Efasemdir um COP30
COP30 stendur fyrir dyrum í nóvember. Bandaríkin verða ekki með og efasemdir eru um að þessi stærsti loftslagsviðburður heims nái fram nauðsynlegum markmiðum.
COP30, þrítugasti aðildarfundur og ráðstefna Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC) fer fram í Belém í Brasilíu dagana 10.–21. nóvember 2025.
Um er að ræða stærsta loftslagsviðburð heims. COP30 mun að miklu leyti snúast um fjármagn, aðlögun að loftslagsbreytingum og orkuskipti.
Auk íslenskra stjórnvalda hafa fulltrúar úr íslensku atvinnulífi sótt ráðstefnuna undanfarin ár, með það að markmiði að sækja sér þekkingu, ræða loftslagslausnir, efla tengsl og koma á auknu alþjóðlegu samstarfi í grænu umskiptunum. Grænvangur leiðir þátttöku viðskiptasendinefndar Íslands á COP30 í samstarfi við umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið. Níu íslensk fyrirtæki tóku þátt í COP29 og hafði þá fækkað um helming frá síðustu ráðstefnu.
UNFCCC í kreppu
UNFCCC er í fjármögnunarkreppu, en einnig í kreppu um lögmæti. Áheyrnarfulltrúar, ríki og hið borgaralega samfélag kalla eftir umbótum á UNFCCC sem geri loftslagssamninginn skilvirkari, bæti borgaralega þátttöku og dragi jafnframt úr áhrifum jarðefnaeldsneytisiðnaðarins og einkageirans, að því er segir í grein Heinrich Böll-stofnunarinnar.
COP30 verður fyrsta COPráðstefnan frá því loftslagsviðræður hófust þar sem Bandaríkin – sem er enn þjóðin sem ber mesta sögulega ábyrgð á losun gróðurhúsalofttegunda – munu ekki taka þátt.
Þrátt fyrir að úrsögn Bandaríkjanna úr Parísarsamningnum um loftslagsmál, undir stjórn Trumps, muni ekki taka gildi fyrr en í janúar 2026, héldu Bandaríkin sér þegar frá bráðabirgðaviðræðum í Bonn í júní 2025.
Loftslagsfjármál í brennidepli
Loftslagsfjármál verða áfram í brennidepli umræðunnar í Belém. Eftir að COP29 í Aserbaísjan samþykkti nýtt sameiginlegt magnbundið markmið um loftslagsfjármál (NCQG) upp á 300 milljarða Bandaríkjadala á ári fyrir árið 2035, sem er ekki aðeins talið vera allt of lágt heldur líka of óljóst, er vonast eftir frekari og áþreifanlegri niðurstöðum á COP30.
„Baku to Belém Roadmap to 1.3 Trillion“, sem var hleypt af stokkunum í Baku og er ætlað að setja fram skipulega nálgun á því hvernig hægt er að ná stærra markmiði um fjáröflun 1,3 trilljóna Bandaríkjadala árlega, aðallega frá flæði einkageirans, fyrir árið 2035, verður í brennidepli í Belém. Þetta er talið krefjast áþreifanlegrar aðgerðaáætlunar sem ætti einnig að taka á veikleikum loftslagsfjármálamarkmiðsins sem samþykkt var í Bakú, með því að skilgreina skýr undirmarkmið um mótvægisaðgerðir, aðlögun og til að takast á við tap og skaða.
Skyldur þróaðri ríkja
Margir áheyrnarfulltrúar eru sagðir vonast eftir verulegri aukningu á aðlögunarfjármögnun sérstaklega, til dæmis þreföldun fjárframlaga fyrir árið 2030.
Jafnframt er talið að seinkun gæti orðið á samningaviðræðum í Belém. Lönd á suðurhveli jarðar þrýsti á um sérstakan dagskrárlið til að knýja fram skýra umræðu um skyldu þróaðra ríkja til að veita þróunarríkjum opinbera loftslagsfjármögnun – ráðstöfun sem iðnvædd lönd mótmæli harðlega. Þessi skuldbinding er bundin í grein 9.1 í Parísarsamkomulaginu en er oft vanrækt af iðnríkjum í samhengi við víðtækari umræður um loftslagsfjármál. Á heildina litið eru spurningar um gæði loftslagsfjármögnunar – styrki í stað lána sem auka skuldir, auðveldara aðgengi að fjármunum, þar á meðal fyrir sveitarfélög, svo og samþættingu mannréttinda og jafnréttis kynjanna í loftslagsfjármögnunarflæði – áfram þungamiðjan í umræðunni.
