Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
Kjúklingar vaxa hratt upp í sláturstærð og ef þeim er ekki slátrað á þeim tíma sem gert er ráð fyrir þá halda þeir eðlilega áfram að stækka. Það verður svo aftur til þess að of þröngt verður um þá í húsunum.
Kjúklingar vaxa hratt upp í sláturstærð og ef þeim er ekki slátrað á þeim tíma sem gert er ráð fyrir þá halda þeir eðlilega áfram að stækka. Það verður svo aftur til þess að of þröngt verður um þá í húsunum.
Leiðari 30. apríl 2015

Alvarlegir atburðir

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson
Verkfall dýralækna og fleiri félagsmanna BHM sem starfa hjá Matvælastofnun hefur nú staðið í tíu daga. Verkfallið hefur valdið verulegum óþægindum í landbúnaði og það hefur líka komið hart niður á sjúklingum og fleirum í samfélaginu enda eru fjölmargir starfsmenn í heilbrigðisþjónustu líka í verkfalli sem og fleiri háskólamenntaðir starfsmenn ríkisins.
 
Staðan í landbúnaðinum af völdum verkfallsins er grafalvarleg.  Þar brennur harðast á í alifugla- og svínarækt en starfsemi í þeim greinum er með þeim hætti að eldi og slátrun fer fram jafnt og þétt allt árið. Afurðir eru að langmestum hluta seldar ferskar og verð þeirra fellur um leið og þarf að frysta þær. Vegna verkfalls dýralækna fer engin heilbrigðisskoðun fram í sláturhúsum og þar með fer engin slátrun fram. Það hefur mjög fljótt áhrif í alifuglaræktinni. 
 
Vaxandi hætta á sjúkdómum
 
Kjúklingar vaxa hratt upp í sláturstærð og ef þeim er ekki slátrað á þeim tíma sem gert er ráð fyrir þá halda þeir eðlilega áfram að stækka.  Það verður svo aftur til þess að of þröngt verður um þá í húsunum. Þá eykst verulega hætta á sjúkdómum og jafnframt eru bændur jafnframt settir í þá stöðu að vera farnir að brjóta lög og reglur um dýravelferð, þar sem kveðið er á um hvaða lágmarkspláss kjúklingarnir þurfa að hafa.
 
Engir góðir kostir í boði
 
Undanþága fékkst í lok síðustu viku. Þar var heimiluð takmörkuð slátrun sem gerði bændum kleift að létta á þeim húsum þar sem orðið var of þröngt. Til þess að hún fengist þurftu framleiðendur að lofa því að afurðir þessarar slátrunar færu ekki á markað, heldur yrðu frystar og ekki markaðssettar fyrr en að fenginni lausn deilunnar. Það er engin lagaskylda að gera slíkt og þessi leið var og er afarkostur fyrir bændur, en annað var einfaldlega ekki talið forsvaranlegt með hliðsjón af dýravelferð og því var gengið til samninga. Engir góðir kostir voru í boði. 
 
Þetta er hins vegar bara til að leysa bráðasta velferðarvandann. Staðan í alifuglaræktinni er fljót að sækja í sama farið ef ekki verða veittar sambærilegar undanþágur áfram. 
 
Ef alifuglaslátrun er deilt niður á alla 365 daga ársins er meðaltalið um það bil 13.600 fuglar á dag. Lesendur geta því hæglega séð fyrir sér hvað vandinn er fljótur að safnast upp ef ekki er hægt að koma við slátrun. Um leið er sams konar vandi í svínaræktinni kominn upp. Með sama hætti og áður er slátrað að meðaltali 213 svínum á dag – alla daga ársins. Dragist verkfallið á langinn verða til sömu vandamál í öðrum greinum eins og nautgriparækt og á endanum í sauðfjárrækt.
 
Bændur hafa þegar orðið fyrir tjóni
 
Undanþágurnar sem greinir frá hér að framan leysa hins vegar ekki þann vanda sem búin standa frammi fyrir. Afurðirnar fara ekki á markað eins og fram kemur og það þýðir að bændurnir fá ekki greitt fyrir þær.  Það hefur fljótt áhrif á lausafjárstöðu búanna. Innan tíðar geta þau ekki keypt fóður og önnur nauðsynleg aðföng, að ekki sé talað um að greiða starfsfólki eða eigendum laun. Lesendur sjá í hendi sér hvað það þýðir. Tjónið er því verulegt hvern einasta dag sem verkfallið stendur og er þegar óafturkræft, því þær frosnu afurðir sem safnast hafa upp eða munu gera það eru undantekningarlaust verðminni en ferskar. Það munu bændur ekki fá bætt, jafnvel þó að deilan leysist í dag.
 
Lífsafkomu bænda ógnað
 
Fleiri óveðursský eru á himninum. Hálfs dags verkfall félaga í Starfsgreinasambandinu hefst í dag. Semjist ekki þá verða tvö tveggja daga verkföll í maí og ótímabundið verkfall frá 26. maí. Það mun hafa mikil og veruleg áhrif á matvælavinnslu og dreifingu matvæla sem og víða annars staðar í samfélaginu. Það mun m.a. hafa áhrif á söfnun mjólkur frá bændum á tíma þar sem mjólkurframleiðsla bænda er í hámarki.  Náist ekki samningar gæti þurft að hella niður allt að þremur milljónum lítra af mjólk á viku sem er tjón upp á 250 milljónir króna. Fleiri félög eru að undirbúa aðgerðir m.a. Flóabandalagið og verslunarmenn – en alls hefur á fimmta tug kjaradeilna verið vísað til ríkissáttasemjara.
 
Það er þekkt staðreynd að verkföllum er ætlað að valda óþægindum til að skapa þrýsting þeirra sem fyrir þeim verða á að þau leysist, en þetta verkfall ógnar beinlínis lífsafkomu margra bænda.  Ég hef aðeins eitt að segja við deiluaðila. − Semjið strax! 
Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...