Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 mánaða.
Af bókhaldsbrellum og Bovaer
Af vettvangi Bændasamtakana 7. janúar 2025

Af bókhaldsbrellum og Bovaer

Höfundur: Unnsteinn Snorri Snorrason og Hilmar Vilberg Gylfason, sérfræðingur hjá BÍ.

Það var ánægjulegt að sjá umfjöllun í síðasta tölublaði Bændablaðsins, m.a. greinargóðan pistil frá Ara Teitssyni, fyrrum formanni Bændasamtakanna, um ýmsa þætti loftslagsbókhaldsins.

Eins og vill vera með bókhald þá fylgja því ýmsar bókhaldskúnstir sem verðugt verkefni er að setja sig inn í. Góður maður hafði á orði að það væri álíka slæmt fyrir heilsuna að reyna að skilja loftslagsbókhaldið og að drekka maurasýru í morgunmat. Þrátt fyrir þann augljósa annmarka þá hafa Bændasamtökin lagt umtalsverða vinnu í það síðustu misserin að skilja til fulls hvaða forsendur liggja að baki útreikningum í loftslagsbókhaldinu.

Tilgangurinn með þessari vinnu er að geta gætt hagsmuna bænda í allri umræðu um loftslagsmál og vegna tengdra aðgerða.

Í vinnunni hafa komið upp margar spurningar og vangaveltur. Sem dæmi hafa samtökin rekið sig á að orðið ,,mólendi“ er notað sem einhvers konar samheiti yfir beitarland í bókhaldinu. Slík orðnotkun er nokkuð augljóslega röng eða í besta falli villandi og hafa fulltrúar samtakanna fundað með Náttúrufræðistofnun vegna þessa til að undirbúa athugasemdir við þetta atriði. Hluti af vandanum er að okkur vantar betri landupplýsingar. Þó mikið verk hafi verið unnið í þeim efnum er enn langt í land að við eigum nákvæm gögn um jarðvegsgerð og gróðurfar á afmörkuðum svæðum sem notuð eru til ræktunar og beitar. Enn lengra er í að við þekkjum með óyggjandi hætti hver er raunlosun mismunandi landgerða, en þangað til verðum við að að nota leiðbeinandi gildi samkvæmt bókhaldsreglum til að meta losun. Til þess að laga þessa vankanta þarf umtalsverða fjármuni og langtímarannsóknir, en allt er þetta hægt ef viljinn er fyrir hendi.

Tillaga að Loftslagsvegvísi bænda setur þau skilyrði að margir þættir séu metnir samhliða. Þannig dugir ekki að skoða eingöngu loftslagsávinning af aðgerðum sem innleiddar verða í landbúnaði. Samhliða þarf að skoða efnahagslegan ávinning fyrir bændur og tryggja að aðgerðir hafi ekki neikvæð fjárhagsleg áhrif. Enda væri það ekki í samræmi við stefnur stjórnvalda að hafa neikvæð áhrif á afkomu bænda og þar með framleiðslugetu þeirra, þvert á móti er fjöldann allan af markmiðum að finna í stefnum stjórnvalda um að innlendan landbúnað eigi að efla.

Loftslagsvegvísir bænda gerir einnig ráð fyrir að grundvallarþættir eins og matvælaöryggi séu hafðir að leiðarljósi. Umtalsverð umræða hefur verið erlendis um íblöndunarefnið Bovaer sem hefur verið notað í tilraunaferli hjá Landbúnaðarháskólanum.

Efnið dregur úr metanlosun frá jórturdýrum og snýr tilraun háskólans að áhrifum þess á metanlosun frá mjólkurkúm.

Fulltrúar Bændasamtakanna fengu kynningu á frumniðurstöðum þessarar tilraunar fyrir stuttu og eru íslensku kýrnar að sýna svipaðar niðurstöður í samdrætti á metanlosun og hafa komið fram erlendis. Áhugavert er að samhliða er Landbúnaðarháskólinn að skoða hvaða áhrif gott gróffóður og rétt samsetning fóðurs hefur á metanlosun mjólkurkúa, frumniðurstöður benda til þess að áhrifin geti verið svipuð og af því að nota íblöndunarefni. Eitt útilokar þó ekki annað í þessu. En varðandi efnið Bovaer þá hafa sumir lýst yfir áhyggjum af öryggi þess og áhrifum á heilsu manna. Jafnframt að það skorti langtímarannsóknir á áhrifum þess. Á móti fullyrða framleiðendur efnisins og þeir sem hafa talað fyrir notkun þess að efnið sé öruggt fyrir menn og dýr. Það brotni hratt niður í meltingarkerfi kúa og komist því ekki í mjólk eða kjöt. Ljóst er að verði óæskileg áhrif af notkun Bovaer staðfest þá fellur notkun þess ekki að leiðarljósi Loftslagsvegvísis bænda um matvælaöryggi.

Bændur hafa síðustu áratugi með skilvirkum aðgerðum skilað miklum árangri í loftslagsmálum. Þar að baki liggja þrautreyndar aðferðir sem við eigum að standa vörð um, eins og öflugt kynbótastarf og áherslur á góðar aðferðir við alla jarðvinnslu og gróffóðuröflun. Ótal tækifæri felast í því fyrir bændur að halda áfram að innleiða og nýta sér skynsamlegar aðgerðir í loftslagsmálum, enda líklega fáar atvinnugreinar sem hafa byggt upp jafnöfluga innviði eins og skýrsluhald og ráðgjöf en landbúnaðurinn. Með því að treysta enn frekar þessa innviði getum við tryggt að aðgerðir sem tengjast loftslagsmálum séu raunverulegar og skili árangri bæði loftslagi og bændum til góða.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...