Bændasamtökin funda með bændum
Fundaröð Bændasamtaka Íslands (BÍ) á landsbyggðinni, Við erum öll úr sömu sveit, hófst með fundi á Hótel Borgarnesi í hádeginu á mánudaginn.
Alls verða haldnir 14 fundir í tveimur lotum, fyrst frá 3.–7. nóvember og síðan 12.–13. nóvember – auk netfundar sem verður 14. nóvember.
Tilgangur fundaraðarinnar er að upplýsa um starfið, fá endurgjöf og svara spurningum bænda, ræða saman og stilla saman strengi.
Umsagnir stór hluti
Á fundinum í Borgarnesi tók Trausti Hjálmarsson, formaður BÍ, fyrstur til máls og sagði að bændur ættu sterk hagsmunasamtök. Innan samtakanna væri rekin öflug hagsmunagæsla – stór hluti hennar fælist í því að gefa umsagnir um fjölda mála sem tengdust landbúnaði með ýmsum hætti. Þær væru rökfastar og vel unnar – og tvímælalaust einn helsti styrkur samtakanna.
Hann sagði að á ýmsu hefði gengið á þessu ári í mörgum málum, enda „hefði enginn lofað því að það yrði auðvelt að vinna með nýjum stjórnvöldum að málefnum landbúnaðarins“. Mikil áhersla hefði hins vegar verið lögð á að samtalið við stjórnvöld lokaðist ekki.
Fór hann yfir nokkur mikilvæg verkefni sem væru á borð samtakanna og tiltók nokkra áfangasigra sem nýlega hefðu unnist í hagsmunabaráttunni. Nefndi hann meðal annars að tekist hefði að seinka áformum um að tollflokka mjólkurost sem jurtaost, áfangasigur hefði náðst í tengslum við gjaldskrá Matvælastofnunar og skylda til meiraprófs á dráttarvélar hefði verið dregin til baka.
Sterkari rödd í loftslagsmálum
Næst talaði Trausti um loftslagsmálin og sagði að sá árangur hefði náðst að nú væri landbúnaðurinn með sterkari rödd í umræðunni um þau en áður. Að umræðan hefði nú færst frá því að leggja ætti loftslagsskatta á landbúnaðinn til þess hvernig hægt sé að umbuna bændum fyrir vinnu í þágu loftslagsmála.
Hann talaði einnig um Loftslagsvegvísi bænda, þar sem tillögur að aðgerðum bænda í loftslagsmálum væru settar fram og hefðu fengið góðan hljómgrunn hjá Jóhanni Páli Jóhannssyni umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Unnið væri að því að tryggja aukið fjármagn í landgræðslu bænda, ræktun bændaskóga og markvissa endurheimt votlendis á jörðum sem henta ekki til annarrar ræktunar. Einnig væri unnið að því að fá inn aukið fjármagn til viðbótar við núverandi styrkjakerfi í gegnum aðgerðir sem væru bæði arðbærar og loftslagsvænar.
Jóhann Páll hefði tekið tillögum BÍ vel og ekkert væri í hans máli sem benti til þess að hann hefði hug á því að skattleggja sérstaklega losun landbúnaðarins, þvert á móti. Það ætti BÍ að nýta sér til að fá meira fjármagn inn í landbúnaðinn svo hægt væri að búa betur.
Í undirbúningi væri að útbúa fræðsluefni til félagsmanna og almennings um arðsemi áframhaldandi samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda á hverja framleidda einingu matvæla innanlands.
Kröfur um skilyrði landbúnaðarins og tollverndarinnar
Síðan vék hann talinu að komandi búvörusamningagerð. Sagði Trausti að samtökin hefðu gjarnan viljað vera komin lengra í samtalinu, en tveir fundir hefðu átt sér stað.
Kröfur BÍ fælust aðallega í því að skilyrði landbúnaðarins og tollverndarinnar verði tekin föstum tökum og að tollverndin verði áfram viðurkennd sem hluti af starfsskilyrðum landbúnaðarins. Sagði hann að bæði hefði heildarstuðningurinn við landbúnað á Íslandi dregist saman á undanförnum árum og vægi tollverndarinnar.
Talsvert af tollum á matvæli væru fastir að krónutölu og lækki því að raungildi í beinu hlutfalli við innlenda verðbólgu, sem sé umfram viðskiptalönd Íslands.
Þessum málflutningi og röksemdum hafi ekki verið tekið illa í atvinnuvegaráðuneytinu en málin séu þar til skoðunar.
Gott samtal við stjórnvöld
Sagði Trausti að til skoðunar væri nú hjá stjórn BÍ tillaga stjórnvalda, sem borist hafi í haust, um framlengingu samninganna í 12 mánuði [eins og greint er frá í frétt á forsíðu]. Ekki sé ljóst nákvæmlega hvað búi að baki, en þó megi álykta sem svo að stjórnvöld þurfi meira svigrúm til að undirbúa komandi samningagerð. Lagt hafi verið upp með að hraða viðræðum svo hægt væri á næsta ári að aðlaga landbúnaðarkerfið að nýjum samningum sem áttu að taka gildi í byrjun árs 2027.
„Við erum nú að skoða hvað geti mögulega verið jákvætt við það að framlengja samningana og hvað geti verið neikvætt. Ég tel að tíminn vinni alltaf með okkur. Því meiri tíma sem við höfum til undirbúnings fyrir að geta staðið í fæturna í erfiðum málum sem fram undan eru, því betra,“ sagði Trausti.
Sagði hann að samtalið héldi áfram eftir sem áður – og þrátt fyrir allt gæti hann sagt að samtalið væri gott.
Upprunamerkingar á íslenskum búvörum
Auk Trausta töluðu þær Margrét Ágústa Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri BÍ, um félagskerfið og starfsemi samtakanna og Herdís Magna Gunnarsdóttir, varaformaður BÍ og formaður upprunamerkisins Íslenskt staðfest, um stöðu og horfur fyrir upprunamerkingar á íslenskum búvörum.
Í lokin gafst bændum færi á að leggja spurningar fyrir starfsfólk Bændasamtakanna og spunnust nokkrar umræður um tiltekin málefni, meðal annars um framtíðarfyrirkomulag varnarlína, rekstrarstöðuna á Ístex, komandi búvörusamningaviðræður og nýliðunarvandann í landbúnaði.
