Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 mánaða.
Ásamt mörgum sjálfboðaliðum hafa ungmenni úr umhverfishópi Landsvirkjunar í Blöndustöð verið burðarásinn í
gróðursetningu trjáa við endurheimt Brimnesskóga í Skagafirði.
Ásamt mörgum sjálfboðaliðum hafa ungmenni úr umhverfishópi Landsvirkjunar í Blöndustöð verið burðarásinn í gróðursetningu trjáa við endurheimt Brimnesskóga í Skagafirði.
Á faglegum nótum 21. júlí 2025

Endurheimt íslenskra birkiskóga

Höfundur: Steinn Kárason, garðyrkjufræðingur, umhverfishagfræðingur og rithöfundur.

ÍSLENSKU birkiskógarnir sem vaxið hafa hér á landi frá ómunatíð eru einu náttúrulegu skógarnir á Íslandi. Ilmbjörkin (Betula pubescens) – birkið okkar ásamt reynivið, eini, gulvíði , nokkrum öðrum víðitegundum og líklega blæösp eru þær viðartegundir sem hér uxu við landnám. Birkið er að sönnu eina innlenda tegundin sem myndar skóga. Birkiskógarnir eru náttúruskógar að réttnefni og sannkallaður útgangspunktur þegar rætt er um endurheimt landgæða og upprunalegra vistkerfa.

Endurheimt Brimnesskóga: Kynbætt birki, ljóst á börk og einstofna sem á rætur að rekja í Geirmundarhólaskóg.

Birki þrífst vel um allt land, frá fjöru og upp í um sex hundruð metra hæð yfir sjávarmál. Það getur orðið fimmtán metra hátt og blómgast karlreklum og kvenreklum í maí– júní. Frjótíminn varir að jafnaði í 2–3 vikur eftir veðri. Fræið nær fullum þroska í september og október en fræsöfnun getur staðið lengur fram á haust eftir aðstæðum. Eftir þurrkun og verkun fræsins má sá því að hausti eða vori í hálfgróið og beitarfrítt land eða í gróðurhús. Við sáningu þarf fræið bindingu við jarðveg en ekki á að hylja það nema sem nemur þykkt þess.

Íslenskar rannsóknir gerðar á birki í Bæjarstaðaskógi hafa sannað að núlifandi birki hefur náð 140–150 ára aldri. Vegna þess hve skammur tími er liðinn frá því að friðun skóga hófst segir heilbrigð skynsemi okkur að birki geti orðið eldra en niðurstöður rannsóknanna segja til um. Birki fjölgar sér með fræi en líka með greinum sem vaxa frá rótarhálsi trjáa sem hafa verið felld eða fallið hafa um koll. Dæmi eru um að birki hafi vaxið upp af rótarhálsi trjáa sem hafa verið hulin lyngi í nokkur hundruð ár.

Hið hraða landnám birkis á Skeiðarársandi er undravert og merkilegt að upplifa. Þar hefur á nokkrum áratugum vaxið upp einn víðfeðmasti birkiskógur landsins sem nær yfir um þrjátíu og fimm ferkílómetra lands. Að birkiskógur vaxi upp úr svartri sandauðn án aðkomu manna er dæmi um ótrúlega framvindu náttúrunnar.

Í lok ársins 2021 undirritaði þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra staðfestingu íslenskra stjórnvalda þess efnis að Ísland tæki þátt í alþjóðlegu átaki um endurheimt náttúruskóga, svokallaða Bonn-áskorun. Þátttaka Íslands í verkefninu hafði það að markmiði að auka útbreiðslu náttúrulegra birkiskóga á landinu úr 1,5% af flatarmáli landsins, eins og staðan var þá, í 5% til ársins 2030.

Markmiðið með þessum aðgerðum var meðal annars að endurheimta forn landgæði, virkni og heilbrigði vistkerfanna á stórum landsvæðum víðs vegar um landið. En einnig að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka kolefnisbindingu. Bonnverkefnið er alþjóðlegt átak um endurheimt náttúruskóga víða um heim og er skipulagt af Alþjóða náttúruverndarsamtökunum IUCN.

Endurheimt birkiskóga á Íslandi er þjóðþrifamál. Í birkiskógunum er fólginn ómetanlegur fjársjóður fyrir íslensku þjóðina. Endurheimtir, jafnt sem óspjallaðir birkiskógar endurreisa líffræðilega fjölbreytni. Þeir viðhalda og varðveita fjölbreytni lífríkisins. Það er skylda okkar sem þjóðar að gæta þessa fjársjóðs.

Birkiskógarnir veita skjól og eru búsvæði fjölda dýra og plantna. Þeir eru vatnsforðabúr, binda, hreinsa og miðla vatni, binda jarðveg og koltvísýring. Birkiskógarnir viðhalda líka og auka frjósemi jarðvegsins.

Í og við birkiskóga vex fjöldi íslenskra drykkjar- og lækningarjurta s.s. blágresi, bláber, aðalbláber og jarðarber. Birkið sjálft hefur verið notað til lækninga og er það blóðþrýstingslækkandi og bólgueyðandi. Börkinn má nota til lækninga og birkisafa til drykkjar og víngerðar. Birkilauf er gott gegn gigt og það styrkir nýrun ásamt öðrum jurtum. Markaður er hér á landi fyrir birki til smíða og upphitunar.

Minnumst líka þeirra menningarverðmæta sem fólgin eru í íslenskum birkiskógum. Birkiskógar landsins eru afar vinsæl og fjölsótt útivistarsvæði sem um aldaraðir hafa veitt mönnum andlega og líkamlega upplyftingu og innblástur í ljóðum og skáldskap.

Niðurstöður finnskra rannsókna benda til þess að birki lagi sig staðbundið að vaxtaraðstæðum. Umhverfisþættir svo sem samspil birtu og myrkurs, hita og kulda eru taldir áhrifaþættir í þessu sambandi. Má líkja því við staðbundna laxastofna þar sem hver stofn lagar sig að aðstæðum í sinni á. Þess vegna er talið að í hverjum landshluta ætti að leggja áherslu á ræktun á sérvöldu birki sem þar hefur vaxið frá öndverðu.

Vel fer á því að sveitarfélög, áhugamenn og félög á landinu setji sér markmið um vernd og endurheimt birkiskóga sem og því að gróðursetja nýja birkiskóga. Sú ágæta hugmynd hefur verið sett fram að ástæða sé til að styrkja skógrækt með innlendum trjátegundum með hærri framlögum en greidd eru fyrir ræktun með innfluttum ágengum trjátegundum. Slíkt þekkist til dæmis í Skotlandi og á Írlandi þar sem fjármagni er veitt til að hvetja til ræktunar upprunalegra trjátegunda.

Hvernig sem á málið er litið þarf að vanda til verka við endurheimt íslensku birkiskóganna. Forðast ber við alla skógrækt að hindra útsýni og leggja áherslu á að vernda margrómað íslenskt víðsýni til fjalls og fjöru. Einnig að gæta þess að varðveita sérstæðar náttúruminjar og menningarsögulegar minjar. Ánægjulegt væri að öll ár væru ár íslenska birkisins.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...