Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 mánaða.
Feðgarnir á Efri-Fitjum vengu verðlaun fyrir sauðfjárræktarbúið.
Feðgarnir á Efri-Fitjum vengu verðlaun fyrir sauðfjárræktarbúið.
Fréttir 6. maí 2025

Efri-Fitjar sauðfjárræktarbú ársins

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar, sem haldinn var á Húsavík 12. apríl, var búið Efri-Fitjar í Fitjárdal í Vestur-Húnavatnssýslu útnefnt sauðfjárræktarbú ársins og var bændum veittur farandgripurinn Halldórsskjöldurinn af því tilefni.

Hefðbundið er á þessum árlegu fagfundum að sauðfjárræktarbú ársins sé útnefnt af fagráði í sauðfjárrækt, auk þess sem ráðunautar Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) velja tvo kynbótahrúta úr röðum sæðingastöðvahrúta sem sæðingastöðvarnar á Vesturlandi og Suðurlandi verðlauna bændur fyrir; „besti lambafaðirinn“ og „besti alhliða kynbótahrúturinn“. Besti lambafaðirinn að þessu sinni var Kátur 20-905 frá Efstu-Grund undir Eyjafjöllum og besti alhliða kynbótahrúturinn Búi 15-822 frá Lækjarvöllum í Bárðardal. Þá veitti fagráð í fyrsta skiptið verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í ræktun gegn riðuveiki samkvæmt nýjum reglum og var það niðurstaðan að Ytra-Vallholt í Skagafirði hefði skarað fram úr á landsvísu í þeim flokki.

Í fremstu röð í sauðfjár- og hrossarækt

Að búrekstri á Efri-Fitjum standa þau Gunnar Þorgeirsson og Gréta Brimrún Karlsdóttir ásamt syni þeirra, Jóhannesi Geir Gunnarssyni, og konu hans, Stellu Dröfn Bjarnadóttur. Gunnar er uppalinn á Efri-Fitjum og kom inn í búreksturinn með föður sínum 1986. Gunnar og Gréta eignuðust jörðina 1994 en Jóhannes og Stella urðu formlegir rekstraraðilar árið 2019 þegar þau eignuðust helminginn í búinu. Í dag telur bústofninn á annað þúsund ær og tæplega 100 hross en Efri-Fitjar er einnig landsþekkt hrossaræktarbú sem hefur skilað gæðingum í fremstu röð.

Í umsögn fagráðs um búið segir að afurðasemi bústofnsins beri beitarhögum gott vitni. „Sumarhagar eru nýttir á afrétti Miðfirðinga á Arnarvatnsheiði og í heimalöndum, bæði á Efri-Fitjum og leigujörðinni Bjargarstöðum í Austurárdal. Þá er í búskapnum lögð rík áhersla á jarðrækt og telja ábúendur að með aukinni áherslu á þann þátt hafi orðið þáttaskil í afurðasemi búsins.“

Með afurðahæstu fjárbúunum

Í umsögninni segir enn fremur að athygli veki að þetta stóra bú skuli hafa staðið í fremstu röð á landsvísu bæði fyrir afurðamagn og flokkun sláturlamba. Á síðustu sjö árum hafi Efri-Fitjar verið fjórum sinnum annað afurðahæsta fjárbú landsins. Fyrir árið 2024 standi það í þriðja sæti með 42,8 kg eftir hverja á og í öðru sæti yfir landið með tilliti til gerðar sláturlamba með einkunnina 12,57 byggt á rúmlega 1.500 lömbum.

„Þessi afurðamikli fjárstofn byggir í grunninn á því fé sem Gunnar tók við af föður sínum. Síðan var keyptur stofn frá Reykjum í Miðfirði árið 2006 og þar með hófst ræktun á kollóttu fé á búinu. Þá var féð á Bjargshóli keypt 2019 sem bæði er hyrnt og kollótt. Sæðingar hafa verið stundaðar markvisst og einnig hafa verð keyptir hrútar,“ segir í umsögninni.

Sunna Lind Sigurjónsdóttir frá Efstu-Grund tók við verðlaunum fyrir Kát.
Lambafaðir í fremstu röð

Ráðunautar RML telja Kát vera lambaföður í fremstu röð. Afkvæmi hans séu yfirleitt smágerð, lágfætt en afar holdþétt og séu gjarnan þyngri en sjónmat gefi til kynna. Þau séu ákaflega jafnvaxin og holdfylling þeirra frábær.

Afkvæmin hafi góða fætur og prýðilega ull að magni og gæðum. Þær séu svipmiklar og fallegar kindur á velli.

Kátur er fæddur á Efstu-Grund undir Eyjafjöllum og eru bændur þar þau Sigurjón Sigurðsson og Sigrún Bjarnadóttir. Ættir hans liggja í grunninn í VesturSkaftafellssýslu þó rekja megi ættir hans vítt um land í gegnum stöðvahrúta sem prýða ættartré hans. Móðir hans, Kátína 16-665, er kaupakind frá Ytri-Sólheimum 2 í Mýrdal og faðir hans er Stapi 16-829, hinn farsæli kynbótahrútur frá Kirkjubæjarklaustri 2. Á bak við Kátínu standa þeir Ás 09-877 frá Skriðu og Stáli 06-831 frá Teigi henni næstir, af höfðingjum sæðingastöðvanna.

