Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Frá kornþreskingu á Súluholti í Flóa þann 26. ágúst. Myndin hluti af nemendaverkefni við Ljósmyndaskólann.
Frá kornþreskingu á Súluholti í Flóa þann 26. ágúst. Myndin hluti af nemendaverkefni við Ljósmyndaskólann.
Mynd / Sandra Dís Sigurðardóttir
Fréttir 19. september 2025

Afbragðsgott sumar til kornræktar

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Bændablaðið ræddi við fjóra bændur sem stunda kornrækt – hver í sínum landshluta. Allir lýsa þeir óvanalega góðu sumri sem hefur skilað þroskuðu korni í miklu magni.

Ólafur Eggertsson, bóndi á Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum, segir kornþreskingu hafa gengið afskaplega vel. Þresking hófst á Þorvaldseyri 26. ágúst, sem er tæpri viku fyrr en vant er og gerir Ólafur ráð fyrir að hún klárist um miðjan september.

„Veðrið hefur leikið við okkur og kornið er vel þroskað. Það hefur sjaldan verið jafn vel fyllt og hart, en það er óvanalegt á þessum tíma í byrjun september,“ segir Ólafur í samtali við blaðamann 2. þessa mánaðar. „Núna er mjög fljótlegt að þurrka kornið af því að það er svo mikið þurrefni í því,“ segir hann. Á Þorvaldseyri sé allt korn þurrkað fyrir geymslu með þurrkara sem knúinn er lífdísil sem framleitt er úr heimaræktaðri repju.

Þreskja á undan haustlægðum

Ólafur segir marga bændur undir Eyjafjöllum vera komna á fullt í kornþreskingu. „Bændur við Eyjafjöllin, í Landeyjunum og í Mýrdal geta ekki leyft sér að geyma þreskingu fram í enda september, því það koma oft haustlægðir og við lendum oft illa í þeim við suðurströndina. Þess vegna reynum við að sá snemma og vera með afbrigði sem eru fljótþroska.

Þá leyfum við okkur ekki að vera með sex-raða bygg, en það hefur farið illa þegar við höfum prufað það. Við höldum okkur við tegundir sem eru tveggja raða og eru strástífari og það hrynur nánast ekkert úr axi,“ segir Ólafur. Þau kornyrki sem hann notar mest eru hin íslenska Kría og sænska Anneli, en bæði eru tveggja raða. Spurður um uppskerumagnið svarar Ólafur því til að hann hafi fengið í kringum fjögur og hálft tonn af korni á hektarann, en yfirleitt sé þessi tala í kringum fjögur tonn. Tveggja raða yrki gefi ekki eins mikla uppskeru og þau sem eru sex raða, sem hann bæti sér upp með því að sá í fleiri hektara.

Rúmþyngd gefi góða mynd af gæðum kornsins. Eftir þurrkun sé það sett í ílát sem sléttan lítra og viktað. „Til þess að geta talist fyrsta flokks korn til sölu þarf það að vera yfir 600 grömm á lítrann. Við erum að fá korn sem er allt yfir 600 grömm og upp í 671 gramm.“ Aðspurður um hvort eitthvað af korninu sé nýtt til manneldis segir Ólafur upp undir helming uppskerunnar fara í bjórframleiðslu hjá Ölgerðinni og svo sé einhver hluti seldur sem byggmjöl í bakarí.

Hveiti virðist ætla að ná fullum þroska

Eymundur Magnússon, bóndi í Vallanesi á Fljótsdalshéraði, var ekki byrjaður í kornskurði þegar Bændablaðið hafði samband í síðustu viku. „Ég er ekki vanur að tjá mig mikið um uppskeruna fyrr en kemur að því að þreskja, en ég held að ég geti fullyrt að þetta verði með betra móti,“ segir Eymundur.

„Ég byrja að þreskja byggið í síðasta lagi um miðjan september. Svo tek ég hveitið og repjuna seinna. Fljótlega fer ég að taka þurrefnissýni til að athuga gæðin, en kornið stendur svo vel að það er óþarfi að taka það of snemma. Það felst sparnaður í því að láta það þorna sem mest á akrinum í staðinn fyrir að eyða orku í að þurrka það hér heima. Þá er langt í að það komi einhver veður þannig að við þurfum að hafa einhverjar áhyggjur af því að kornið farið að brotna niður.“

Allt nýtt til manneldis

Eymundur segir sumarið hafa byrjað með eindæmum vel þar sem kornið hafi spírað fljótlega eftir sáningu í byrjun maí. „Blíðan hérna fyrir austan var betri en elstu menn gátu munað. Síðan kom mjög kaldur júní og kímblöðin gulnuðu, og þá kom smá skrekkur í mig.“ Veðráttan hafi að öðru leyti verið einstaklega góð frá því um mitt sumar. „Mér sýnist að hveitið, sem er yfirleitt happdrætti, sé að verða býsna bústið,“ segir Eymundur, en hann gerir sér vonir um að koma heilhveiti á markað eftir þessa uppskeru.

