Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Linde Gas á Íslandi er í fullri eigu langstærsta gasfyrirtækis heims, Linde plc.
Linde Gas á Íslandi er í fullri eigu langstærsta gasfyrirtækis heims, Linde plc.
Mynd / ghp
Fréttir 15. ágúst 2024

Einokun og afleit þjónusta

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Viðvarandi skortur á framboði á koltvísýringi hefur haft áhrif á garðyrkjuframleiðendur á Íslandi. Aðeins eitt fyrirtæki á Íslandi útvegar alla kolsýru hér á landi.

Að sögn bænda hefur fyrirtækið Linde Gas, sem er í markaðsráðandi stöðu, ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart framleiðendum.

Hvorki hafa viðskiptavinir Linde Gas fengið umsamið magn koltvísýrings né á þeim tíma sem þeir þarfnast hans. Dæmi séu um að fyrirtækið hóti skerðingu á þjónustu og niðurfellingu á viðskiptakjörum ef hreyft sé við mótmælum.

Axel Sæland, formaður búgreinadeildar garðyrkjubænda.

„Það hafa komið tímabil þar sem við fáum annaðhvort tilkynningu um að ekki sé hægt að afhenda vöruna, eða þá að það sé frestun á afhendingu og við því beðin um að skrúfa niður í gróðurhúsunum og spara á meðan,“ segir Axel Sæland, formaður búgreinadeildar garðyrkjubænda hjá Bændasamtökunum.

Bændur hafi lent í því að vera koltvísýringslausir svo vikum skiptir sem hefur bein áhrif á framleiðslumagn og gæði afurðanna. Þetta kemur aftur niður á rekstraröryggi garðyrkjustöðvanna. Axel segir að Linde Gas hafi borið fyrir sig skort á koltvísýringi. „Þeir vitna yfirleitt í þá borholu sem þeir hafa verið að vinna úr hér á landi.“

Hann bendir á að fyrirtæki sem séu með einokun á markaði lúti ákveðnum skuldbindingum gagnvart markaðnum. „Markaðurinn er í dag háður þessu fyrirtæki á Íslandi. Þeir þurfa að vanda til verks og það á að vera viðskiptavinum til góða að geta leitað til trausts aðila.“

Viðskiptasamband Linde Gas við garðyrkjubændur felst í því að bændur gera samning um að leigja af þeim tanka fyrir ákveðið mánaðargjald og skuldbinda sig um leið til að kaupa af þeim áætlað magn af koltvísýringi. Fyrirtækið á að sjá um að fylla á tankana þegar þeir tæmast.

„Bændur þurfa ákveðið afhendingaröryggi svo framleiðslan detti ekki niður. Fyrirtækið vill líka öryggi á notkun tanka sem þeir útvega. Bændur skuldbinda sig fyrirtækinu alveg með því að leigja tank frá þeim, því þeir mega eingöngu kaupa koltvísýring frá Linde Gas,“ segir Axel.

Hins vegar hafi margir bændur orðið fyrir framleiðslubresti vegna þess að fyrirtækið afhendir ekki koltvísýring á réttum tíma. „Það er bagalegt fyrir bændur að vera að leigja tank sem ekki er fyllt á. Það virðist vera undir hverjum bónda fyrir sig komið, eins og staðan er í dag, að fá leigu á tanki niðurfellda ef tankur er tómur eða ef þeir geta ekki afhent koltvísýring.“

Dæmi séu um að úr sér gengnir tankar hafi verði í notkun á garðyrkjustöðvum og bændur hafi skoðað þann möguleika að fjárfesta sjálfir í tanki en forsvarsmenn Linde Gas þá sett þeim stólinn fyrir dyrnar með því að skerða þjónustu við þá og hækka verð.

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir eigandi Sólskins grænmetis.

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjubóndi og eigandi Sólskins grænmetis, sleit viðskiptasambandi við fyrirtækið og stendur nú sjálf að innflutningi á koltvísýringi.

„Við fórum því í þá vegferð að kaupa sjálf tanka erlendis frá, sem varð til þess að Linde Gas, eini aðilinn á landinu sem selur koltvísýring, hótaði því að þau myndu ekki afgreiða okkur nema á hærra verði,“ segir hún.
Draumurinn sé að geta fengið koltvísýringinn hér heima en á Hæðarenda í Grímsnesi er slík framleiðsla fyrir hendi. Linde Gas hefur hins vegar yfir þeirri auðlind að ráða.

Linde Gas á Íslandi er í fullri eigu langstærsta gasfyrirtækis heims, Linde plc. Fyrirtækið hér á landi er afar stöndugt, hefur skilað hagnaði svo árum skiptir og greitt eigendum sínum þrjá milljarða króna í arðgreiðslu á síðastliðnum fimm árum.

Sjá nánar í 14. tölublaði Bændablaðsins sem kom út í dag.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f