Kristján Valur Gunnarsson,
ræktandi Búa frá Lækjarvöllum.
Búi valinn inn á stöð árið 2019

Búi er „einn af öflugustu alhliða kynbótahrútum stöðvanna,“ samkvæmt mati ráðunautanna, en ræktandi hans er Kristján Valur Gunnarsson.

Hann var valinn til notkunar á sæðingastöðvunum sumarið 2019 á grunni góðrar alhliða reynslu á heimabúi. Þar hafði hann staðið efstur í afkvæmarannsókn á heimahrútum og verið lofandi sem góður ærfaðir.

„Búi byrjaði ferilinn í Þorleifskoti og voru sæddar með honum 348 ær. Veturinn eftir var hann í Borgarnesi og sæddar með honum 386 ær. Búi fékk því hóflega notkun bæði árin. Haustið 2020 voru dæmdir 69 synir hans sem fengu að meðaltali 84,7 stig í heildareinkunn. Haustið 2021 voru dæmdir synir hans 86 og fengu sömuleiðis 84,7 stig að meðaltali. Dæmdar gimbrar undan Búa voru bæði árin rétt ríflega 100. Búi reyndist ekki mjög afgerandi sem lambafaðir þó talsvert kæmi fram af öflugum gimbrum og ágætum ásetningshrútum. Í heildina voru niðurstöður hans um meðallag miðað við afkvæmi annarra stöðvahrúta. Kynbótamat Búa gefur til kynna að hann hafi skilað gerð í rúmu meðallagi en fyrir þann eiginleika stendur hann í 106 stigum. Hann hefur 107 stig fyrir fitu og 113 stig fyrir fallþunga sem lambafaðir. Búi var sjálfur dálítið gulur og skoruðu afkvæmi hans yfirleitt ekki hátt í ullareinkunn. Hann var arfblendinn fyrir dökkum lit en gaf hvorki mórautt né tvílit. Tæplega sextíu synir Búa voru settir á eftir notkun hans á stöðvunum. Margir þeirra reyndust prýðilega og enn á hann átta syni á lífi.

Dætrahópur Búa varð ekki mjög stór en á síðasta ári voru þær rétt tæplega tvö hundruð.

Þær eru frjósamar með +11 þar. Þær mjólka að jafnaði ljómandi vel og er meðalafurðastig 175 dætra 5,51. Kynbótamat hans fyrir dætraeiginleika stendur nú í 114 stigum fyrir frjósemi og í 119 stigum fyrir mjólkurlagni. Fallþungi mæðraáhrif stendur í 117 stigum. Af þessum tölum má sjá að dætur Búa eru framúrskarandi afurðaær og hans stóra framlag til ræktunarstarfsins liggur þar,“ segir í umsögn ráðunautanna.

Frumkrafturinn komi frá bændum sjálfum

Verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í ræktun gegn riðuveiki eru hugsuð sem viðurkenning til þeirra sem hafa skarað fram úr við innleiðingu þolinna arfgerða gegn riðuveiki – og er ætlað að vera öðrum bændum hvatning.

Björn og Harpa hlutu verðlaun fyrir árangur í ræktun gegn riðu.

Fagráð í sauðfjárrækt segir í skýringum með veitingu verðlaunanna að hvatning og jákvæðir hvatar séu einmitt uppleggið í þeirri landsáætlun sem samþykkt hafi verið vegna útrýmingar riðuveiki. Mikilvægt sé að frumkrafturinn komi frá bændum sjálfum í að drífa verkefnið áfram við að byggja hratt upp þolinn sauðfjárstofn.

Einörð ræktunarstefna

Fagráð segir í umsögn um Ytra-Vallholt að ábúendurnir, þau Björn Grétar Friðriksson og Harpa Hrund Hafsteinsdóttir, hafi tekið við búi af foreldrum Hörpu árið 1999. Ekkert bú hafi tekið jafn einarða stefnu í innleiðingu á því sem var á þeim tíma kallað verndandi arfgerð, sem er AHQ genasamsætan. Þegar þessi stefna var mörkuð í Vallholti, á árunum 2007 og 2008 þegar riðan knúði dyra hjá næstu nágrönnum, hafi ekki verið sá meðvindur sem nú sé varðandi ræktun á riðuþolinni hjörð. Arfgerðargreiningar voru dýrar, lítið framboð hrúta með góð gen gegn riðu og hættan á því að ef riða kæmi upp í einni kind þyrfti hjörðin öll að fara.

Búið hafi staðið af sér storma riðunnar sem geisað hafi um allt nágrennið. Í dag séu flestar kindur á búinu með grænt flagg, en þær eru um 650. Allir hrútar búsins séu annaðhvort arfhreinir fyrir AHQ genasamsætunni eða arfblendnir AHQ/ARR. Vel hafi tekist upp að kynbæta hjörðina fyrir helstu afurðaeiginleikum samhliða því að byggja upp riðuþolinn stofn en búið hefur á síðustu árum skipað sér í fremstu röð í sinni sveit bæði fyrir afurðir og einstaka kynbótagripi.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...