Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Blóðmerahald í samanburði við annan húsdýrabúskap
Mynd / Páll Imsland
Lesendarýni 6. maí 2022

Blóðmerahald í samanburði við annan húsdýrabúskap

Höfundur: Páll Imsland

Húsdýrabúskapur byggist á því að menn halda skepnur og hafa gott af þeim á einhvern hátt en þeir leggja þeim líka gott til á móti. Þannig er grundvallareðli málsins. Þetta eru því í raun gagnkvæm samskipti, þó þeim sé ekki komið á með gagnkvæmu upplýstu samþykki beggja aðila, sem er eðli málsins samkvæmt ómögulegt.

Þó má mjög víða og oft sjá jákvæð og meira að segja sterk jákvæð viðbrögð hins mállausa aðila innan þessara samskipta, jafnvel einlæga langvarandi vináttu. Það er jafn vel þekkt, að einlæg eftirsjá og söknuður eigenda eftir missi á hjartfólgnum dýrum sínum er til staðar hjá eigendum. Um það eru til ótal sögur.

Húsdýrabúskapur er yfirleitt rekinn á eins mannúðlegan máta og kostur er og engir eru gegnumsneitt eins miklir dýravinir og húsdýrabændur þó það sé ekki vani þeirra að bera yfirlýsingar þar um á torg. Þeir fordæma yfirleitt allt dýraníð og eru í mörgum tilvikum hver öðrum aðhald og hjálp í velferðarmálum húsdýra. Vel er líka þekkt hvernig þeir yfirleitt bregðast við í alvarlegum tilvikum, þegar slys eða óhöpp koma upp í hjörðum eða á einstaklingum. Hjálparhöndin er þá nær alltaf tiltæk.

Án húsdýrabúskapar væru fæst íslensk húsdýr yfirleitt til og viðleitni bænda til að hafa hagnað af bústarfsemi sinni er fólgin í því að búa vel að skepnunum og tryggja þeim velsæld. Í fljótu bragði man ég ekki það húsdýrahald sem byggist á því að fara illa með skepnur. Enda reyna yfirvöld víðast hvar að koma í veg fyrir slíkt með boðum og bönnum, lögum og reglugerðum, eftirliti og viðeigandi áróðri. Það væri þá kannski helst nauta- og hanahald í löndum þar sem nauta- og hanaat er þjóðarsport, en fyrir utan sjálft atið er þó ekki endilega illa búið að skepnunum.

Án húsdýrahalds væru langflestar þessara skepna ekki til og villt líf þeirra í íslenskri náttúru væri allt erfiðara og þrautameira og allir stofnar þeirra sáralitlir. Ef íslenski hesturinn ætti að lifa villtur í íslenskri náttúru væri ástand hans allt annað en það er í búskapnum. Hvað ímynda menn sér að stofninn væri þá stór og hvernig ímynda menn sér að líðan dýranna að vetri og ástand einstaklinganna væri á vorin? Þessar spurningar má yfirfæra á öll hin húsdýrin, hænsni, nautgripi, svín og svo framvegis. Líklega væru það helst sauðkindur sem spjöruðu sig í smærri hópum á takmörkuðum svæðum. Þar sem fé hefur lagst út og myndast hafa villistofnar þess hefur þeim verið eytt, nú síðast í Tálkna í nafni mannúðar. Það var ekki talið réttlætanlegt af þar til bærum yfirvöldum, ekki mannsæmandi, að þessar kindur væru til vegna þess hversu hörð kjör þær bjuggu við.

Eðli blóðmerabúskapar er ekki frábrugðið eðli annars húsdýra- búskapar, báðir aðilar hafa hag af, og það eru ekki sjáanlegar aðrar frambærilegar ástæður fyrir banni á blóðmerabúskap í því áróðursstríði sem nú er háð gegn þessum búskap en siðferðilegar.

Ef blóðmerabúskapur verður bannaður hér á landi, á íslensk þjóð siðferðilega ekki annarra kosta völ en að endurskoða, ekki bara annan hrossabúskap, heldur allan annan húsdýrabúskap í landinu.

Annað væri skinhelgi og hræsni. Hér má meira að segja bæta við öllu gæludýrahaldi líka.

Og í framhaldi af þessu má líka spyrja: Er það sanngjarnt af hendi ríkisvaldsins gagnvart þeim 100 bændum sem stunda þessa búgrein, blóðmerahald, að setja þá eina og sérstaklega undir siðferðilegt mæliker?

Páll Imsland

Skylt efni: blóðmerar | blóðmerahald

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f