Ekkert spínat að finna í vöru merkt sem „spínat“
Vara frá Lambhaga hefur ranglega verið merkt sem „spínat“ á undanförnum vikum í verslunum.
Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur (HER) barst í sumar kvörtun frá neytanda um breyttar merkingar á vörunni „spínatkál“ frá Lambhaga – þar sem vöruheitið „spínat“ væri komið í staðinn með latneska heitinu „brassica rapa“. Rétt latneskt heiti á spínati er hins vegar „spinacia oleracea“.
HER gaf Lambhaga mánaðarfrest til endurmerkinga, eða til 1. ágúst. Í eftirlitsferðum í september var hins vegar verið staðfest að varan hefur enn ekki verið endurmerkt. Var í framhaldinu haft samband við fyrirtækið og ítrekað að endurmerkja skyldi vöruna. Í skýringum frá Lambahaga til HER kom fram að nýir miðar væru enn í prentun og staðfesting á nýju útliti miða hefur nú borist þar sem varan er skýrt merkt spínatkál. Anna Jóhannesdóttir, heilbrigðisfulltrúi HER, segir að málinu verði áfram fylgt eftir.
Sambærilegt mál Lambhaga frá 2016
Sambærilegt mál kom upp árið 2016, þegar Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur barst kvörtun frá Hollt og gott vegna merkinga á vöru frá Lambhaga, sem „Lambhagaspínat“.
Við rannsókn og eftirlit HER á málinu kom í ljós að um var að ræða káltegundina „brassica rapa“. Samkvæmt upplýsingum frá Lambhaga til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur var um að ræða Komatsuna-fræ sem nefnast „Japanese mustard spinach“ á ensku.
Í framhaldinu var farið fram á að Lambhagi breytti um merkingar, enda talið villandi að merkja kál sem spínat. Niðurstaða Lambhaga var að merkja kálið sem spínatkál og leitaði HER staðfestingar MAST á því hvort að sú merking væri heimil.
Þar sem spínat er notað í samsettum orðum og þekkist í t.d. Fjallaspínat taldi MAST að heitið uppfyllti skilyrðin og hefur Lambhagi merkt Brassica rapa með íslenska heitinu spínatkál siðan. Latneska heitið hefur verið látið fylgja en heilbrigðiseftirlitið telur að það sé þá enn skýrara fyrir neytendur að ekki sé um að ræða spínat þ.e. spinacia oleracea. /smh
