Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Frá vinstri, sigurvegarinn Ámundi Sigurðsson á Hrafni frá Smáratúni, Birgitta Dröfn Kristinsdóttir og Hlýri frá Hveragerði, Árni Sigfús Birgisson á Stíg frá Halldórsstöðum, Rósa Valdimarsdóttir og Íkon frá Hákoti, Viggó Sigursteinsson á Glitni frá Margrét
Frá vinstri, sigurvegarinn Ámundi Sigurðsson á Hrafni frá Smáratúni, Birgitta Dröfn Kristinsdóttir og Hlýri frá Hveragerði, Árni Sigfús Birgisson á Stíg frá Halldórsstöðum, Rósa Valdimarsdóttir og Íkon frá Hákoti, Viggó Sigursteinsson á Glitni frá Margrét
Mynd / Þröstur Karelsson
Fréttir 26. apríl 2016

Áhugamenn láta til sín taka

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir
Mikill uppgangur hefur verið í keppnisþátttöku hins almenna hestamanns. Hestamannafélögin hafa mætt þessum áhuga með fjölbreytilegu mótahaldi fyrir minna vana knapa. Góður rómur var gerður að áhugamannadeild hestamannafélagsins Spretts sem fór fram í annað sinn í vetur. 
 
Hestamannafélagið Sprettur blés í fyrra til keppnisraðar fyrir áhugamenn í hestaíþróttum. Aðsókn að Áhugamannadeildinni, sem síðar fékk nafnið Gluggar- og glerdeildin, lét ekki á sér standa þegar aðstandendur hennar auglýstu eftir þátttakendum. Alls tóku 42 keppnispör, í 14 liðum, þátt í fjórum mótum þar sem unnið var til stiga í einstaklings- og liðakeppni. Fyrirmynd deildarinnar er Meistaradeildin í hestaíþróttum, sem hugsuð er fyrir atvinnumenn í faginu. Sprettshöllin var alla jafna vel setin áhorfendum sem hvöttu hestamenn og reiðskjóta þeirra til dáða. Enda gáfu áhugamenn atvinnumönnum ekkert eftir þegar kom að gæðum sýninga. Fylgt var alþjóðlegum reglum um keppnisíþróttina og var baráttan alla jafna hörð og spennandi. 
 
Ástundun lykill að árangri
 
Í ár voru liðin í Glugga- og glerdeildinni fimmtán talsins og keppendurnir 75. Keppt verður á fimm mótum og tóku 45 keppendur þátt í hverri keppni. Í vetur voru keppnir háðar í fjórgangi, TREC-þrautabraut, fimmgangi og slaktaumatölti. Lokamót keppnisraðarinnar fór svo fram fimmtudaginn 31. mars og réðust þá úrslit í spennandi töltkeppni. Þar fór Ámundi Sigurðsson á Hrafni frá Smáratúni með sigur af hólmi en önnur varð Birgitta Dröfn Kristinsdóttir á Hlýra frá Hveragerði. Reyndist samanlagður árangur hennar í deildinni vera sá besti meðal keppenda og var hún því krýnd sigurvegari keppnisraðarinnar á uppskeruhátíð hennar sl. föstudag.
 
„Það er mikil uppbygging fyrir heimavinnandi og útivinnandi húsmæður að eiga kost á að taka þátt í svona deild. Það hefur verið mér mikill innblástur, að geta sett sér há markmið og unnið markvisst að þeim,“ sagði Birgitta að lokinni töltkeppninni. Hún hefur verið viðloðandi hestamennsku frá unga aldri og segist stunda reiðmennsku mikið til vegna keppnisíþróttarinnar. „Það æxlaðist reyndar þannig. Mér fór að ganga vel í keppnum sem unglingur og var mikið í þeim framan af. Svo tók ég hlé á meðan ég eignaðist börn og er að byrja aftur núna,“ segir Birgitta. Hún segir bæði mikla ástundun og góð hross lykil að góðum árangri í keppni.
 
„Fyrst og fremst þarf maður að hafa hross með góðar gangtegundir. Svo þarf maður góðan þjálfara til að segja manni til og vera duglegur að þjálfa,“ segir hún og bætir við að það skemmtilegasta við þátttökuna sé að finna adrenalínið renna um æðarnar í úrslitakeppnum. 
 
