Að vera í stríði við sjálfan sig
Mynd / Wikimedia
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Að vera í stríði við sjálfan sig

Höfundur: Ari Trausti Guðmundsson, jarðvísindamaður og fyrrverandi alþingismaður (VG).

Snjótittlingurinn er ein helsta hetja norðursins. Vegur um 40 grömm og stenst frost yfir 40 stig. Vísbendingar eru um að honum fækkar á Íslandi. Ein ástæðan er hlýnun loftslagsins.

Ari Trausti Guðmundsson.

Fuglinn er um margt táknmynd vandans sem mannkyn verður að glíma við og varð ekki nægilega ljós fyrr en fremur seint á 20. öldinni. Meginorsökin er ofnotkun niðurgrafins kolefnis í yfir tvær aldir sem hefur ruglað náttúrulega kolefnishringrás jarðar svo um munar. Meðalhiti jarðar stefnir í 2 stiga hækkun (úr u.þ.b. 15° í 17°) fyrr en varir á öldinni, ef ekki enn hærra. Samhliða hefur verið gengið án fyrirsjár á gróður- og vistkerfi jarðar, einkum á landi en einnig að hluta í hafi. Mannkyn stendur í yfir áttunda milljarði að tölu til og fjölgar enn á meðan snjótittlingum og mörgum öðrum dýra- og jurtategundum fækkar eða þær hverfa. Álag á umhverfi mannsins hefur harðnað með hverjum áratug frá upphafi vélvædds iðnaðar og vélvæddra styrjalda.

Við öll með hlutverk

Veðurfarssveiflur eru algengar. Litla ísöldin (u.þ.b. 1400–1900) lék íbúa norðurslóða grátt. Líka aðrar slíkar fyrr á tímum, á stórum svæðum, með tilheyrandi fólksflutningum. Náttúrufarsmæligögn sýna glögg merki að nú hlýnar æ hraðar og og súrnun hafanna blasir við. Gróðurhúsalofttegundir (GHL) losna í þvílíkum mæli að leita þarf yfir hundruð þúsundir ára í fortíðinni að svipuðum losunarhraða. Koltvíoxið í lofti, aðallega vegna bruna jarðefnaeldsneytis, hefur aukist um þriðjung á um 70 árum. Metan úr þiðnandi sífrera losnar í æ meira mæli. Viðbrögð þjóða heims duga enn ekki til að hamla nægilega gegn hlýnuninni. Mitt í þessu ferli, stendur upp á hvern og einn þegn veraldar að vita sínu viti um þróunina, gera sitt besta og vinna með öðrum að lausnum, líka þeim einföldu. Mestu varðar þó um að stórþjóðir, stjórnvöld alls staðar, ráðandi yfirmenn og eigendur fyrirtækja, ásamt alls konar sérfræðingum, sinni skyldum sínum og ábyrgð.

Orkuskipti í forgangi

Í þessu umhverfi ríður á að leita jafnvægis á milli náttúrunytja, grunns alls lífsviðurværis, og umhverfisverndar. Breyta verður áherslum í leit að lífsgæðum, breyta þarf hagkerfum í hringrásarhagkerfi og minnka neyslu að magni til og inntaki, og minnka orku- og efnissóun. Stór orð og flókin verkefni, visssulega. Inn í þau fléttast örlagaríkt, margþátta verkefni: Orkuskipti. Um 2/3 hlutar unninnar orku í heiminum eru á formi raforku. Kol, olía og jarðgas eru þar mest áberandi og einnig til hitunar (umfram raforku) og svo olían sem eldsneyti á vélar. Betri orkukostir eru vel þekktir: Kjarnorka (hugsanlega kjarnasamruni), vindafl, vatnsafl, sólarorka, sjávarvirkjanir og jarðvarmi. Þeir eru grunnur að fullum orkuskiptum sem verða að nást, a.m.k. yfir 90% hlutdeild, sem allra fyrst á þessari öld. Þjóðir eru misvel í stakk búnar. Hér á landi má ná þessu marki 2040–2050. Vel má vera á þá verði snjótittlingurinn ekki lengur algengur íslenskur varpfugl.

Erfiðar spurnningar – flókin svör

Frammi fyrir áskorunum loftslagsbreytinga verður til augljós togstreita á milli aðferða til orkuframleiðslu og umhverfisverndar. Á að nýta kjarnorku? Á að framleiða rafeldsneyti með raforku? Eru aflmiklar vatnsvirkjanir æskilegar? Þarf þær til að framleiða jöfnunarafl (varaafl) ef vindvirkjanir eru byggðar? Hvar er vitrænt að hafa slíkar gnæfandi virkjanir? Er vit í að þekja land með sólarsellum? Eru boranir á háhitasvæðum til gagns miðað við langan þróunartíma sjálfbærrar nýtingar? Hvað með tímaþáttinn? Hvað með sjávarorku? Liggur á orkuskiptum eða ekki? Svörin verða ekki reifuð hér, nema við síðustu spurningunni. Svar mitt og fjölmargra annarra sem hyggja að orku- og umhverfismálum er stutt og laggott: Já.

