Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 mánaða.
Átta prósenta hækkun á ylræktina frá 2020
Fréttir 26. júní 2025

Átta prósenta hækkun á ylræktina frá 2020

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Niðurgreiðslur (beingreiðslur) til garðyrkjubænda hafa á undanförnum árum verið 86–93% af kostnaði flutnings og dreifingar raforku, segir í nýrri skýrslu.

Í nýrri skýrslu Raforkueftirlitsins um raforkumál: Þróun raforkukostnaðar og áhrif á notendur, kemur fram að bein áhrif hækkunar raforkukostnaðar frá árinu 2020 til 2025 á föstu verðlagi sé allt að 7% af tekjum fyrir ylrækt.

Segir í skýrslunni að raforkukostnaður garðyrkjubænda hafi hækkað miðað við tekjur, en greiðslur hins opinbera vegna ylræktar og markaðsverð framleiðsluvara hafi í mörgum tilfellum vegið á móti áhrifum hækkunarinnar. Enn fremur að að bæta þurfi aðgengi að upplýsingum fyrir upplýstari umræðu.

Þegar litið sé til verðbreytinga á breytilegu verðlagi, hafi smásöluverð raforku hækkað um tæplega 39% frá 2020 til 2025 og um 78% frá árinu 2005 til 2020. Raforkukostnaður heimila hafi undanfarin fimm ár hækkað um 11% á föstu verðlagi en raforkukostnaður fyrirtækja um 24%.

Átta prósenta hækkun

Raforkukostnaður alls (raforka í smásölu, flutningur, dreifing og jöfnunargjald) á föstu verðlagi frá árinu 2020 til 2025 hefur breyst með þeim hætti að hækka um 8% hjá almennum fyrirtækjum, sem nota umtalsvert magn raforku (árleg notkun á bilinu 2-20 GWh), sem er um 1,8% árleg hækkun. Stærstu garðyrkjubændur í ylrækt nota á bilinu 2-7 GWh á ári og eru því innan þessarar skilgreiningar.

Raforkukostnaður án VSK er nú um 16 kr/kWh fyrir fyrirtæki sem fá ekki niðurgreiddan flutning og dreifingu. Niðurgreiðslur (beingreiðslur) til garðyrkjubænda hafa á undanförnum árum verið 86-93% af kostnaði flutnings og dreifingar, en ef sprettgreiðslur árið 2023 eru teknar með fóru beingreiðslur hæst í 104%. Umtalsverð árstíðarsveifla er í raforkuverði og getur munað allt að 30% á verði að sumri og vetri.

Garðyrkjan með 85 GWh

Í kafla um þéttbýlis- og dreifbýliskostnað garðyrkjubænda segir að af um 85 gígavattstunda (GWh) raforkunotkun fyrir gróðurlýsingu á landinu sem nýtur beingreiðslna frá ríkissjóði, séu rúmlega 20 GWh innan dreifbýlissvæðis RARIK. Garðyrkjubændur í dreifbýli á afltaxta fengu um 2,3 kr/ kWh árið 2024 í niðurgreiðslu dreifbýlisframlags þar sem gjaldskrá í dreifbýli er hærri en í þéttbýli. Garðyrkjubændur í þéttbýli RARIK á afltaxta greiddu árið 2024 að meðaltali 3,9 kr/kWh án VSK á verðlagi þess árs fyrir dreifingu, og bændur í dreifbýli á afltaxta um 6,7 kr/kWh, en fengu á móti ofangreint dreifbýlisframlag til frádráttar.

Til viðbótar við dreifikostnað var greiðsla fyrir flutning Landsnets um 2,1 til 2,4 kr/kWh og jöfnunargjald 0,4 kr/kWh. Alls er kostnaðurinn um 6,5 kr/kWh án VSK fyrir flutning, dreifingu og jöfnunargjald fyrir notkun yfir 1 GWh/ári.

