Áhrif hlýnunar jarðvegs á graslendi
Doktorsnemi við Landbúnaðarháskólann rannsakar hlýnun jarðvegs í Hveragerði og útbreiðslu lúpínu á Íslandi. Hann kom einnig að rannsókn á aðgengi Berlínarbúa að einkasundlaugum m.t.t. hlýnunar jarðar.
Amir Hamedpour er í doktorsnámi við Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ). Hann er með formlegt starfsaðsetur í Svarma, gagnaþjónustufyrirtæki sem aðstoðar fyrirtæki við vöktun áhrifa þeirra á náttúruna, þar sem hann starfar sem yfirsérfræðingur.
„Staða mín er hluti af evrópsku doktorsneti sem kallast Future Arctic, þar sem við erum 15 doktorsnemar víðs vegar um Evrópu sem einblínum á mismunandi þætti umhverfisbreytinga á svæðum undir norðurheimskautinu (e. subarctic), svo sem á Íslandi,“ segir Amir.
Hann segir rannsóknarverkefnið byggt á jarðhitasvæði í Hveragerði (ForHot field vefsíða: https:// forhot.is/), þar sem hópurinn kannar hvernig hlýnun jarðvegs hefur áhrif á ‚subarctic‘ graslendi. „Ég nota dróna-undirstöðugögn eins og fjölróf, RGB, LiDAR og hitamyndir til að fylgjast með gróðurbreytingum, meta lífmassa og greina hvernig jarðvegshlýnun hefur áhrif á umhverfið. Þetta er góð blanda af vettvangsvinnu, drónaaðgerðum og fjarkönnunargagnagreiningu. Við höfum nú þegar birt grein um sumar niðurstöðurnar. Aðalleiðbeinandi minn er Bjarni Diðrik Sigurðsson frá LbhÍ, en ég er með fjóra aðra meðleiðbeinendur, Steven Latré (imec, Belgíu), Iolanda Filella (CREAF, Spáni), Hafstein Einarsson (HÍ, Íslandi) og Tryggva Stefánsson (Svarmi, Íslandi),“ útskýrir Amir.
Aðgengi Berlínarbúa að sundlaugum
Hann hefur tekið þátt í fjölbreyttum rannsóknarverkefnum og eitt þeirra sem vekur athygli varðar þýskar einkasundlaugar. Amir var inntur eftir um hvað sú rannsókn snerist.
„Hugmyndin kviknaði hjá nemendahópi við háskólann í Potsdam, sem vildi kanna aðgang að sundmöguleikum í Berlín í loftslagskreppunni, sérstaklega muninn á einkaaðgangi og almenningsaðgangi. Hópurinn kom með hugmynd að verkefni sem kallast á ensku „Pools of Privilege“ eða forréttindalaugar, og var forvitinn um hversu margar einkasundlaugar væru til í borginni og hvernig þeim er dreift,“ segir Amir.
Hann var fenginn til að aðstoða við tæknilega hlið verkefnisins: að nota gervigreind og fjarkönnunartækni til að greina laugar úr loftmyndum. „Núverandi laugarskynjunarlíkön virkuðu ekki vel í Berlín vegna þess að laugar þar líta oft ekki út eins og klassísku skærbláu ferhyrningarnir sem þú gætir fundið á Spáni eða í Kaliforníu. Þannig að við þjálfuðum nýja gerð sérstaklega fyrir Berlín,“ segir Amir um verkefnið.
„Að lokum greindum við yfir 23.000 einkasundlaugar og gátum tengt þau gögn við innsýn í vatnsnotkun, borgarskipulag og félagsleg mynstur í borginni. Lokaniðurstaðan breyttist í gagnvirka sögu sem gefin var út af Tagesspiegel Innovation Lab og það hefur verið mjög spennandi að sjá hvernig fólk tekur þátt í henni,“ segir Amir og bætir við að þetta sé fyrsta heila gervigreindargreining á laugum í Berlín.
Útbreiðsla lúpínu greind
Eins og er starfar Amir að öðrum hagnýtum verkefnum hjá Svarma. „Eitt sem hefur verið sérstaklega spennandi undanfarið er lúpínuverkefnið, þar sem við notum dróna- og gervihnattamyndir til að greina útbreiðslu lúpínu á Íslandi. Markmiðið er að stækka frá drónakönnunarsvæðum yfir í á landsvísu með því að nota gervihnattagögn. Fyrstu niðurstöðum verður deilt fljótlega í gegnum DATACT, kortakerfi okkar á netinu,“ upplýsir hann.
Amir er fjarkönnunarverkfræðingur, doktor í heimspeki og með doktorsgráðu í umhverfisvísindum. Hann nam áður við Háskólann í Tabriz í Lýðveldinu Aserbaisjan.
