Áforma 40% aukningu í slátrun í haust
Síðasta haust reisti Skúli Þórðarson á Refsstað í Vopnafirði sláturhús heima á bæ og slátraði þar sauðfé og folöldum fyrir sig og aðra. Í haust ætlar hann að auka slátrun um 40%.
Sláturhúsið á Refsstað er rekið sem lítil afurðastöð fyrir afurðirnar sem seldar eru frá bænum og starfar einnig sem þjónustusláturhús. „Við erum með okkar eigin vörumerki, „Vopnfirskt gæðakjöt“, og markaðssetjum í gegnum það sauðfjár- og hrossakjötsafurðir, “ segir Skúli sem er með um 400 fjár á vetrarfóðrum og um 70 hross, þar af 30 merar í folaldaræktun.
Sláturhúsið er rekið á forsendum reglugerðar um lítil matvælafyrirtæki og hefðbundin matvæli, sem tók gildi árið 2016. Sláturhúsið í Seglbúðum í Landbroti starfaði einnig samkvæmt þessari reglugerð. Það brann í apríl 2024. Síðan er það Sláturhús Vesturlands í Borgarnesi sem er þjónustusláturhús með enn umfangsmeira leyfi, auk þess að vera lífrænt vottað.
Hefur selt nánast allt úr síðustu sláturtíð
Skúli er bóndi og fyrrverandi sláturhússtjóri Sláturfélags Vopnfirðinga, sem hætti starfsemi eftir sláturtíðina 2023. Skúli hefur að undanförnu unnið að endurbótum á sláturaðstöðunni heima á Refsstað. „Ég hef meðal annars haldið áfram að laga húsið að þessum iðnaði og bætti svæðið úti, þar sem féð kemur í réttina, og þar sem úrgangurinn er tekinn út úr sláturhúsinu.
Ég byrjaði að slátra 8. september og slátra fyrir mig um 400 lömbum í haust og um 400–450 lömbum fyrir nokkur ferðaþjónustubú og önnur bú sem vilja taka heim, hér í Vopnafirði,“ segir Skúli sem hefur nú í upphafi sláturtíðar selt yfir 95% af vörunum frá því í fyrrahaust.
Forpöntun á lamba- og folaldakjöti
„Slátrun mun aukast um eða yfir 40% frá í fyrra, búið er að skipuleggja 11 sláturdaga og ráða starfsfólk. Við slátrum um 100 sauðfé hvern sláturdag, eða um 7–10 folöldum. Keyptum vacuumpökkunarvél með miklum afköstum og settum upp vefsíðuna gaedakjot. is, sem er bæði leið okkar til sölu og til að kynna okkar rekstur. Til þessa fengum við eina milljón króna í styrk úr Uppbyggingarsjóði Austurlands,“ heldur Skúli áfram.
„Við erum byrjuð með forpöntun á lambakjöti fyrir haustið og forpöntun á folaldakjöti. Við erum svo að selja svið, sviðalappir, fimm slátur saman, kalóneraðar vambir og slög til viðbótar við kjötið. Allar vörurnar má finna á vefsíðunni okkar.“
Engin fjölgun lítilla sláturhúsa
Í maí 2021 var gefin út ný reglugerð sem heimilar rekstur örsláturhúsa heima á lögbýlum, sem eru smærri en það sem rekið er á Refsstað. Á þessum tíma hafa einungis tveir bæir haft slíkt starfsleyfi og nýtt sér þessa heimild – og engin breyting verður fyrir þetta haust.
Bæirnir eru Grímsstaðir í Borgarfirði og Birkihlíð í Skagafirði, en bændur á báðum bæjum hafa lýst ánægju sinni með hvernig til hefur tekist. Með því að slátra og vinna heima hafi tekist að hækka afurðaverð sinna sauðfjárafurða umtalsvert.