Nú þegar á maðurinn í baráttu við sig

Ekki þarf að færa mjög mörg rök fyrir því hvernig aukið magn GHL leikur loftslagið og þar með lífsskilyrði og náttúrufar í öllum löndum heims. Ekki heldur fyrir því að tímarnir verða æ alvarlegri og válegri með hverjum áratug ef ekki er brugðist miklu hraðar við en nú stefnir í. Maðurinn á stóran hlut í þróun veðurfars. Hann getur þó breytt hegðun sinni og notað tækniþekkingu til þess að berja í brestina. Maðurinn er ekki „að fara í stríð við sjálfan sig“ með öflun nægrar orku til orkuskipta (sjá grein Rakelar Hinriksdóttur í Bændablaðinu 23. okt. sl.). Hann er nú þegar í sjálfskipuðu stríði við sjálfan sig sem hluti náttúrunnar vegna eigin aðgerða og athafna í sömu náttúru. Lausnir til friðar þola enga bið og þær felast í að nýta sem vistvænasta orku í stað þeirrar kolefnisbundnu. Það gerist hvorki með orkusparnaði einum né erfiðri gjörbreytingu framleiðslu- og neyslumynsturs. Hún tekur lengri tíma en svo að hún dugi til bjargar.

Nægt framboð raforku?

Hvert hinna 205 ríkja jarðar munu hafa sérþarfir og sérleiðir að fullum orkuskiptum. Hlutur Íslands í heildarlosun GHL er brotabrot af því sem sést hjá flestum öðrum þjóðum sem við berum okkur saman við, hvað þá stórveldunum. Ábyrgð okkar er þó söm og annarra enda losun á mannsbarn mikil. Öllum ríkjunum er tímarammi harla þröngur og Ísland hefur sett sér háleit markmið: Kolefnishlutleysi og full orkuskipti 2040. Það merkir að nokkur hundruð MW af viðbótarafli vistvænnar raforku duga skammt. Talan er nær 2.000–3.000 MW. Ástæðan eru eðlis- og efnafræðilegar staðreyndir. Sumar vélar geta gengið fyrir rafmagni en mjög stór hluti þeirra mun samt nýta einhvers konar rafeldsneyti, framleitt með raforku, í fyrirsjáanlegri framtíð. Rafknúin vél nýtir a.m.k. 90% rafhlöðurafmagns en framleiðsluaðferðir rafeldsneytis og orkutap sjá til þess að rafeldsneytisvél skilar aðeins 30%– 40% raforkunnar sem notuð er við framleiðslu eldsneytisins. Þar eð aðrar lausnir eru ekki til í bili verður því miður að sjá til þess að mikil viðbótarraforka sé til reiðu, miðað við að Ísland verði sjálfu sér nægt með sem flestar orkutegundir, þar með talið rafeldsneyti.

Hvað blasir þá við?

Hægt er að minnka orkuframboð til orkuskipta verulega með því að framleiða sem minnst af rafeldsneyti innanlands og flytja það inn, ef slaka má á kröfum um orkuöryggi. Hægt er líka að nálgast nálægt 2.000 MW með því að endurnýja ekki stóriðjusamninga og halda nýjum í miklu lágmarki. Stuðningur við útfösun málmstóriðju er fremur lítill í samfélaginu og næsta víst að ekki verður hægt í bráð að ná í mikla orku hjá stórfyrirtækjunum til orkukipta. Þriðja leiðin er augljós: Með blöndu nýrra vatnsvirkjana (og stækkun nokkurra eldri virkjana), vindaflsvirkjana og jarðvarmavirkjana (þar með taldar óvissar djúpborunarvirkjanir) mætti afla raforku til orkuskipta í skrefum sem henta eins vel og unnt er þeim pólitísku og vistfræðilegu ákvörðunum og öflugu náttúrvernd sem samkomulag næst um.

Vandasöm samþætting orkuskipta og umhverfisverndar

Sem nátturverndarsinni í vel rúm 40 ár geri ég mér grein fyrir að verndun innlendrar grunnframleiðslu, náttúruminja, víðerna, vistkerfa, flóru og fánu landsins er ekki bein braut. Við þær mótsagnir sem við höfum sjálf skapað okkur verður ekki glímt með því að ögra þeim framtíðarmyndum sem vísindin eru í óða önn að mála fyrir mannkynið. Herða verður á minni losun GHL og vernda um leið náttúrugæði sem best, binda kolefni með öllum skynsamlegum ráðum og efla hentugt, samfélagslegt hringrásarkerfi. Slík samþætting er vandasöm og heimilar ekki að orkuskipti dragist í áratugi vegna deilna í samfélaginu eða vegna skorts á skilningi á að einn þáttur fléttunnar getur ekki talist meginlausn mála. Stærsti greiðinn við snjótittlinga og mannfólk eins og komið er, felst í að minnka magn GHL í lofti með fullum orkuskiptum, minni losun frá iðnaði og illa förnu landi og með kolefnisbindingu.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...