Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Eignaupptaka í nafni sjálfbærrar landnýtingar?
Lesendarýni 13. mars 2024

Eignaupptaka í nafni sjálfbærrar landnýtingar?

Höfundur: Dr. Sigurður E. Jóhannesson, umhverfis- og auðlindafræðingur.

Í Samráðsgátt stjórnvalda lágu fyrir skemmstu til umsagnar drög að reglugerð um sjálfbæra landnýtingu.

Líklegt má telja að öll – eða í það minnsta vel flest – séum við sammála um mikilvægi skynsamlegrar nýtingar landsins gæða og ósammála óskynsamlegri og óvandaðri nýtingu sem gengur um of á auðlindirnar og leiðir til hnignandi ástands lands.

Við ættum einnig öll að vera sammála um að kapp er best með forsjá þegar kemur að lagasetningu. Lagasetning ætti einnig alltaf að miðast við möguleikann á verstu mögulegu ráðamönnum.

Drög að reglugerð um sjálfbæra landnýtingu – og reyndar lögin sem hún byggir á – lög um landgræðslu nr. 155/2018 – fellur því miður algerlega á prófinu um hina verstu mögulegu ráðamenn.

Hér er yfirvöldum gefin heimild til að skikka landeigendur til að gera úrbætur á landi sínu, telji yfirvaldið að slíkra úrbóta sé þörf. Verði landeigandi ekki við kröfum yfirvalda getur hann átt von á sektum sem geta numið allt að 500.000 krónum á dag.

Hættan af vondu yfirvaldi

Hér er að ýmsu að huga.

  1. 1. Reglugerðin (og reyndar lögin) virðist ganga í berhögg við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar 72. gr. – þ.e. á þeim löndum sem eru í einkaeigu.
  2. Hvað er „sjálfbært“ er sjaldan eða aldrei hægt að skilgreina með nákvæmni. Auðvelt yrði því fyrir hið vonda yfirvald að nýta sér þetta með því að setja fram ýtrustu kröfur um úrbætur.
  3. Skilyrði 10. gr. reglugerðar- draganna um að mat landsins skuli byggja á „...viðurkenndum vísindalegum grunni ...“ nær ekki að girða fyrir hættuna sem nefnd er í lið 2 hér að ofan. Yfirvald sem hefur illan ásetning mun nefnilega einnig ákvarða hver hinn viðurkenndi vísindalegi grunnur er.

Reglugerðin (og lög 155/2018) er því berskjölduð fyrir hættunni af vondu yfirvaldi.

Sviðsmynd í boði reglugerðar um sjálfbæra landnýtingu

Hér er sviðsmynd sem reglugerðin og lögin bjóða t.d. upp á:

Djúp kreppa hefur skollið á, á Íslandi.

Fólk berst í bökkum um allt land.

Eins og oft gerist við slíkar aðstæður, hallar fólk sér að „sterkum“ leiðtogum.

Hinn sterki leiðtogi – eða hið sterka/öfgasinnaða stjórnmálaafl – kemst til valda.

Leiðtoginn er valdgírugur og leitar allra leiða til að styrkja og efla völd sín.

Ein leið til að styrkja valdið er að gera almenning veikan og háðan leiðtoganum.

Leiðtoginn sendir því embættismenn sína út um allt land til að meta hversu sjálfbær landnýting bænda og annarra landeigenda er.

Leiðtoginn gætir þess að gera kröfurnar mjög strangar – allt undir yfirskini þess að landið sé undirstaða velferðar og því verði að tryggja sjálfbærni þess.

Fáir hafa tök á að ráðast í endurbæturnar sem farið er fram á enda kreppan að leika fólk illa.

500.000 króna dagsektirnar hlaðast upp hjá landeigendum út um allt land. Á einu til tveimur árum er skuld flestra landeigenda við ríkið, vegna dagsektanna, orðin hærri en verðgildi jarða þeirra.

Leiðtoginn leysir til sín jarðir landeigenda upp í skuldir þeirra við ríkissjóð.

Enginn getur kvartað eða leitað réttar síns enda fór leiðtoginn að lögum í einu og öllu – lögum nr. 155/2018 og reglugerðinni sem hér er til umfjöllunar.

Einhverjum kann að finnast þessi sviðsmynd langsótt. Ég bið þá sömu um að skoða söguna sem er stútfull af dæmum sem þessum.

Niðurstaða
  1. Landgræðsla og sjálfbær landnýting er góð.
  2. Leiðbeiningar frá Landi og skógi til landeigenda eru góðar.
  3. Lögbinding úrbóta sem ákvarðaðar eru af hinu opinbera og viðhangandi sektarákvæði eru glapræði.

Ég skora á alla landeigendur og aðra umráðamenn lands að mótmæla ólögum sem þessum og minni í því samhengi á orð Periklesar, eins helsta frömuðar hins gríska lýðræðisríkis: „Það að þú hafir ekki áhuga á stjórnmálum þýðir ekki að stjórnmálin hafi ekki áhuga á þér.“

Góður ásetningur réttlætir ekki vond lög.

Kapp er best með forsjá.

Endurskoða þarf lög um landgræðslu nr. 155/2018 og þá reglugerð sem fjallað hefur verið um hér m.t.t. lögbindingar úrbóta og viðhangandi sektarákvæða.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...