Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 mánaða.
Áreiðanleiki gagna og upplýsandi umræða
Leiðari 24. janúar 2025

Áreiðanleiki gagna og upplýsandi umræða

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir ritstjóri.

Bændablaðið er mest lesni prentmiðill landsins annað árið í röð skv. nýjum niðurstöðum úr Prentmiðlamælingu Gallup. Einstaklega ljúft er að fagna þrjátíu ára starfsafmæli blaðsins á þeim nótum.

Blaðið náði þeim áfanga að vera mest lesna blað landsins í fyrra og hefur trónað á toppnum yfir lestur á landsbyggðinni í árafjöld. Nú er það einnig mest lesna blaðið á höfuðborgarsvæðinu. Um þriðjungur þjóðarinnar les hvert tölublað ef marka má könnunina og sýna niðurstöður prentmiðlakönnunarinnar svo ekki verður um villst að staða Bændablaðsins er afar sterk. Fjölbreytt efnistök blaðsins ná greinilega til lesenda og hefur það fest sig rækilega í sessi sem áreiðanlegur og upplýsandi fjölmiðill. Því viljum við halda áfram.

Skýrsluhald sem endurspeglar framför

Eins og hefð er fyrir á þessum tíma árs birtast í þessu tölublaði niðurstöður skýrsluhaldsársins í mjólkur- og nautakjötsframleiðslu frá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins. Uppgjörið er unnið af Sigurði Kristjánssyni skýrsluhaldsfulltrúa og Guðmundi Jóhannessyni, ábyrgðarmanni í nautgriparækt en þeir hafa í áraraðir haldið utan um þessi nákvæmu, mikilvægu og upplýsandi gögn um stöðu og þróun búgreinar nautgriparæktar hér á landi. Í báðum niðurstöðum má sjá hvernig skilvirk ræktun er að skila sér í betri framleiðslu og bættum hag kúabænda.

Mjólkurbúum fækkar, þau stækka og kýrnar mjólka stöðugt meira. Þannig náðu átján bú yfir 8.000 kg meðalafurðum eftir árskú sem er nýtt met, í fyrsta sinn nær það bú sem reyndist efst á þeim lista, Stóra-Mörk 1, yfir 9.000 kg meðalafurðum og nythæsta kýr ársins, Klauf frá Lambhaga á Rangárvöllum, mjólkaði tæplega 16.000 kg. Að sama skapi færist nautakjötsframleiðslan á færri bú, meðalbúið stækkar og þau bú sem notfæra sér Angus-erfðaefnið ná eftirtektarverðum árangri. Heilt yfir eru ungneyti þyngri en áður þrátt fyrir að vera alin í aðeins færri daga, eins og fram kemur hér í blaðinu. Með innleiðingu erfðamengisúrvals og notkun á kyngreindu sæði má leiða að því líkum að miklar framfarir munu eiga sér stað í nautgriparækt á allra næstu árum.

Að standa við stefnu

Nýs matvælaráðherra bíða ærin verkefni næstu mánuði en í þær áskoranir glyttir í þessu tölublaði. Þannig hafa garðyrkjubændur orðið varir við að verslanir vilji ekki lengur kaupa inn íslenskar vörur á uppsettu verði í kjölfar hækkandi framleiðslukostnaðar, sökum síhækkandi verðs á orku. Í blaðinu segir garðyrkjubóndi að verslanirnar prútti í meira mæli um verð, etji íslenskum framleiðendum saman í samkeppni um verð og við innfluttar vörur. Afleiðingin er ófyrirsjáanleiki og óvissa um sölu á íslenskum afurðum í matvöruverslunum.

Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar er því lýst yfir að gripið verði til aðgerða til að draga úr orkukostnaði garðyrkjubænda. Fyrri ríkisstjórn hafði slíka yfirlýsingu einnig í sínum stjórnarsáttmálum, en í þeim frá 2021 er beinlínis sagt að aukinni framleiðslu á grænmeti verði náð með föstu niðurgreiðsluhlutfalli á raforkuverði til ylræktar. Þegar tækifæri gafst til að efna loforðin, í upphafi síðasta árs við endurskoðun samnings um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða, reyndust það orðin tóm því ekki náðist samkomulag um leiðir til að lækka flutnings- og dreifingarkostnað raforku til ylræktenda. Það gallaða kerfi sem er enn við lýði heldur því áfram að vera þungur baggi á íslenskri grænmetisframleiðslu. Nýrri ríkisstjórn er í lófa lagið að koma einstaklega vel út úr samanburði við eldri ríkisstjórn með því að ráðast nú þegar í ábatasamar breytingar á starfsskilyrðum búgreinarinnar.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...