Veikleikar COP
Efasemdir eru nokkuð víða um að COP30 muni ná tilgangi sínum. Er meðal annars rætt um að skýrleika umhverfissáttmála sé ábótavant, þeir séu allt of víðfeðmir og skorti jafnframt dýpt.
Í grein á Earth.org er rakið að marghliða og alþjóðlegum umhverfissáttmálum hafi að mestu mistekist að koma í veg fyrir eða draga úr umhverfisspjöllum. Athyglisverð undantekning sé Montreal-bókunin um efni sem eyða ósonlaginu, sem tókst að útrýma 98% ósoneyðandi efna á heimsvísu í áföngum.
Sáttmálar sem gerðir hafa verið til að berjast gegn losun gróðurhúsalofttegunda og vernda líffræðilegan fjölbreytileika hafi á hinn bóginn verið veikir og árangurslitlir, þar sem losun á heimsvísu aukist stöðugt og líffræðilegur fjölbreytileiki minnki.
Bent er á að umhverfissáttmáli þurfi að vera hannaður með mjög skýrum hætti til að tryggja að þeir sem staðfesta hann geti bæði skilið og uppfyllt skyldur sínar. Aðilar verði t.d. að skilja að öll lagasmíð feli í sér ákveðinn tvískinnung, þar sem dómstólar verði að geta túlkað skjöl sem eru takmörkuð að umfangi, og innihaldi auk þess nær ótakmarkaðar og ófyrirsjáanlegar aðstæður. Huglæg hugtök eins og „sanngjarnt“, „venjulegt“ og „hóflegt“ sé að finna í öllum lögum, dómaframkvæmd og reglugerðum. Sumt af slíkum tvískinnungi sé með vilja gert og til þess að auðvelda inngöngu, gera þátttöku víðtækari og stytta þann tíma sem taki að mynda sáttmála. Þar af leiðandi hafi óljós sáttmáli þann kost að lækka „upphafskostnað“ við undirritun og fullgildingu hans. Engu að síður verði áframhaldandi innleiðing dýrari þegar skilmálar eru óljósir, þar sem slíkt leiði til ágreinings og misskilnings.
Svæðisbundnir sáttmálar
Breidd umhverfissáttmála er talin vera of mikil, hvort heldur varðandi efni samnings eða mögulegan fjölda ríkja eða stofnana sem geta gerst aðilar að honum. Þó að loftslagsbreytingar séu bæði alþjóðlegt og margþætt mál eru sterkar vísbendingar um að svæðisbundnir sáttmálar séu skilvirkari og líklegri til að verða fullgiltir og innleiddir, frekar en alþjóðlegir sáttmálar. Þetta stafi af ýmsum þáttum, svo sem sterkari hagsmunum og fleiri samnefnurum milli svæðisbundinna aðila, sem og sambærilegum félagslegum og efnahagslegum kerfum sem auðveldi samvinnu.
Nema brýna nauðsyn beri til, ætti sáttmáli því að vera hannaður þannig að hann sé takmarkaður að landfræðilegu umfangi. Þar sem alþjóðlegir sáttmálar séu nauðsynlegir verði að bæta við þá svæðissáttmála til að framfylgja svæðissértækum umhverfismarkmiðum sem hefta loftslagsbreytingar.
Skorti á dýpt
Að auki er nefnt að dýpt umhverfissáttmála þurfi að vera meiri. Dýpt sé fall af tveimur breytum, strangleika (ósveigjanleika) og styrk. Strangleiki skuldbindingar merki að hve miklu leyti hún krefjist þess að ríki víki frá því sem þau hefðu gert væri hún ekki til staðar. Styrkur sé aftur á móti mælikvarði á styrk skuldbindingar ríkis, venjulega mældur með kostnaði við að fara ekki eftir henni.
Meiri styrkur og strangleiki myndu þýða að ríki yrðu að fjárfesta meira í umhverfismálum. Þetta drægi einnig úr líkunum á að ríki virði að vettugi skuldbindingar sínar samkvæmt sáttmálanum. Slíkt gæti hins vegar einnig aukið kostnað við sáttmálann. Sterkur og strangur umhverfissáttmáli kunni að krefjast þess að þátttökuþjóðir fórni öðrum hagsmunum, svo sem orkuöflun, með því að takmarka óendurnýjanlega orku, eða með því að sæta strangari vanefndum, svo sem viðurlögum vegna losunar. Pólitískt fjármagn og hagstætt almenningsálit þurfi því venjulega til að taka þátt í slíkum samningum.
