Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 11 ára.
Stegø-myllan er falleg bygging sem er nú að ljúka hlutverki sínu við að þurrka upp flæðilandið fyrir kúabúskap á Gyldensteen-landareigninni á Fjóni í Danmörku.
Stegø-myllan er falleg bygging sem er nú að ljúka hlutverki sínu við að þurrka upp flæðilandið fyrir kúabúskap á Gyldensteen-landareigninni á Fjóni í Danmörku.
Mynd / /HKr.
Fréttir 22. maí 2014

Danmörk minnkar vegna náttúruendursköpunarverkefnis

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Unnið hefur verið að athyglisverðu náttúruendursköpunarverkefni á Fjóni í Danmörku. Það felur í sér að skila aftur til hafsins landi við Litlabelti sem stendur lægra en sjávarmál og nýtt hefur verið til landbúnaðar í meira en hundrað ár með aðstoð flóðavarnargarða.
 
Á árinu 2011 keypti Náttúru­sjóðurinn Aage V. Jensen 612 hektara lands úr landi Gyldensteen-jarðarinnar á Fjóni í þeim tilgangi að endurskapa 214 hektara strandlón sem þurrkað hafði verið upp og einnig 144 hektara stöðuvatn, „Engsøen“ eða Engjavatn, sem myndað er af ferskvatni. Með í kaupunum voru tvær eyjar, Lindholm og Langø. Hugmynd stjórnenda sjóðsins er að láta sjóinn falla aftur yfir það land sem áður var sjávarbotn og láta náttúruna sjálfa síðan um að endurmóta landið með gróðri og dýralífi. Eru gestir nú boðnir velkomnir á Gyldensteen-ströndina. 
 
Var þurrkað upp fyrir 143 árum
 
Þetta svæði var fram á nítjándu öld að mestu undir sjó og tilheyrði norður-fjónska grunnsævinu. Á árinu 1871 voru 625 hektarar af þessu grunnsævi þurrkaðir upp með varnargörðum þar sem vindmyllur voru notaðar til að dæla sjónum burtu. Var þetta gert til að rækta þar upp tún fyrir kúabúskap. Á árunum 1960 til 1965 var dælukerfið endurnýjað og var allt svæðið þá þurrkað upp fyrir utan það sem var undir ferskvatni. 
Náttúrutilraun undir eftirliti vísindamanna
 
Er þetta sagt vera í fyrsta sinn sem gömlum uppþurrkuðum sjávarbotni er skilað aftur til hafsins með þessum hætti. Hugmyndin er að þarna verði eins konar þjóðgarður þar sem fólk getur fylgst með hvernig náttúran yfirtekur landið. Einnig á fólk að geta fylgst með áhrifum af hækkandi sjávarstöðu og hvernig sjórinn gengur á láglendið við ströndina vegna hlýnunar loftslags. 
 
Hafist var handa við verkefnið í mars á þessu ári og hefur verið unnið að lagningu göngustíga og uppbyggingu gestamóttökuhúss. Næsta skref var að opna flóðgáttir. Munu vísindamenn og þar á meðal fuglafræðingar síðan fylgjast náið með því hvernig náttúran yfirtekur ræktarlandið. Almenningi er einnig gefinn kostur á að skoða svæðið og fylgjast með þessu frá afmörkuðum göngustígum, hjólastígum og útsýnisstöðum. Einnig er ætlunin að reisa tvo fuglaskoðunarturna á svokölluðum Eiríkshólma og síðan er fyrirhugað að í gestahúsi verði auk veitingaþjónustu boðið upp á fyrirlestra um svæðið.
Að hluta manngerð „náttúra“
 
Ekki verður þetta þó alveg eins náttúrulegt og Náttúrusjóðurinn vill vera láta. Þrátt fyrir falleg áform stjórnenda sjóðsins er ekki laust við að á þessu sé nokkur Disney-veruleikabragur. Á flæðilandinu sem sjórinn mun ganga yfir verða til dæmis byggðar upp manngerðar eyjar eða hólmar fyrir fugla og seli. Svipaðir hólmar fyrir fugla verða líka gerðir í Engsøen. Þá verða einnig hafðir varnargarðar við hluta strandlónsins svo sjórinn flæði ekki yfir annað ræktarland og til að verja stöðuvatnið. Hins vegar verður ytri ströndin sjálf og skógur sem þarna er látinn ósnortinn. Það er að segja að svo miklu leyti sem hægt er að tala um ósnortna strönd og skóg, í landi sem mótað hefur verið meira og minna af búsetu manna í þúsundir ára. 
 

6 myndir:

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...