Blóðþyrst kona vill barnakjöt
Grýlu er fyrst getið á miðöldum en sú Grýla sem við þekkjum stingur upp sínum lúsugu hausum fyrir tæplega 400 árum. Sísvöng stormar hún milli bæja á aðventunni og vill fyrst og fremst nærast á börnum en gerir sig ánægða með nýslátrað af fullorðnum ef krakkar eru ekki útbærir. En af hverju varð Grýla svona snefsin? Kom eitthvað fyrir? Og var Grýla kannski til í raun og veru?
Fyrsta skráða Grýlutilvikið er frá fyrri hluta 17. aldar. Þá sást Grýla í utanverðum Skagafirði að austan. Lengi var talið að fyrsti sjónarvotturinn að ferðum hennar hefði verið Guðmundur Erlendsson, sóknar- prestur á Felli í Sléttuhlíð og eitt nafntogaðasta skáld 17. aldar, en nýjustu rannsóknir benda allt eins til þess að það hafi verið mágur hans, Ásgrímur Magnússon, sem bjó á Höfða á Höfðaströnd um 1640. Ekki er heldur loku fyrir það skotið að þessir herramenn hafi slegið saman í Grýlupúkk.
Að þeirra sögn birtist Grýla þegar líða fer að jólum. Hefur það verið óbrigðult þaðan í frá. Engin jól án Grýlu. Grýla er líka svöng og þeir mágar greina frá því að til að fylla belginn vilji Grýla fyrst og síðast börn. Hún vill þó alls ekki borða sláturafurðir sem eru vel að sér í kristnum fræðum. Svo heppilega vill til að á Höfðaströnd og í Sléttuhlíð kunna allir krakkar fræði Lúters hin minni upp á tíu og kvaka sálma daginn út og inn. Því neyðist Grýla til að leggja staðkvæmdarvörur sér til munns eins og silung eða selbita. Verst þolir hún „hátíðarsöng“. Þegar Fellsprestur fer að gaula í kirkju leggur hún umsvifalaust á flótta. Það er raunar nokkuð sem foreldrar dagsins í dag ættu að hafa í huga.
Fjöldamorðin í Skriðdal
Skömmu síðar birtist Grýla á Austurlandi. Tveir menn, báðir prestar, rita á henni ítarlega lýsingu.
Í Grýluþulu Bjarna Gissurarsonar, prests í Þingmúla í Skriðdal, flakkar Grýla milli bæjanna í sveitinni og heggur á báðar hendur svo blóðið spýtist. Hún er til leiðinda á Sandfellsbæjunum en lukkast ekki að drepa neitt eða neinn, eltir síðan Jón bónda í Eyrarteigi „inn í baðstofuón“ svo hann sleppur en étur í staðinn heilt hross áður en hún skottast til Hallbjarnarstaða þar sem hún ræðst á Hall bónda með járnspaða en hann kemst naumlega undan. Hins vegar verður einhver Siggu-Keli fyrir barðinu á dráparanum mikla. Ritar séra Bjarni um þann fund: „SigguKela sá hún þar / og síðan af honum höfuðið skar.“
Á Borg í Skriðdal rífur hún svo í sundur „hundana alla“ og síðan heldur helför þessa morðkvendis áfram bæ af bæ. Grýla myrðir, limlestir og eyðileggur og enginn fær björg sér veitt uns einhver kraftakarl, Bárðarson að nafni, nær að slíta af henni höfuðin tvö og „handleggina síða“ eftir harðvítugan bardaga. Þar er þó ekki öll sagan sögð því Grýlufjölskyldan er áfram til alls vís og þarf sitt. Heil 500 Grýlubörn búa að sögn Þingmúla-Bjarna uppi í fjalli en öll eru þau nú komin af stað í leit að einhverju að éta: „fimm hundruð flagðbörnin / flakka þar í hjá, / ekkert lægra en álnanna sjö.“
Þetta eru sum sé jólasveinarnir. Þeir voru 500 talsins um 1660. Eins og á öllum öðrum sviðum hefur hér átt sér stað hressilegur niðurskurður. Hinir 500 jólasveinar 17. aldar voru sjö álnir að hæð, um 3,5 metrar. Nú eru þetta allt tómar píslir.
Lúsug og loðin
Ef Grýlukvæði Bjarna fjallar um vandann sem stafar af 500 risavöxnum jólasveinum og fæðuvali þeirra þá er Grýlukvæði frænda hans, Stefáns Ólafssonar í Vallanesi, ekki síður dökk lýsing á vandkvæðunum sem hljótast af Grýlu og afkvæmum hennar. Það kvæði er raunar öllu frægara en hinar lýsingarnar því enn þann dag í dag er það sungið og trallað um jól: „Ég þekki Grýlu / og ég hef hana séð.“
Stefán dregur ekkert af sér í lýsingu sinni á Grýlu. Þar hleður hann mynd ofan á mynd í þeim dragmælta hætti sem varð einkenni Grýlulýsinga 17. aldar, en þá eru línur fyrra erindis endurteknar í því næsta þannig að kvæðið líkt og dregst áfram í sefjandi og seiðandi bylgjum. Síendurtekin eru því stefin um þríhöfðaða, lúsuga, loðna, síðbrjósta, margeygða, þefjandi og ógeðslega Grýlu sem bankar upp á til að biðja um barnakjöt. Þetta er sú útlitslýsing sem Þrjú á palli, Sverrir Guðjónsson og ýmsir fleira hafa sungið svo fallega. Sé horft til helstu liststefnu þessa tímabils í Evrópu, barokksins, mætti með nokkrum rétti segja að Grýla sé í raun glæsilegt barokkverk, þar sem mynd hleðst ofan á mynd og tákn bætist við tákn í ofgnótt og ýkjum.
