Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Allt saman tilfinning og túlkun
Mynd / Ragnar Hólm Ragnarsson
Í deiglunni 15. júní 2018

Allt saman tilfinning og túlkun

Höfundur: Gunnar Bender
Ragnar Hólm Ragnarsson er kunnur fyrir skrif sín um fluguveiði. Fyrir röskum áratug gaf hann út bókina „Fiskar & menn“ sem fjallaði um ýmsa afkima veiðinnar. Hann er annar ritstjóra veftímaritsins Flugufrétta en skrifar að auki fyrir blöð og tímarit, til að mynda Sportveiðiblaðið.
 
Á síðasta ári ræddi Bændablaðið við Ragnar um samtvinnun veiða og vatnslita en nú hefur hann tvinnað þetta enn betur saman með því að vatnslita veiðimenn. Vatnið er Ragnari hugleikið. Hann veiðir úr því fiska og málar úr því myndir. „Vatnslitirnir verða sífellt fyrirferðarmeiri í lífi mínu á kostnað vatnafiskanna,“ sagði Ragnar Hólm þegar við hittum hann á Akureyri í síðustu viku.
 
Ragnar Hólm í veiði með dóttur sinni, Aðalheiði Önnu, núna í vor.
„Auðvitað hef ég enn þá gaman af því að veiða fisk á flugu en það er ekki síður gaman að veiða þokkalega vatnslitamynd. Ég hef verið mest í landslaginu en nú er ég farinn að blanda aðeins inn í það veiðimönnum.“ 
 
– Ertu þá með pensilinn á lofti þegar vinirnir veiða?
 
„Nei, það er sjaldnast hægt því menn fara hratt yfir og færa sig ótt og títt þannig að ljós og skuggar breytast hratt á fígúrunum. Ég hef frekar gert þetta þannig að leggjast kannski í grasið og horfa á félagana, reynt að sjá fyrir mér mótífið og síðan tek ég nokkrar myndir og miða við þær þegar ég mála um kvöldið eða einhvern tímann síðar.“ 
 
– Eru veiðimenn þekkjanlegir á myndunum?
 
„Nei, það vona ég ekki. Enda hef ég engan áhuga á því að mála smáatriðin. Ég er líklega impressjónisti fram í fingurgóma. Ég reyni að fanga tilfinningu, hreyfingu og hughrif. Það eru aðrir í því að taka ljósmyndir af veiðimönnum og veiðigræjum. Ég er meira í stemningunni, litbrigðum vatnsins, íhygli veiðimannsins.“
 
– Hefur þér þá ekki dottið í hug að mála þekkta veiðistaði?
 
„Einhvern tímann þegar ég var unglingur fór ég með föður mínum í Langá á Mýrum og litaði myndir af nokkrum þekktum veiðistöðum þar með pastelkrít. Það voru ágætar myndir sem foreldrar mínir eiga uppi á vegg. Ég held að þær séu fjórar eða fimm. Og nýlega skoraði útséður veiðimaður á mig að mála vatnslitamyndir af helstu veiðistöðum í þekktustu laxveiðiám landsins og selja ríkum útlendingum.
 
Gallinn er bara sá að þótt mér þyki gaman að selja eina og eina mynd þá er þetta enginn bisness hjá mér – þetta er ástríða líkt og fluguveiðin. Ég mála það sem kveikir í mér en fæ hálfgert kvíðakast ef ég er beðinn að mála ákveðið mótíf. Þetta er allt saman tilfinning og túlkun beint frá hjartanu.“
Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...