Eftirlit eftirlitsins vegna
Á dögunum stóðu Bændasamtök Íslands, ásamt Samtökum fyrirtækja í landbúnaði fyrir Degi landbúnaðarins – í Borgarnesi að þessu sinni – undir yfirskriftinni „Við erum öll úr sömu sveit“. Þar vorum við að sjálfsögðu að vísa í auglýsingar okkar sem ætlað er að minna almenning á tengingu þeirra við bændur og matvælaframleiðendur. Að við Íslendingar séum öll í rauninni úr sömu sveit.
En á Degi landbúnaðarins vildum við líka minna bændur og matvælaframleiðendur á að það sama á við um okkur. Að við eigum mikilvæga sameiginlega hagsmuni og að saman náum við meiri árangri en sitt í hverju horni.
Fyrirlesarar héldu spennandi og fróðleg erindi og umræðurnar í kjölfarið voru upplýsandi. Að öðrum ólöstuðum vil ég samt fjalla hér örlítið um fyrirlestur Karls Karlssonar hjá Einni heild og leggja aðeins út af honum sjálfur. Karl fjallaði í sínu erindi um opinbert eftirlit og áhrif þess á bændur og matvælaframleiðendur.
Karl benti á nokkuð sem ætti að vera öllum augljóst en er það – að því er virðist – því miður ekki. Að eftirlit á ekki að vera markmið í sjálfu sér. Markmið heimsókna og annarra aðgerða á vegum Mast eða heilbrigðiseftirlitsstofnana er að tryggja velferð dýra og manna, svo talað sé á almennum nótum. Markmiðið á ekki að vera að fara í svo og svo margar heimsóknir, taka svo og svo mörg sýni eða haka í svo og svo mörg box í gátlistunum.
Að sjálfsögðu er mikilvægt að fylgst sé með því að ákvæðum laga um dýravelferð, hollustu og hreinlæti sé fylgt, en þegar sama býli, eða sama fyrirtæki, er heimsótt aftur og aftur án þess að þar finnist nokkuð athugavert er erfitt að sjá að afraksturinn sé nokkur annar en kostnaður fyrir viðkomandi. Kostnaður sem bændur eða smáframleiðendur matvæla geta átt erfitt með að mæta.
Það skiptir nefnilega máli að eftirlit sé hagkvæmt og einfalt. Krafan um einfaldara og hagkvæmara kerfi er ekki krafa um að gefinn sé afsláttur af velferð dýra og manna, heldur aðeins að hugað sé að markmiðum eftirlitsins.
Þá eru dæmi um það að við innleiðingu evrópskra reglna hér á landi séu gerðar ríkari kröfur til íslenskra bænda og matvælaframleiðenda en gert er í Evrópu. Íslenskur landbúnaður og íslensk matvælaframleiðsla á í harðri samkeppni við innflutta matvöru og það er engum til gagns að við séum sett í þá stöðu að taka þátt í keppninni með aðra höndina bundna fyrir aftan bak.
Stjórnvöld geta með ákvörðunum sínum stutt við íslenska matvælaframleiðslu, en á sama hátt geta þau líka lagt stein í götu hennar. Um tíma leit út fyrir að samgönguráðherra ætlaði að leggja veglegan hnullung í þá götu með því að meina öðrum en meiraprófshöfum að keyra dráttarvél.
Sem betur fer hefur ráðherra hlýtt á og tekið til greina athugasemdir Bændasamtakanna og annarra umsagnaraðila og dregið þessa hugmynd til baka. Málið sýnir hins vegar mikilvægi þess að við vinnum með stjórnvöldum að því að bæta starfsskilyrði bænda og íslenskrar matvælaframleiðslu – og veitum þeim aðhald þegar þörf krefur.
