Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Aukning salmonellusmita  í alifuglum og svínum
Mynd / smh
Fréttir 6. júlí 2020

Aukning salmonellusmita í alifuglum og svínum

Höfundur: smh

Matvælastofnun (MAST) hefur birt niðurstöður úr vöktun á súnum fyrir síðasta ár, en það eru sjúkdómar eða sýkingavaldar sem smitast milli manna og dýra. Fjöldi sýna úr alifuglum og svínum með salmonellusmit jókst nokkuð á síðasta ári miðað við árið á undan og mun skýringuna vera að finna í endurteknum smitum fárra búa þar sem erfitt hefur verið að losna við tiltekna stofna bakteríunnar.

Sýkingatilfellum salmonellu í fólki hefur hins vegar ekki fjölgað. Skýringar Matvælastofnunar á því eru að eftirlit með salmonellu og kampýlóbakter á fyrri stigum matvælakeðjunnar sé öflugt á Íslandi sem skili neytendum auknu matvælaöryggi. Mikil aukning var í sýkingum fólks af völdum eiturefnamyndandi E. coli (STEC), sem aðallega má rekja til hrinu sýkinga á ferðaþjónustubýli á Suðurlandi síðasta sumar.

Fram til þessa mun tíðni þessarar sýkingar hafa verið mjög lág í fólki hér á landi, eitt til þrjú tilfelli á ári.

Telur MAST að niðurstöður faraldsfræðilegrar rannsóknar á hrinunni og skimana sem framkvæmdar voru 2018 og 2019 fyrir STEC í kjöti á markaði benda til að bakterían sé hluti af örveruflóru íslenskra nautgripa og sauðfjár. Er mælt með frekari rannsóknum á algengi STEC í búfé og skerpa á fyrirbyggjandi aðgerðum í sláturhúsum og kjötvinnslum til að minnka líkur á að STEC berist í kjötið.

Engar breytingar á algengi kampýlóbakter

Engar marktækar breytingar komu fram á algengi kampýlóbakter í fólki eða í alifuglum og afurðum þeirra. Kampýlóbakter greindist í þremur sýnum af frosnu kjúklingakjöti á markaði (2,1% sýna), bæði af innlendu og erlendu kjöti. Í öllum tilfellum var um að ræða mjög litla bakteríumengun eða undir greiningarmörkum.

Vöktun á salmonellu í eldi og á sláturhúsum, samkvæmt landsáætlunum, lágmarkar að mati Matvælastofnunar hættuna á að smit berist með alifugla- og svínakjöti í fólk. Heilgenarannsóknir sem framkvæmdar voru á árinu styðji þá niðurstöðu. Eitt sýni úr innlendu svínakjöti á markaði reyndist vera með salmonellu – og telur Matvælastofnun að það sé áminning um að stöðugt sé þörf á því að vera á varðbergi og hvetja til réttrar meðhöndlunar á matvælum hjá neytendum.

Aðrar hættulegar bakteríur

Í umfjöllun MAST um niðurstöður vöktunarinnar kemur fram að aðrar matarbornar bakteríur, fyrir utan salmonellu og kampýlóbakter, valda sjaldnar sjúkdómi í fólki en í ljósi þess að um mjög alvarlega sjúkdóma geti verið að ræða sé eftirlit með þeim bakteríum ekki síður mikilvægt.

Ein slík er listería, sem finnst reglulega í þekktum áhættuafurðum og framleiðsluumhverfi þeirra.

Sérstaklega fylgst með matvælafyrirtækjum

Greint er frá átaksverkefni sem hófst á síðasta ári, sem felst í sérstöku eftirliti með matvælafyrirtækjum sem framleiða matvæli tilbúin til neyslu, með áherslu á reyktar og grafnar lagarafurðir, osta og kjötálegg.

Farið er sérstaklega yfir sýnatökuáætlun fyrirtækja og fyrirbyggjandi aðgerðir þeirra gegn listeríu. Þá segir í umfjölluninni að við að innflutningseftirlit með dýraafurðum frá löndum utan EES séu reglulega tekin sýni til greininga á salmonellu, listeríu (L. monocytogenes) og E. coli. Á árinu 2019 hafi sýni verið tekin úr sendingum af hrognum, soðinni rækju, mysudufti, kjötafurðum (tilbúnum kjúklingaréttum) og gæludýrafóðri, en þau hafi öll verið neikvæð./smh

Skylt efni: salmonella

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...