Áburður úr mykju og jökulleir
Stefán Þór Kristinson, efnaverkfræðingur hjá EFLU verkfræðistofu, er einn þeirra sem kom að verkefni sem snýr að þróun farvegs fyrir mykju sem fellur til í landeldi.
Fyrirtækið sem hann starfar hjá hefur unnið að þróun kornaáburðar úr fiskeldismykju sem væri hægt að dreifa með hefðbundnum áburðardreifurum. Til að binda mykjuna saman er gert ráð fyrir að nota leir úr Hagavatni, sem er jafnframt með áburðarefnum.
Efnaverkfræðingur hjá EFLU.
„Með mikilli uppbyggingu fiskeldis á landi gefst tækifæri til að nýta mykjuna á auðveldari hátt en í sjókvíaeldi. Eins og við lítum á þetta núna þarf að raða saman mörgum púsluspilum til að koma upp góðum lausnum fyrir allan þennan geira á Íslandi,“ segir Stefán.
Innblásið af flóðum jökuláa
Stefán segir innblásturinn af því að nota leir úr Hagavatni hafa komið frá því að þegar jökulár flæða yfir ræktarlönd eykur það gjarnan frjósemi jarðvegsins. Hagavatn er við sporð Langjökuls og setið í kringum það inniheldur sömu næringarefni og jökulár, enda leirinn botnset frá þeim tíma þegar vatnið var stærra.
„Markmiðið er að finna farveg fyrir mykjuna og gera áburðarefni sem er auðveldara í geymslu, flutningum og notkun. Efnið sem verður til við lífgasframleiðslu er í kringum sex til níu prósent þurrefni,“ segir Stefán. Því þurfi að meðhöndla áburðinn frekar til þess að koma í veg fyrir óþarfa flutninga á vatni.
„Mykjan sem við fengum til prufu var um tvö til fimm prósent þurrefni og afvötnuðum við hana upp í 35 prósent með síun og pressun. Þá tókum við þurrkaðan leir og blönduðum saman. Settum svo í vél sem myndaði hálfgerða hakkastrimla sem fóru síðan í þurrkskáp. Úr því kom þurrt efni sem við settum í nokkur próf til að kanna eiginleika þess.“
Frekari þróunar þörf
„Í þessum tilraunum kom best út að blanda 25 prósent leir á móti mykju, því þá molnar efnið ekki of auðveldlega, er með minnst affall og leysist upp á réttum tíma. Þurrefnishlutfall mykjunnar er um 35 prósent og svo er þetta þurrkað saman í ofninum á eftir. Við sendum þessa blöndu í efnagreiningu og áburðargildið er rýrt samanborið við tilbúinn áburð,“ segir Stefán, en reiknar með að hreinsibúnaður landeldisfyrirtækjanna sé orðinn fullkomnari en þegar EFLA fékk fyrstu sýnishornin á sínum tíma.
Nauðsynlegt sé að halda þróun áburðarins áfram til þess að gera hann fýsilegan í notkun hjá bændum. „Ég sé fyrir mér að þetta sé góð leið til að koma blautu efni á tún með hefðbundnum tækjum. Það sem á eftir að útfæra betur eru íblöndun með köfnunarefni, flutningaleiðir og uppskölun,“ segir Stefán. Verkefnið var stutt af Uppbyggingarsjóði Suðurlands sem lagði fjármagn fyrir helmingi kostnaðarins.