„Við ræktum allt okkar korn til manneldis þannig að það þarf að fara beint af akrinum í þurrkarann,“ segir Eymundur. Þar sem þurrkarinn ráði ekki við nema fimm tonn í einu geti þreskingin tekið upp undir mánuð. „Ef kornið er komið upp í sjötíu prósent þurrefni á akrinum er ég að þreskja nánast daglega. Ef það er blautara tekur þurrkunin tvo daga. Eymundur áætlar að uppskeran verði í kringum fimm tonn af fullþurru korni á hvern hektara. „Í gegnum tíðina hef ég verið að fá 60 til 120 tonn af ökrum af sömu stærð sem segir hversu mikið veðrið hefur að segja.“

Léku á álftina

Kristján Þórðarson, bóndi á Ölkeldu á Snæfellsnesi, var búinn að þreskja allt sitt korn í síðustu viku og hann segir sumarið hafa verið óvenju gott til kornræktar. „Vorið var gott og júníhretið virðist ekki hafa haft áhrif á kornið, þó svo að túngrös hafi gulnað. Ég man bara einu sinni eftir því að hafa þreskt svona snemma, en það var 2019,“ segir Kristján. Stundum hafi þresking dregist fram að mánaðamótum september október, en yfirleitt sé kornið slegið í kringum 20. september.

„Við vorum svo snemma að við lékum á álftina og gæsina,“ segir Kristján. Þessir fuglar geti oft verið miklir skaðvaldar í kornrækt og étið stóran hluta uppskerunnar á nokkrum dögum, en þeir voru ekki komnir í akrana í haust.

Yrkið sem Kristján notar nefnist Kría, sem hann segir þola vel haustveður og því hefði hann getað dregið þreskinguna eitthvað lengur. „En byggið var orðið mjög þroskað þannig að við tókum þetta núna. Við sýrum allt kornið, þannig að þurrkstigið skiptir ekki öllu máli.“ Í hans tilfelli sé kornræktin helst notuð til þess að hvíla tún áður en þau eru endurræktuð og til að fá undirburð af hálminum. „Ef það kemur korn þá er það bara búbót. Stundum kemur ekkert korn og þá hirðum við bara hálminn,“ segir hann. Uppskeran var í kringum sex tonn af óþurrkuðu korni á hektarann.

Nota nýja þurrkstöð við Húsavík

Haukur Marteinsson, bóndi á Kvíabóli í Köldukinn, segir að sumarið hafi verið frábært til kornræktar í SuðurÞingeyjarsýslu, að undanskildu vorhreti í byrjun júní. „Viku eftir viku hefur verið ofboðsleg gróðrartíð með hita og sól og hæfilegum raka með,“ segir hann. „Ágúst var með eindæmum hlýr og sólríkur, sem er algjört lykilatriði fyrir byggið.“

Þresking hófst í lok ágúst og eru bændur farnir að þurrka kornið í nýrri þurrkstöð við Húsavík. „Hún var notuð í fyrsta skipti í fyrra, en það var ekki mikið korn sem rann í gegnum hana þá. Núna stefnum við að því að þurrka hátt í fimm hundruð tonn af korni,“ segir Haukur. Upp undir tíu bændur af svæðinu nýti sér þurrkarann sem er alfarið knúinn með 120 gráðu heitu vatni. „Þetta hefur gengið mjög vel og kostnaður við þurrkun hefur algjörlega hrunið,“ heldur hann áfram. Áður voru notaðir þurrkarar sem brenndu olíu.

Gæti nýst sem sáðkorn

„Uppskeran núna er um og yfir fimm tonn á hektarann af þurru korni og sú tala á bara eftir að hækka þegar líður á haustið. Rúmþyngdin er vel ofan við mörkin til að ná fyrsta flokki, eða 700 til 750 grömm í lítra,“ segir Haukur. „Korn er fullþroskað þegar það hefur náð 750 grömmum í lítra – þú ferð ekkert mikið ofar.“ Hann segir því vel koma til greina að nýta hluta uppskerunnar sem sáðkorn næsta vor, en nánast allt fræ sem bændur nýta til kornræktar er innflutt. Haukur telur að ef allt gangi vandræðalaust geti þresking allra bænda á hans svæði klárast í september.

Að lokum segist Haukur bjartsýnn á að næsta sumar hefjist starfsemi graskögglaverksmiðju sem stendur til að reisa við hlið kornþurrkstöðvarinnar. Þar væri hægt að blanda saman byggi, grasi og bætiefnum og búa til kjarnfóðurköggla. 

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...