17 impa slys
Mikil umræða hefur orðið meðal íslenskra keppnisspilara síðustu vikur hvort draga megi lærdóm af helsta stórslysi Íslendinga er kemur að útgjöf impa á Norðurlandamótinu í bridds.
Mótið fór fram á Laugarvatni og stóðu vonir til þess að heimavöllurinn yrði oss notadrjúgur. En þvert á móti urðu stórslysin allnokkur en ekkert þó verra en eftirfarandi:
Sagnir gengu þannig á öðru borðinu að Evenstad í norður opnaði á hjarta. Maggi meldaði eitt grand inn á það eins og lög gera ráð fyrir. Ormurinn Heiberg fann að dobla grandið með sjölitinn í tígli, pass, pass, pass og vörnin tók næstum alla slagina! 17 impar út!
Á hinu borðinu spilaði íslenska parið, Aðalsteinn Jörgensen og Birkir Jón Jónsson í NS tígulbút sem er býsna góð ákvörðun í ljósi þess að ekkert geim ætti að standa. En smápeningarnir fyrir bútinn fóru fyrir lítið.
Lesendur Bændablaðsins geta velt fyrir sér hvort einhver leið sé í boði fyrir vestur eftir 1 hjarta-grand-dobl að láta eins og að einhver skipting sé í boði? Er hægt að gera eitthvað annað en að passa með spil vesturs? er stóra spurningin.
Sérfræðingar sem umsjónarmaður briddsþáttarins hefur rætt við eru ekki alveg á einu máli um svarið. Allir eru þó sammála um að ef þú ætlar að segja á spil vesturs til að reyna flótta úr dobluðu grandi skiptir öllu að melda leiftursnöggt – helst með svip fullum af sjálfstrausti, sem sýnir andstæðingi þínum að þú eigir allavega hálfan heiminn!
Mikið fjör í bikarkeppninni
Nú stendur yfir fyrsta umferð bikarkeppninnar 2025 og hefur heyrst af ótrúlegum úrslitum. Þau fréttnæmustu eru ef til vill að í einum leik, milli sveitarinnar Sjö spaðar og sveitarinnar Innskeifa kisa urðu úrslit 60-203 fyrir kisana. Að 6,5 impar rúmir skipti að meðaltali um eigendur í 40 spila leik bendir til engrar lognmollu.
Hvað er skemmtilegra en fjörlegir briddsleikir og æsilegir?!

