Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Frá sláturhúsi Norðlenska. Bændur stofnuðu Búsæld fyrir rúmum tuttugu árum svo sláturhús og kjötvinnsla Norðlenska yrðu í eigu félags bænda á Norður- og Austurlandi.
Frá sláturhúsi Norðlenska. Bændur stofnuðu Búsæld fyrir rúmum tuttugu árum svo sláturhús og kjötvinnsla Norðlenska yrðu í eigu félags bænda á Norður- og Austurlandi.
Mynd / Myndasafn Bbl
Fréttir 13. september 2024

Bændur selja Búsæld

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Um 90 prósent bænda í Búsæld hafa ákveðið að taka kauptilboði Kaupfélags Skagfirðinga (KS) í hlut þeirra í Kjarnafæði Norðlenska (KN).

Þetta varð ljóst eftir að frestur bænda í Búsæld, til að taka afstöðu til tilboðs Kaupfélags Skagfirðinga, rann út í síðustu viku.

Gróa Jóhannsdóttir.
Rúmt eitt prósent hafnaði tilboðinu

Gróa Jóhannsdóttir, formaður stjórnar Búsældar og bóndi á Hlíðarenda í Breiðdal, segir fyrir liggja að um 90 prósent bænda hafi gengið að tilboði KS, um 1,6 prósent bænda hafi hafnað tilboðinu og rúm sjö prósent hafa enn ekki svarað kauptilboðinu.

Reiknað sé með að gengið verði á bilinu 2,2 til 2,3 krónur á hlut, en hlutaféð var alls 475 milljónir króna á síðasta ári samkvæmt síðasta ársreikningi þar sem hver hlutur er metinn á eina krónu.

Hluthafar alls um 465

Áður höfðu bræðurnir Eiður og Hreinn Gunnlaugssynir tekið kauptilboði KS í KN, en þeirra eignarhluti er 57 prósent og um 43 prósent eru í eigu Búsældar.

Í lok síðasta árs voru 465 hluthafar í Búsæld, en enginn einn hluthafi átti meira en tíu prósent.

Þrjú svínabú eru stærstu eigendur Búsældar, Teigur, Búvangur og Hlíð, með samtals 18,5 prósenta eignarhlut. Ingvi Stefánsson, formaður deildar svínabænda hjá Bændasamtökum Íslands, og kona hans, Selma Dröfn Brynjarsdóttir, reka sinn svínabúskap á Teigi í Eyjafirði í félögunum Teigur-eignir ehf. og Teigur ehf., sem samanlagt eiga 8,65 prósent. Ingvi segir að þau muni selja sína hluti í Búsæld.

Búvangur á 5,45 prósent, sem skráð er til heimilis á Brúarlandi í Borgarfirði og er Brynjúlfur Steinar Guðbrandsson skráður aðaleigandi með 76 prósenta eignarhlut í félaginu. Hlíð hf. á svo 4,4 prósent, sem er til heimilis á Hraukbæ í Eyjafirði og er Andrés V. Kristinsson skráður eini eigandinn.

Selma Dröfn Brynjarsdóttir og Ingvi Stefánsson, svínabændur á Teigi í Eyjafirði, voru meðal stærstu eigenda Búsældar, með 8,65% hlut. Mynd / sá

Búsæld stofnuð í desember 2003

„Ég tók þá ákvörðun að selja þegar var orðið ljóst að langflestir myndu selja,“ segir Gróa. „Það var ljóst að eignarhlutur bænda í Kjarnafæði Norðlenska yrði mjög lítill og möguleikar til að hafa áhrif innan félagsins sem sterkur hópur bænda orðnir engir.“

Búsæld var stofnuð fyrir tæpu 21 ári, í desember 2003. Tilgangurinn var að sláturhús og kjötvinnsla Norðlenska yrðu í eigu félags bænda á Norður- og Austurlandi og að framleiðendur sem á svæðinu búa væru tryggir með afsetningu sinna afurða á samkeppnishæfu verði.

Þá höfðu erfiðleikar verið miklir í rekstri Norðlenska um hríð og til stóð að selja félagið burt úr héraði. Búsæld eignaðist svo Norðlenska að fullu í desember 2007.

Eign bænda myndaðist vegna gjaldtöku

Að sögn Gróu myndaðist eign bænda í Búsæld með þeim hætti að tekin voru gjöld af innlegginu. „Í byrjun voru tekin fjögur prósent. Þetta hlutfall lækkaði svo með árunum og var eitt prósent þar til 1. maí á þessu ári þegar hætt var að taka þetta tillag í samræmi við aðalfundarsamþykkt Búsældar frá í apríl síðastliðnum. Verðgildi bréfanna sveiflaðist í takt við gengi dótturfélagsins Norðlenska og voru verðlítil þegar tap Norðlenska var viðvarandi.“

Norðlenska sameinaðist síðan Kjarnafæði árið 2021 eftir að samkomulag náðist milli eigenda fyrirtækjanna 2020, en þá samþykkti hluthafafundur Búsældar samrunann með um 86 prósenta atkvæða.

Gert er ráð fyrir að formleg kaup KS á KN gangi í gegn á seinni hluta
septembermánaðar.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...