði bætur án umsóknar og aðkomu viðkomandi bónda í upphafi málsmeðferðar.
