Bændur ekki krafðir um meirapróf
Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra hefur fallið frá reglugerðarbreytingu sem hefði kallað á að bændur þyrftu meirapróf á dráttarvélar sínar.
„Vegna frétta um drög að breytingu á reglugerð um ökuskírteini, nr. 830/2011, get ég upplýst að fallið verður frá áformum um þrepaskipt réttindi til aksturs dráttarvéla,“ segir Eyjólfur í færslu á Facebook.
Hann segir reglugerðarbreytinguna hafi verið sett fram að tillögu Samgöngustofu. Meginrök hennar hafi snúið að umferðaröryggi. Í nefndaráliti umhverfis- og samgöngunefndar með umferðarlögum hafi verið bent á að dráttarvélar með stóra og þunga vagna væru í auknum mæli notaðar líkt og vörubílar í almennri umferð.
Eftir talsverða gagnrýni frá hendi meðal annars bænda, samtaka þeirra og sveitarfélaga á reglugerðarbreytinguna í samráðsgátt stjórnvalda hafi Eyjólfur ákveðið að fella hana niður:
„Samráði er nýlokið og að teknu tilliti til umsagna og þeirra áhrifa sem breytingin hefði í för með sér, einkum þess kostnaðar og fyrirhafnar sem hlytist af kröfu um aukin ökuréttindi fyrir bændur, er það niðurstaða mín að fella tillöguna brott.“