Raforkuhækkun út í verðlag

Enn fremur kemur fram að einnar krónu hækkun á raforkukostnaði hækki framleiðslukostnað tómataframleiðslu um 25 kr/kg sem sé um 3,9% af söluvirði tómata. Eins hækki paprikukostnaður um 3,3% og gúrkukostnaður um 2,5%. Hins vegar hafi söluverð grænmetis einnig hækkað sem nemi 2,5% á ári að raunvirði (umfram verðbólgu) í tilfelli gúrku, rúmlega 5% á ári í tilfelli tómata og verð papriku um 0,8% á ári umfram verðbólgu. Verðhækkanir grænmetis hafi þannig dregið verulega úr áhrifum hærri raforkukostnaðar.

Gera megi ráð fyrir að raforkunotkun á hvert framleitt kíló lækki um allt að 55-60% ef skipt er yfir í LED perur til lýsingar, en þá þurfi að nota aukið magn af jarðvarma til upphitunar og fjárfesta í varmasparandi búnaði, s.s. gardínum í gróðurhús. Raforkuþörf garðyrkju vegna lýsingar myndi þannig lækka um 50 GWh á ári, sbr. sögulega raforkunotkun.

Skv. skýrslunni eru ekki eru til staðar kröfur um orkunýtni garðyrkju hér á landi líkt og tilfellið sé í ESB. Upplýsingar um orkunotkun og kostnað garðyrkjubænda séu afar takmarkaðar hér á landi þar sem Hagstofa Íslands og atvinnuvegaráðuneyti birti ekki slíkar upplýsingar. Ofangreindar tölur séu áætlaðar með gögnum sem óskað var eftir og skýrslum sem m.a. voru birtar af Orkustofnun vegna ársins 2017 þegar stofnunin sá um beingreiðslur til garðyrkju.

Mismikið vægi

Greining skýrslunnar leiðir í ljós að hækkanir á raforkukostnaði hafa átt sér stað á tímabilinu, en áhrifin hafa mismikið vægi eftir notendahópum. Raforkukostnaður almennra notenda (heimila og fyrirtækja) hefur hækkað talsvert. Almennir notendur í þéttbýli hafa orðið fyrir meiri hækkunum en almennir notendur í dreifbýli, þar sem jöfnunaraðgerðir hins opinbera vega á móti. Áhrif hækkunar raforkukostnaðar fyrir dæmigerð heimili eru talin óveruleg þar sem hún nemi um 0,1% af meðal ráðstöfunartekjum heimila á tímabilinu.

Lagðar eru fram tillögur um bætt eftirlit með verðmyndun raforku og með þróun flutningsog dreifikostnaðar. Aukin gagnabirting um raforkunotkun, raforkukostnað og niðurgreiðslur eftir tegund notenda auki möguleika á að greina stöðuna hverju sinni, bregðast við með skjótari hætti og nýta orkuna betur. Segir í úrbótatillögum skýrslunnar að birting gagna um orkunotkun ylræktar eftir tegund framleiðslu hafi verið ábótavant, sem dragi úr upplýstri umræðu um málefnið og val á hagkvæmustu lausnunum fyrir orkunotkun atvinnugreinarinnar. Atvinnuvegaráðuneyti, í samstarfi við Hagstofu, geti bætt þá gagnabirtingu.

Gröf / Þróun raforkukostnaðar og áhrif á notendur-Raforkueftirlitið.
Taflan sýnir dæmigerðan rekstur hjá garðyrkjubónda og hlutdeild raforku, raforkuflutnings, dreifingar, jöfnunargjalds og niðurgreiðslu á hvert kílógramm (kg) sem selt er af grænmetinu. Raforkukostnaður að teknu tilliti til beingreiðslna er á bilinu 20 til 35% af heildsöluverði ylræktar samkvæmt töflunni. Raforkunotkun fyrir hvert kg af grænmeti er á bilinu 10 til 30 kWh eftir tegund grænmetis.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...