Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 mánaða.
Afrískir bændur eiga í vök að verjast gagnvart skordýraeitri sem bannað hefur verið innan ESB en evrópsk varnarefnafyrirtæki framleiða áfram og selja fátækari ríkjum.
Afrískir bændur eiga í vök að verjast gagnvart skordýraeitri sem bannað hefur verið innan ESB en evrópsk varnarefnafyrirtæki framleiða áfram og selja fátækari ríkjum.
Mynd / Pixabay
Utan úr heimi 14. maí 2025

Eitruð viðskipti sem bitna á fátækari ríkjum

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Eiturefni sem Evrópusambandið hefur bannað notkun á innan álfunnar flæða nú inn til Afríku.

Ýmis varnarefni sem ESB hefur bannað notkun á innan vébanda sinna eru áfram framleidd í Evrópu og flutt út, ekki síst til Afríku.

Euronews greinir frá og segir t.a.m. s-afríska bændur nú berjast með kjafti og klóm gegn því sem kallað er „eitruð viðskipti“ ESB með skordýraeitur. Er dæmi tekið af vínræktarbónda í grennd við Höfðaborg sem eftir fjörutíu ára farsælan búskap fékk skyndilega alvarlega mæði og missti í kjölfarið heilsuna, vinnuna og þar með heimili sitt. Er sökudólgurinn talinn vera efnablandan Dormex, en virka innihaldsefni hennar, sýanamíð, sem almennt er notað sem vaxtarstillir plantna í Suður-Afríku, hefur verið lýst sem stórhættulegu af Efnastofnun ESB (ECHA) og bannað í ESB síðan 2009. Þrátt fyrir þetta er Dormex aðeins eitt fjölmargra áþekkra hættulegra efna sem áfram eru framleidd innan Evrópu og seld til þróunarríkja. Vart hefur orðið við nýlega aukningu sjúkdóma í Afríku, svo sem lungnaskemmda, krabbameins og sjónskerðingar, og þeir raktir m.a. til notkunar evrópsks skordýraeiturs.

Þúsundir tonna eiturefna flutt út

ESB og Bretland munu hafa flutt út þúsundir tonna af þar bönnuðum varnarefnum til fátækari landa síðustu misserin. Fæða sem framleidd er m.a. í Afríku með þessum efnum er síðan flutt inn til sölu í stórmörkuðum Evrópu. Samkvæmt African Center for Biodiversity eru 192 mjög hættuleg varnarefni enn í notkun í SuðurAfríku, þar af eru 57 þeirra bönnuð til notkunar í ESB. Sum eru taugaeitur eða krabbameinsvaldandi en önnur eru talin bráðeitruð fyrir umhverfið. Stjórnvöld í Suður-Afríku vinna að því að takmarka notkun hættulegra efna í landbúnaði í áföngum en hafa verið gagnrýnd fyrir litla eftirfylgni.

Afrískir bændur hittust til skrafs og ráðagerða um þessa alvarlegu stöðu á ráðstefnunni People's Tribunal on Agrotoxins, sem fram fór í Stellenbosch í Suður-Afríku í mars. Bændur hvöttu Evrópu til að hætta að senda eiturefni sín til Afríku og bentu á að risar í varnarefnaframleiðslu hafi fundið glufur innan ESB til að flytja út bönnuð efni og selja. Bent var á Rotterdam-samninginn sem hvetji til upplýstrar ákvarðanatöku landa sem versla með hættuleg efni.

Evrópa spyrnir við fótum

Evrópusambandið hefur unnið að stefnuáætlun fyrir landbúnað og skv. Euronews eru þar sett fram markmið um að takmarka innflutning á matvælum frá þróunarríkjum sem innihalda leifar varnarefna sem bönnuð eru í Evrópu. Þá er reynt að finna leiðir til að stöðva útflutning frá Evrópu á bönnuðum varnarefnum, en öll áform um slíkt hafa mætt harðri andstöðu frá samtökum efnaframleiðenda.

Skylt efni: varnarefni

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f