Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Fjöldi bænda var á Mannamót í Reykjavík.
Fjöldi bænda var á Mannamót í Reykjavík.
Mynd / TB
Skoðun 1. febrúar 2017

Eiga bændur sér viðreisnar von?

Höfundur: Tjörvi Bjarnason
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra nefndi það  í eldhúsdagsræðu sinni í fyrradag að Ísland þyrfti að tvöfalda útflutningstekjur sínar á næstu 15 árum.  Hann taldi varasamt að reyna að ná þessu markmiði með því einu að sækja meira sjávarfang eða bræða meira af málmum heldur þyrfti að skjóta fleiri stoðum undir útflutninginn og bæta verðmætasköpun þess sem við höfum úr að spila. Tækifærin liggja í nýsköpun og þróun. Þarna sperrti ég eyrun og leiddi hugann að því hvað landbúnaðurinn geti lagt af mörkum. Ég er einn af þeim sem trúi því að bændur geti aukið tekjur sínar umtalsvert á næstu árum með tækni og þekkingu að leiðarljósi.
 
Í blaðinu er viðtal við kúabændurna í Smjördölum í Flóa. Það er gott dæmi um bú sem hefur gengið í gegnum miklar breytingar, bæði hvað varðar tækni og nýtísku aðbúnað fyrir bústofn og starfsfólk. Nýtt fjós búið mjaltaþjóni og öðrum tækjabúnaði ásamt góðri þekkingu bændanna hefur stóraukið afurðir búsins síðustu tvö ár. Þetta er frábært og skapar aukna hagsæld.
 
Bjarni talaði líka um umhverfismálin og þá  ógn sem steðjar að vegna hlýnunar jarðar af völdum gróðurhúsalofttegunda. Nefndi hann þar aðgerðaráætlun í tengslum við Parísarsamkomulagið og áform ríkisstjórnarinnar að setja fleiri græna hvata í hagkerfið. Meðal annars að hvetja til skógræktar og landgræðslu og orkuskipta í samgöngum. Það er gott að forsætisráðherra tekur þessi mál upp í stefnuræðu sinni og vonandi munu orðum fylgja efndir.
 
Hann nefndi líka velgengni ferðaþjónustunnar sem byggist á þrotlausri vinnu og markaðsstarfi. Landbúnaðurinn tengist ferðaþjónustunni traustum böndum eins og sést best á næstu síðu þar sem ferðaþjónustuaðilar af landsbyggðinni komu til Reykjavíkur á Mannamót. Bændur voru þar áberandi við að kynna sína þjónustu. Krafturinn í ferðaþjónustunni seytlar um allt samfélagið og ekki síst um landsbyggðina þar sem verðmætin felast í óspilltri náttúrunni og gróskumiklu mannlífi.
 
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir fær nú það verkefni að leiða landbúnaðarmálin í nýju ríkisstjórninni. Hún getur sett mark sitt á þróun atvinnugreinarinnar og vonandi verða verk hennar gæfurík. Margir bændur telja að þeir sem nú stjórni ráðuneytinu hafi það að markmiði að auka innflutning á búvörum og veikja þá skipan mála sem við búum við í dag. Það getur varla verið það sem Viðreisn hefur í huga, a.m.k. segir Jóna Sólveig Elínardóttir, varaformaður flokksins, í þessu blaði að flokkurinn beri hag bænda fyrir brjósti.
 
Greinilegt er þó að Benedikt Jóhannessyni, formanni flokksins, er umhugað um að liðka fyrir innflutningi á erlendum matvörum eins og kom fram í hans eldhúsdagsræðu í fyrradag. Til að lina áhyggjur manna má benda á að stjórnarmeirihlutinn byggir á minnsta mögulega þingmannafjölda. Kollsteypur í þessum málaflokki verða ekki gerðar nema þingmenn allra stjórnarflokkanna leggist á eitt. 
 
Lykillinn að því að allt fari vel er að fólk tali saman og sýni skilning á hugmyndum hvað annars. Síðan þarf að vega og meta, með öll tiltæk rök og gögn fyrir framan sig, hvaða skref er skynsamlegt að stíga. Markmiðin eru að auka hagsæld og hamingju okkar allra. Það getum við verið sammála um.
 
Hvað sem segja má um stefnu Viðreisnar í landbúnaðarmálum þá er fagnaðarefni að í fyrsta sinn ræður kona ríkjum í ráðuneytinu. Kannski hefur hinn karllægi búnaðarheimur gott af því að fá konu við stýrið til tilbreytingar?
Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...