Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Ari Heiðmann Jósavinsson.
Ari Heiðmann Jósavinsson.
Mynd / Aðsend
Fréttir 16. janúar 2024

Aðfangaútboð fyrir félagsmenn

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Á undanförnum þremur árum hefur starfshópur á vegum Búnaðarsambands Suður-Þingeyinga óskað eftir tilboðspökkum frá áburðar-, olíu- og raforkusölum vegna kaupa félagsmanna þess á þessum aðföngum.

Náðst hafa kjarabætur með þessari samstilltu leið bænda og aukið hagræði.

Um 70 bú á svæðinu hafa tekið þátt í þessum sameiginlegu útboðum, að sögn Ara Heiðmanns Jósavinssonar, bónda í Miðhvammi í Aðaldal og stjórnarmanns í búnaðarsambandinu. „Á síðasta ári keyptum við sameiginlega inn um 400 tonn af áburði, þá gerðu margir úr okkar hópi þau mistök að kaupa snemma áburð dýru verði. Núna erum við að setja okkur í stellingar fyrir næstu kaup, en það eru bara komnar fram verðskrár frá Skeljungi og Sláturfélagi Suðurlands.“

Hollustan sterk við aðfangasala

Ari telur að ýmsar ástæður séu fyrir því að ekki allir bændur innan sambandsins kjósi að taka þátt. „Enn þá er hollustan hjá einhverjum bændum við tiltekin fyrirtæki sterkari en sá mögulegi ávinningur sem hægt er að hafa upp úr sameiginlegum kaupum. Þetta er ekki enn komið á þann stað í landbúnaðinum á Íslandi að bændur kaupi alltaf sín aðföng þar sem hagkvæmast er að kaupa þau.

Við hjá búnaðarfélaginu erum að smíða betri umgjörð utan um fyrirkomulag slíkra útboða, en mér finnst eins og við séum á réttri leið með þetta. Ég hef sjálfur lært ótrúlega mikið af þessari vinnu, til dæmis varðandi áburðarþörfina, en það er alveg ljóst að það er hægt að taka ótrúlega mikið til heima hjá sér. Margir mjög reyndir bændur meira að segja, kaupa bara sinn áburð og sitt magn af gömlum vana.“

Listi „hinna staðföstu“

Um 120 bú séu á félagssvæði Búnaðarsambands Suður-Þingeyinga. Í byrjun verkefnisins lýstu 80 bú sig tilbúin til að vera með, en að sögn Ara var alltaf vitað að einhverjir myndu heltast úr lestinni.

„Við bjuggumst við því að einhverjir bændur kæmu inn í samstarfið sem myndu reyna að nýta sér þau tilboð sem myndu nást í gegnum samstarfið til að ná betri samningum sjálfir við sína sala. Ég gerði ráð fyrir að það myndi taka svona tvö ár að hreinsa okkur af þeim, sem mér sýnist að hafi tekist nokkurn veginn. Við erum núna með Facebook-síðu þar sem við miðlum upplýsingum og þar eru skráð um 70 bú. Í þeim hópi erum við svo með annan lista „hinna staðfestu“ sem skuldbinda sig til að taka þátt í þessum útboðum. Lægsta tilboði er þá tekið af öllum á þeim lista, sama frá hvaða fyrirtæki það er.“

Safnast þegar saman kemur

„Við höfum gert samning við Skeljung um áburðarkaupin í bæði skiptin sem við höfum staðið að sameiginlegu útboði,“ heldur Ari áfram. „Í þau skipti hefur þetta einmitt gengið þannig fyrir sig að við gerðum samning um lágmarksfjölda búa, en svo höfðu bændur sem stóðu þar fyrir utan möguleika á að bætast í hópinn. Að því leyti kemur þetta aðfangasölunum líka til góða, að ef tilboð þeirra eru góð geta fleiri bæst í viðskiptamannahópinn.

Við erum að hefja samtalið við áburðarsala núna og þó að það sé kannski ekki hægt að ná fram mjög miklum afslætti frá listaverði, þá safnast þetta saman – líka þegar við náum einhverjum kjarabótum út úr öðrum aðfangasölum. Síðan er eitthvert hagræði líka sem hægt er að ná fram. Til að mynda bauðst einn áburðarsalinn í samtali við okkur að koma með skip hreinlega á Húsavík sem myndi spara talsvert fyrir okkur í flutningi. Við hjá búnaðarsambandinu erum einmitt að fara að tilkynna um það í kvöld að við höfum náð samkomulagi um sameiginlegt kalkskip, þar sem við munum fá mulinn skeljasand sem verður dreift hér um sveitir; frá Akureyri, Húsavík, Þórshöfn, Vopnafirði og Reyðarfirði,“ segir Ari.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f