Lið Margrétarhofs Export hesta reyndist stigahæsta lið Áhugamannadeildarinnar í ár en liðið skipuðu þeir Játvarður Jökull Ingvarsson, sem sigraði einstaklingskeppnina í fyrra, Gylfi Freyr Albertsson, Leó Hauksson, Þorvarður Friðbjörnsson og Viðar Þór Pálmason.
 
Ástríða og einlægni á keppnisbrautinni
 
„Hestamennskan hefur breyst. Þegar ég var að byrja þá var aðallega farið í útreiðatúra. Engin hefð hafði skapast fyrir keppni,“ segir Linda Björk Gunnlaugsdóttir, formaður hestamannafélagsins Spretts. Með meira framboði af námskeiðum fyrir hinn almenna hestamann hafi áherslur hestamanna breyst. Nú sé meira lagt upp úr reiðmennsku og áhugamenn vilji nú í auknum mæli takast á við keppnisformið.
„Það hefur orðið mikil þróun í keppninni og áhuginn sást ekki síst á sumarmótunum, það var alltaf fullt í áhugamannaflokka.“
 
Undir það tekur Magnús Benediktsson, framkvæmdastjóri Spretts, en hann átti hugmyndina að áhugamannadeildinni í fyrra.
 
„Okkur fannst vera þörf fyrir fleiri mót, það var of lítið í boði fyrir áhugamenn. Við vissum ekki út í hvað við vorum að fara en vorum gríðarlega ánægð með viðbrögðin.“ Hann bætir því við að þátttaka áhugamanna á mótum orki hvetjandi fyrir aðra hestamenn sem sýnir sig í enn aukinni ásókn í áhugamannamót. 
 
„Fólki fannst til dæmis ákveðin áhætta fólgin í því að keppa í fimmgangi í áhugamannadeildinni í fyrra. En það tókst mjög vel og í framhaldi var sjáanleg fjölgun þátttakenda í fimmgangsflokka áhugamanna síðastliðið sumar,“ bætir Linda við.
 
Keppendur koma alls staðar að úr samfélaginu. Þarna má finna stúdenta, bændur og fólk í fullum störfum. 
 
„Hér er alls konar fólk sem er að leggja mikið á sig til að taka þátt. Þau koma hérna kannski kl. 7 á morgnana til að æfa áður en það mætir til vinnu. Það er stórkostlegt að sjá þennan metnað,“ segir Linda. Magnús segir áhugamenn í hesta­íþróttum ekki gefa atvinnumönnum neitt eftir.
 
„Þeir eru ástríðufullir og einlægir í sinni þátttöku. Það er alltaf gaman að horfa á þessar keppnir. Hestarnir eru góðir og vel þjálfaðir og knaparnir mjög vel undirbúnir. Svo er mórallinn í liðunum og milli liða mjög góður,“ segir Magnús.
 
Eftir vel heppnað annað keppnistímabil í Sprettshöllinni er ljóst að áhugamannadeildin í hestaíþróttum er komin til að vera.
 
„Nú verður ekki aftur snúið,“ segir Linda.
 
Gagnkvæm virðing manns og hests
 
Um land allt er staðið fyrir keppnum fyrir áhugamenn um hestaíþróttir og virðist aðsókn að keppnum aukast ár frá ári. Ræktun íslenska hestsins og markaðsumhverfi dregur einnig dám af þessari áherslu, en söluaðilum hefur verið tíðrætt um að mikið tamdir keppnishestar seljist hvað best. Kröfur hins almenna hestamanns til reiðhestsins hefur því eflaust aukist í þá átt að hann sé einnig vænlegur á keppnisbrautinni. En hvað þarf slíkt hross að hafa til brunns að bera? 
 
„Það þarf alvöru fjölhæfan íslenskan hest. En fyrst og fremst þarf gagnkvæm vinátta manns og hests að vera til staðar. Hestur sem treystir knapanum og knapi sem treystir hestinum,“ segir Magnús. Undir það tekur Linda Björk. „Þeir sem eru að ná árangri eru þeir sem eru búnir að vinna mikið með hestunum sínum.“

5 myndir:

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...