Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 mánaða.
Slegið við Egilsstaðabýlið 12. júní síðastliðinn.
Slegið við Egilsstaðabýlið 12. júní síðastliðinn.
Mynd / sá
Fréttir 30. júní 2025

Bændur bera ljá í gras

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Heyskapur er víðast hvar langt kominn eða við það að byrja. Bændablaðið tók stöðuna hjá nokkrum bændum í kringum landið og voru allir bjartsýnir á að ná góðum heyfeng í ár.

Laufey Bjarnadóttir, kúabóndi á Stakkhamri í Miklaholtshreppi á Snæfellsnesi, sagðist vera búin að slá heimatúnin og önnur betri tún í samtali við blaðamann á föstudaginn. Fyrstu túnin voru slegin að kvöldi 12. júní, sem er fyrr en í venjulegu ári. „Við erum bara að bíða eftir þurrki til að klára,“ segir hún, en sumir kúabændur í sveitinni voru þegar búnir með fyrsta slátt í síðustu viku.

Hún segir kuldakastið í vor geta haft neikvæð áhrif á gæði uppskerunnar. „Sprettan stóð í stað og það var svo mikil vindkæling að vallarfoxgras í nýræktun hér í kring kól og sölnaði.“ Þá segir hún bændurna búa við mikinn ágang álfta, sem hún telur bíta hátt í helming uppskerunnar.

Helga Guðný Kristjánsdóttir, kúabóndi á Botni í Súgandafirði, segir fyrstu túnin í hennar sveit hafa verið slegin um miðjan mánuðinn. Í samtali á mánudaginn sagði hún heyskap víðast hvar vera kominn af stað í nágrenni við hana, þó að fæstir hafi verið langt komnir. Hún reiknar með að fara í slátt af fullum krafti á allra næstu dögum. Inni á milli sjáist að túngrösin hafi þornað upp og orðið bláleit eftir kuldakastið í vor.

Beðið eftir þurrki

Ólafur Magnússon, sauðfjárbóndi á Sveinsstöðum í Þingi í Húnabyggð, sagðist ekki vera byrjaður að slá í samtali á mánudaginn. „Við gætum eflaust slegið núna en það eru alltaf einhverjar skúrir eða rigningar í kortunum. Sauðfjárbeitin í vor var frábær, en ég held að túnin hafi aldrei verið svona snemma til. Svo stoppaði sprettan mikið til í kuldatíðinni í byrjun júní,“ segir Ólafur. Margir séu byrjaðir að slá í hans nágrenni, en kúabændurnir séu lengst komnir. Hann er bjartsýnn á að fóðrið verði næringarríkt, þó svo að sums staðar séu túngrösin hjá honum byrjuð að skríða.

Hafdís Dögg Sveinbjarnardóttir, nautgripabóndi á Leyningi í Eyjafjarðardal, sagðist ekki vera byrjuð að heyja í samtali á mánudaginn. „Það er kominn tími á það, en það rignir bara. Maður vill hafa þurrt í þrjá daga, eða svo, þannig að við bíðum bara eftir því. Við hefðum getað byrjað í síðustu viku ef það hefði verið veður,“ segir Hafdís. Sprettan hafi verið mjög góð og urðu þau ekki fyrir áhrifum af kuldakastinu í júní. „Í kringum mig eru margir kúabændur langt komnir og sauðfjárbændurnir eru að bíða eftir þurrki.“

Ærnar taka fyrsta sláttinn

„Það hefur enginn borið ljá í gras hér enn þá,“ sagði Einar Ófeigur Björnsson, sauðfjárbóndi á Lóni í Kelduhverfi, í samtali við Bændablaðið á föstudaginn. Hann telur sennilegt að heyskapur fari af stað í kringum mánaðamótin. „Rollurnar taka fyrsta sláttinn. Þær eru á túnunum alveg fram undir þessar mundir hjá okkur sauðfjárbændum. Það er afar sjaldan slegið í júní hér.“ Sprettan á túnunum hjá Einari er góð og gerir hann sér vonir um góða uppskeru.

Björgvin Gunnarsson, kúabóndi á Núpi í Berufirði, sagðist vera við það að klára fyrsta slátt þegar Bændablaðið náði tali af honum á föstudaginn í síðustu viku. Heyskapur hófst 30. maí, sem Björgvin segir vera fyrr en nokkru sinni áður. „Hér er alveg haugagras,“ segir Björgvin og telur hann það vera af miklum gæðum. Yfirleitt hafi allra fyrstu túnin verið slegin í kringum 17. júní. „Þá prufar maður tækin á einhverjum spariblettum.“ Hann segir tíðina hafa verið óhentuga, en það hefur skipst á með regni og þurrki. „Við erum úti á annesjum, þannig að hér er oft þokuloft,“ bætir hann við. Björgvin reiknar með að annar sláttur hefjist í kringum mánaðamótin, en hann slær túnin þrisvar.

Aldrei jafnmikil spretta

Stefán Freyr Stefánsson, sauðfjárbóndi á Freysnesi í Öræfum, sagðist ekki vera byrjaður að heyja í samtali við blaðamann síðastliðinn föstudag. Hjá honum hefst sláttur yfirleitt ekki fyrr en í kringum mánaðamótin júní–júlí og stefnir allt í að upphaf heyskapar verði á hefðbundnum tíma. „Það hefur aldrei verið jafnmikil spretta og núna,“ segir Stefán og þakkar hann góðu vori.

Í samtali á föstudaginn sagðist Sveinn Hjartarson, kúabóndi á Brjánsstöðum í Grímsnesi, gera ráð fyrir að heyskapur færi af stað í þessari viku. „Það gæti jafnvel verið á sunnudag eða mánudag samkvæmt spánni.“ Í fyrra hófst heyskapur í lok júní og byrjar hann því viku til tíu dögum fyrr en vanalega hjá Sveini. Hann hefur orðið var við að nágrannar hans hafi þegar slegið hluta af sínum túnum. Sveinn íhugaði að hefja heyskap í þurrki sem var um daginn, en þá þótti honum grösin ekki vera nógu sprottin.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f