Eftir að Stefán hefur af stakri nautn og skáldlegum unaði farið gaumgæfilega yfir útlit Grýlu greinir hann stuttlega frá eiginmanni hennar, Leppalúða, og svo börnum þeirra jólasveinunum, sem hann segir „jötna á hæð“. Búi þeir ásamt foreldrum sínum „upp á Dal í Urðarhrauni“ og „í Brandsöxl“, hvort tveggja örnefni í Víðivallahálsi í Fljótsdal. En nú sé Grýla komin „á verganginn / kafloðin frú“ og vanti barnakjöt til átu. Leið Grýlu liggur beint neðan af Brandsöxl til höfuðbólsins Víðivalla ytri þar sem nú eru skógar miklir, en var á 17. öld aðsetur sýslumannsins, Jóns Þorlákssonar, bróður Þórðar biskups í Skálholti og Gísla biskups á Hólum, en þeir allir synir Þorláks Skúlasonar Hólabiskups. Líklegast er að Grýlukvæði Stefáns sé ort um 1675, fáeinum árum eftir að Jón kom í Víðivelli.
Bankar því Grýla hjá einu glæstasta fyrirmenni 17. aldar, biskupssyninum sem hafði árum saman verið í þjónustu norska aðalsmannsins og flotaforingjans Henriks Bjelke, sem var jafnframt hirðstjóri Íslands á seinni hluta 17. aldar og frægur í þjóðarsögunni fyrir að hafa mætt til landsins með einveldisplagg Friðriks þriðja 1662 og látið fyrirmenn landsins skrifa undir í Kópavogi, sumir segja neytt til að skrifa undir. Jón Þorláksson sýslumaður þaut um hríð fram og aftur milli Danmerkur og Íslands, rétt eins og hann hefði aðgang að lággjaldaflugfélagi, en settist svo að í veðurblíðunni í Fljótsdalnum þaðan sem hann síðar flutti sig suður í Berufjörð. En okkur ber þar að garði að vá er fyrir dyrum á sýslumannssetrinu. Jón þarf að sannfæra Grýlu um að þyrma Siggu dóttur sinni.
Þau Grýla og sýslumaður þrasa um málið fram og aftur og Grýla beitir förukonuslægð: hótar sýslumanni undir rós að fái hún ekki bitann sinn beri hún út um hann slúður á bæina og reynir þar með að fá leyfi hjá honum fyrir flakkinu: „Heldur en eg opinberi / alt það eg veit / lofa þú mér eina ferð / um alla þessa sveit.“ Grýla er ekki aðeins þríhöfða og með skegg heilfullt af nit á hverjum haus heldur útfarin í samningatækni.
Förumannaplágan
Þessi glæsilega mynd af lúsugri og þefjandi Grýlu er auðvitað ekkert annað en stigmögnuð lýsing á flakkandi fátæklingum 17. aldar, sem gervöll yfirstétt landsins var sammála um að væru höfuðmein samfélagsins og reyndi með öllum ráðum að stemma stigu við. Á Alþingi ganga á 17. öld reglulega dómar um stóra flökkumannavandamálið, um þau sem valdastéttin kallaði „lata fólkið“, þau sem ekki vildu vinna fyrir sér og vera í vist en þvældust betlandi um. Þetta fólk afrændi „hin öflugu bú“ eins og Stefán Ólafsson segir í einu kvæða sinna um efnahagsleg vandamál samtíma síns. Hvað eftir annað reynir hann að orða þá klemmu sem mikill fjöldi betlandi uppflosnaðs förufólks veldur. Hvernig verður fólki komið í skilning um að það verði að leggja af öll þessi litlu smábú þar sem ekkert má út af bregða svo fólk sé ekki við hungurmörk og gefist bara upp þegar á móti blæs og rölti af stað til að betla lífsbjörgina af betri bændum? Stefán hafði ekki úrræðin, en hann yrkir um vandamálið, þar á meðal kvæðið um Grýlu, sem var raunveruleg Kreppugrýla, táknmynd flökkulýðsins sem hann óttaðist að gerði út um samfélagið; að búin sem áttu þó eitthvað af vistum myndu ekki þola áganginn af 500 jólasveinum.
Jón Þorláksson, sýslumaður Múlasýslu, er að endingu ekki meiri bógur en svo að hann verður að gera samning við Grýlu. Hann lýkur málinu með því að leyfa henni frjálsa för um sveitina gegn því að éta ekki Siggu litlu eða önnur börn á bænum. Grýla fær hins vegar að borða. Já, hún fer ekki svöng frá Víðivöllum því hún étur Bjarna fjósamann, „svelgdi hann þar,“ segir Stefán.
Ekkert er hægt að gera við vanda förufólksins nema spyrna við verstu áföllunum. Þá verður að fórna fjósamanninum til að bjarga krökkunum. Engin jól án fórna. Sá sannleikur er enn hafður í hávegum á íslenskum heimilum.
