Aukin notkun þyngdarstjórnunarlyfja gagnast mjólkuriðnaðinum
Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá lesendum Bændablaðsins að svokölluð þyngdarstjórnunarlyf, sem sumir kjósa reyndar að kalla megrunarlyf, eru aðgengileg víða um heim og eru þegar á markaðinum nokkrar mismunandi tegundir þessara lyfja í heiminum.
Hér á landi hefur notkun þeirra stóraukist ár frá ári og samkvæmt frétt í Morgunblaðinu í desember sl. notuðu rúmlega 17.000 Íslendingar þyngdarstjórnunarlyf árið 2024. Miðað við söluþróun þessara lyfja hér á landi undanfarin ár má ætla að talan fyrir 2025 verði töluvert hærri. Þrátt fyrir að talan virðist ansi há þá er hlutfall Íslendinga sem nota þessi lyf enn verulega langt undir því sem markaðsaðilar erlendis telja að verði raunin í framtíðinni í heiminum og að þessi markaður muni vaxa töluvert á næstu árum.
Þyngdarstjórnunarlyfin gera notendum auðveldara að léttast en til þess að halda þyngdinni niðri eftir að notandinn hættir á lyfinu hefur reynslan sýnt að það getur verið töluverð áskorun enda þarf að breyta neysluhegðuninni svo árangurinn verði varanlegur. Svo virðist sem flestir notendur lyfjanna breyti einmitt um neysluhegðun og þótt notkun á lyfjunum sé í raun enn á hálfgerðum byrjunarreit, þá hefur matvæla- og fæðubótarefnaiðnaðurinn séð þarna ákveðin tækifæri nú þegar.
Svo virðist sem þrjár aðferðir séu að ná ákveðnum vinsældum í framangreindum geira en þær eru:
#1 – Endurmarkaðssetja vörur, sem þegar eru á markaðinum, en merkja nú betur sem hentugar vörur fyrir þá sem eru á þyngdarstjórnunarlyfjum. Þetta getur verið allt frá vörum til að vinna gegn óþægilegum aukaverkunum frá meltingarvegi notenda og til fæðubótarefna til að draga úr sértækum næringarskorti sem stafar af minni neyslu matvæla.
#2 – Þróa nýjar næringar- og próteinríkar vörur sem mætti flokka sem „snakk“ eða þróa aðrar vörur sem eru sérstaklega sniðnar að notendum þessara lyfja sem og þeim sem eru að reyna að venja sig af þessum lyfjum án þess að þyngjast aftur.
#3 – Að nýta áhuga neytenda á vörum sem geta haft áþekk áhrif og þyngdarstjórnunarlyfin, þ.e. framleiða matvæli sem á einn eða annan hátt aukatilfinningu um mettun á náttúrulegan hátt, annaðhvort með því að örva myndun þarmahormóna, eins og flest þyngdarstjórnunarlyfin gera, eða með öðrum aðferðum. Þess má þó geta að enn sem komið er liggja fyrir litlar rannsóknir á raunverulegum árangri með svona vörur.
En hafa jafnfáir notendur svona mikil áhrif?
Þegar horft er til talna um notkun þyngdarstjórnunarlyfja sem og áætlanir um frekari framgang þessara lyfja í heiminum, þar sem talið er að allt að 10% neytenda í hinum vestræna heimi gæti verið á svona lyfjum innan fárra ára, má spyrja sig hvort þá litli hópur neytenda geti haft stórtæk áhrif á heildarþróun markaðarins. Um þetta má í raun deila en á það hefur verið bent að í dag eru þessi lyf dýr og oftast greidd að fullu af notandanum sjálfum. Það er því efnameira fólk sem notar lyfin oftar en ekki og oft er þetta fólk þekkt og oft í fréttunum. Það er því talið að þessir einstaklingar geti í raun haft áhrif á marga aðra, með því einu að beina spjótum sínum að öðruvísi matvælum og öðruvísi lífsstíl. Áhrifin geti því í raun náð langt út fyrir þann hóp sem í dag er á þessum lyfjum.
Áhrif á mjólkuriðnaðinn
En hvernig snertir þetta þá mjólkuriðnaðinn í heiminum? Jú, skýringin felst auðvitað í hollustu mjólkurvara og þeirri staðreynd að mjólkurvörur eru flestar hverjar próteinríkar og fitusnauðar. Það eru þó inn á milli oft nokkuð mikið unnar mjólkurvörur á markaðinum og jafnvel með viðbættum sykri og er líklegt að á komandi árum muni síðastnefndum mjólkurvörum fækka. Á móti komi að markaðurinn fyrir hinar próteinríku og fitusnauðu vörur mun vafalítið vaxa og þar liggur einmitt tækifæri mjólkuriðnaðarins. Á þessa staðreynd virðast flest af stærstu afurðafyrirtækjum heims í mjólkuriðnaði horfa þessa dagana og fyrirtæki eins og Danone, Arla og Nestlé eru m.a. í þeim hópi. Á þeim bæjum sé horft til þess að fólk sem einbeitir sér að þyngdartapi kjósi oftar en ekki hollar vörur og samkvæmt rannsókn Morgan Stanley borða t.d. notendur Ozempic (eitt af þyngdarstjórnunarlyfjunum á markaðinum) meira af ávöxtum og grænmeti og mjólkurvörum og minna af sælgæti, sykruðum drykkjum og áfengi. Þá sækja notendurnir aukinheldur í vörur með miklu próteininnihaldi og lágu fituinnihaldi.
Lyfin geta leitt til taps á vöðvamassa
Annað dæmi sem hefur verið nefnt, sem gæti gagnast mjólkuriðnaðinum, er sú staðreynd að margir sem nota þyngdarstjórnunarlyf tapa vöðvamassa. En besta leiðin til að byggja upp og viðhalda vöðvamassa er próteinneysla og hreyfing og mjólkurvörur eru sem kunnugt er margar hverjar hlaðnar próteini og sjást þegar merki um það í heiminum, þar sem notkun á þessum lyfjum er hvað mest, að eftirspurn eftir próteindufti, drykkjum og próteinríkri matvöru er að aukast.
Mjólkurfitan gæti farið halloka
Bændur víða um heim standa frammi fyrir ákveðinni áskorun vegna framangreindra atriða, en hún er sú að ef neyslumynstrið breytist verulega gæti það bitnað á eftirspurn afurðastöðva eftir fituríkri mjólk og mjólkurvörum sem eru fituríkar. Þetta líta þó flestir á sem í raun jákvæða þróun sem gæti einfaldlega hraðað erfðabreytingum í átt að ræktunar á kúm sem eru með enn próteinríkari mjólk en nú er og um leið mögulega fituminni.
Næsti kafli mjólkuriðnaðarins
Þó e.t.v. sé heldur snemmt að segja fyrir um það þá gætu þyngdarstjórnunarlyfin, sér í lagi ef fram fer sem horfir að verð þeirra muni snarlækka á komandi árum með tilheyrandi stóraukinni notkun þeirra, í raun verið að endurskapa landslag mjólkuriðnaðarins eins og við þekkjum hann í dag. Ef svo verður er ljóst að gríðarleg tækifæri felast í vörum sem byggja á mjólkurpróteini og próteinríkum mjólkurafurðum eins og undanrennu og mysu en á móti kemur að unnar, feitar eða sykraðar mjólkurvörur gætu staðið frammi fyrir áskorun.
M.a. byggt á grein Aidan Connolly úr vefriti Dairy Global 12. júní sl: How GLP-1 weight-loss drugs are redefining the dairy sector.
