Arla og DMK Group sameinast
Afurðarisarnir Arla í Danmörku og víðar og DMK Group í Þýskalandi stefna nú á samruna fyrirtækjanna sem bæði eru samvinnufélög í eigu ríflega tólf þúsund kúabænda í sjö löndum í Norður-Evrópu.
Samruni félaganna var samþykktur af fulltrúaráðum félaganna 18. júní sl. Ef samkeppnisyfirvöld Evrópusambandsins heimila samrunann, sem stjórnendur fyrirtækjanna eru bjartsýnir á að þau muni gera, þá verður til fjórða stærsta mjólkurbú heims og það stærsta í Evrópu með áætlaðar tekjur upp á 19 milljarða evra. Sameinað félag mun hafa úr að spila 18,8 millljarða kílóa af mjólk.
Í frétt Medier Mejeri af samrunanum segir að eigendur fyrirtækjanna telji hann muni tryggja vöxt fyrirtækisins en sameinuð muni styrkleikar fyrirtækjanna nýtast eigendum betur jafnt sem starfsfólki, viðskiptavinum og neytendum.
Gert er ráð fyrir að samþykktarferlinu hjá samkeppnisyfirvöldum verði lokið á fyrsta ársfjórðungi 2026.
Sameinað félag Arla og DMK Group yrði einn helsti samkeppnisaðili Mjólkursamsölunnar á mörkuðum fyrir mjólkurvörur á Íslandi og í Evrópu. Stjórnendur Mjólkursamsölunnar höfðu ekki tök á að bregðast við fréttinni.
