Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 mánaða.
Janne Känkänen, hagfræðingur og forstjóri finnsku Neyðarbirgðastofnunarinnar, t.v., og Rasmus Dahlberg sagnfræðingur veltu upp stöðu Norðurlandanna hvað varðar viðbúnað og viðnámsþrótt samfélaga.
Janne Känkänen, hagfræðingur og forstjóri finnsku Neyðarbirgðastofnunarinnar, t.v., og Rasmus Dahlberg sagnfræðingur veltu upp stöðu Norðurlandanna hvað varðar viðbúnað og viðnámsþrótt samfélaga.
Mynd / sá
Fréttir 10. apríl 2025

Aðsteðjandi ógnir æ flóknari og fjölþættari

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Vaxandi vilji er meðal norrænu þjóðanna til að fara í samstarf um viðbúnað og neyðarbirgðir á óvissutímum. Finnar og Svíar hafa þegar tekið höndum saman.

Efnt var til málþings í Norræna húsinu síðari hluta marsmánaðar í tilefni af árlegum Degi Norðurlanda. Var umræðuefnið viðbúnaður og viðnámsþol samfélagsins á tímum sem einkennast af spennu í alþjóðamálum, félagslegum óstöðugleika og áskorunum í umhverfismálum. Eru norræn samfélög sögð standa frammi fyrir æ flóknari og fjölþættari ógnum. Ísland búi að mikilli reynslu þegar komi að því að takast á við náttúruhamfarir en spyrja megi hversu tilbúin íslenska þjóðin er að takast á við fjölþættar ógnir sem reyni á samfélagslegt traust og samvinnu.

Öryggissamstarf Norðurlanda orðið aðkallandi

Janne Känkänen, hagfræðingur og forstjóri finnsku Neyðarbirgðastofnunarinnar, var einn framsögumanna. Hann greindi frá helstu dráttum í viðbúnaði Finnlands og hvernig tekist væri á við það verkefni að vernda mikilvæga innviði og hlutverk einkageirans þar að lútandi. „Við lifum á miklum óvissutímum og Norðurlönd standa frammi fyrir miklum breytingum á öryggisumhverfi sínu,“ sagði Känkänen. Að tryggja skilvirkt samstarf þvert á landamæri meðal geira og stofnana í hættuástandi væri lykilatriði og þegar komi að því að bæta viðbúnað sé augljóst tækifæri til samstarfs á milli Norðurlandanna.

Neyðarbirgðastofnunin er óháð ríkisstofnun sem rekur tveggja milljarða evra landssjóð til neyðaraðstoðar og samhæfir breitt net finnskra fyrirtækja sem talin eru mikilvæg fyrir þjóðarþol. Stofnunin ber ábyrgð á að viðhalda stefnumótandi birgðum Finnlands og tekur þátt í að keyra áætlanir sem miða að því að tryggja viðnám mikilvægra innviða. Markmiðið er að tryggja íbúum Finnlands m.a. korn, eldsneyti, áburðarefni, lyf og lækningabúnað, til níu mánaða tíma.

Känkänen minnti í framsögu sinni á að forsætisráðherra Finna, Petteri Orpo, hefði sl. haust hvatt til að norrænt samstarf um afhendingaröryggi neyðarbirgða yrði eflt. Forsætisráðherrann legði áherslu á að í núverandi öryggisumhverfi væri sífellt mikilvægara að efla viðnámsþol Norðurlandanna og stuðla að víðtækum viðbúnaði vegna margvíslegrar borgaralegrar kreppu og blendingsógna (e. hybrid-threat).

Vörubirgðir fyrir neyðarástand. Mynd / Finnska neyðarbirgðastofnunin

Ýmsar þreifingar í gangi

Í formennskuáætlun Finnlands í Norrænu ráðherranefndinni 2025 er mikil áhersla lögð á að styrkja sameiginlegan viðbúnað Norðurlanda. Sagði Känkänen ýmsar þreifingar vera í gangi innan ríkjanna um samvinnu, en of snemmt væri að segja til um hver raunveruleg niðurstaða þess yrði. Enginn sameiginlegur norrænn sjóður eða miðstöð væru á dagskrá á þessum tímapunkti.

Síðasta haust var samþykkt viljayfirlýsing finnskra og sænskra stjórnvalda um að hefja undirbúning að sameiginlegri áætlun um birgðaöryggi. Markmiðið er að þróa afhendingaröryggi milli landanna tveggja, efla seiglu og bæta hagkvæmni.

Löndin gerðu með sér samning um efnahagssamvinnu í alþjóðlegu kreppuástandi árið 1992 og verður hann uppfærður í takt við nýja tíma. Horft er m.a. til sameiginlegra neyðarbirgða, getu til að gera við neðansjávarinnviði, sérstaklega sæstrengi, og flutningasamstarf á norðurslóðum, að skiptast á upplýsingum um aðstæður, sameiginlega endurskoðun á áhættuog hættuumhverfi og sameiginlegt greiningarsamstarf.

Aukið tvíhliða samstarf ríkjanna er viðbót við annað samstarf á Norðurlöndum, í Eystrasaltsríkjunum og Evrópu, sem og vinnu NATO að viðnámsþoli. Sagði í sameiginlegri yfirlýsingu stjórnvalda Finnlands og Svíþjóðar að öllum möguleikum á að efla og auka samstarf við hin Norðurlöndin í þessum efnum væri fagnað.

Danir og Norðmenn hafa m.a. leitað í smiðju til Finnlands um skipulag og samþættingu neyðarráðstafana.

Margþættar og duldar ógnir

Rasmus Dahlberg, danskur sagnfræðingur og hamfarafræðingur, sem leiðir rannsóknarverkefnið RESECTOR á vegum Nordforsk (stofnun um norræna samvinnu á sviði rannsókna og rannsóknarinnviða), flutti einnig erindi á málþinginu og velti upp viðbrögðum við fjölþættri stríðsógn, tíðari veðuröfgum, upplýsingaóreiðu og rýrnun lýðræðislegra gilda.

Dahlberg benti m.a. á að aðsteðjandi ógnir væru afar margþættar og að miklu leyti undir yfirborðinu, svo að gríðarlega flókið væri að greina þær og þá sömuleiðis að bregðast við þeim. Styrkja þyrfti innviði samfélaga til að efla seiglu þeirra og bregðast við með heildstæðum hætti og alþjóðlegri samvinnu. Dahlberg hefur sérstaklega rannsakað hugtökin áhættu og seiglu í samvinnu við dönsku neyðarstjórnunarstofnunina.

Málþingið var haldið af Norrænu ráðherranefndinni í samstarfi við Norræna félagið á Íslandi.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...