Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 11 mánaða.
Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa fé í haust. Þetta eru stór sauðfjárbú sem lentu í riðuniðurskurði á vordögum 2023.

Með nýjum aðferðum í baráttunni gegn riðu hafa yfirvöld fallið frá þeirri kröfu að bændurnir á Bergsstöðum og Urriðaá verði fjárlausir í tvo vetur.

Undanfarna áratugi hefur eina vopnið gegn útbreiðslu sjúkdómsins verið niðurskurður á öllum kindum á þeim bæjum þar sem sauðfjárriða greinist. Því hefur verið fylgt eftir með kröfu um að bændur rífi allar innréttingar úr fjárhúsunum hjá sér og sótthreinsi áður en þau eru byggð upp á ný og annað sauðfé kemur eftir minnst tvo fjárlausa vetur.

Á undanförnum árum hafa verið framkvæmdar erfðarannsóknir á íslensku sauðfé sem hefur skilað sér í því að fundist hafa nokkrir erfðabreytileikar sem veita vörn gegn riðu. 

Stjórnvöld hafa því breytt um stefnu í riðumálum, en í staðinn fyrir að ráðast í íþyngjandi aðgerðir á sauðfjárbúum þar sem smit eru staðfest er unnið að því að gera verndandi erfðabreytileika útbreidda í sauðfé og rækta upp almennt ónæmi.

Þegar riða greindist á Stórhóli í Vestur- Húnavatnssýslu haustið 2023 var í fyrsta skipti ekki gripið til allsherjar niðurskurðar á hjörðinni, heldur voru framkvæmdar erfðarannsóknir á öllum kindunum og þeim sem báru verndandi erfðaeiginleika hlíft. Bændunum stóð jafnframt til boða að fara strax í uppbyggingu hjarðarinnar án þess að þurfa að skipta um innréttingar í fjárhúsunum. 

Vatnaskil í sögu riðu

Áðurnefnd riðutilvik marka ákveðin vatnaskil í sögu sjúkdómsins, en sauðfjárhjarðirnar á Urriðaá og Bergsstöðum verða að öllum líkindum þær síðustu sem verða skornar niður í heild. Jafnframt má reikna með að bændurnir verði þeir síðustu sem þurfa að ganga í gegnum endurbyggingu á sínum útihúsum vegna sjúkdómavarna.

Í samtali við Bændablaðið segjast Elín Anna Skúladóttir og Ari G. Guðmundsson, bændur á Bergsstöðum, vera mjög ánægð með að fá að kaupa fé núna, ári fyrr en áætlað var. Niðurskurðurinn á sínum tíma hafi verið mikið áfall, en bændurnir á bæði Bergsstöðum og Urriðaá höfðu ræktað upp afurðaháar sauðfjárhjarðir.

Þegar ljóst var að heimild fengist fyrir bændurna á Stórhóli að byggja upp hjörð sína með kaupum á gripum með verndandi arfgerðir þrýstu bændurnir í Miðfirði á að sömu reglur giltu um þau, þótt þau hefðu ekki farið í gegnum tvo fjárlausa vetur.

Elín og Ari benda á að gífurleg vinna hafi farið í niðurrif og uppbyggingu á undanförnum misserum, en eins og áður segir voru þau skikkuð til að grípa til þeirra aðgerða af stjórnvöldum. Þau fá allan efniskostnað endurgreiddan en gagnrýna harkalega að hið opinbera taki hvergi tillit til vinnuliðarins. Það er ekki sjálfsagt að bændur geti smíðað og því gætu þeir þurft að leggja sjálfir út fyrir aðkeyptri vinnu.

– Sjá nánar á síðum 38 og 40. í nýju Bændablaði

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...