Auglýsingar um sveppadropa og -duft ámælisverðar
Verslunin Hugur Studio, sem rekin er af Hemmet ehf., hefur verið kærð fyrir afdráttalausar fullyrðingar um virkni sveppadropa og sveppadufts.
Í auglýsingum verslunarinnar var því meðal annars haldið fram að vörurnar framkölluðu ró, bættu svefngæði, lækkuðu kortisól og þar með streitustig, styðji við ónæmiskerfið og frumur líkamans með andoxunarefnum og dragi úr áhrifum og lyfjaþörf vegna ADHD. Þegar eftir því var óskað gat verslunin ekki veitt fullnægjandi sönnunargögn fyrir fullyrðingunum, sem Neytendastofa taldi afdráttalausar. Frá þessu er greint á vef Neytendastofu.
Stofnunin taldi fullyrðingarnar veita rangar upplýsingar um helstu einkenni varanna sem væru líklegar til að valda því að hinn almenni neytandi tæki viðskiptaákvörðun sem viðkomandi hefði annars ekki tekið. Verslunin hyggst yfirfara allt sitt efni og stilla fullyrðingum fram í samræmi við reglur. Ekki verður notast við fullyrðingar um virkni varanna, heldur bent á möguleika þeirra að styðja við og styrkja líkamann.
Með heimild í lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu telur Neytendastofa hæfilegt að leggja á rekstraraðila verslunarinnar Hugur Studio stjórnvaldssekt að fjárhæð 100.000 krónur sem verður greidd í ríkissjóð.
