Í samstarfi við Reykjavíkurborg starfrækir Garðyrkjufélag Íslands tvo grenndargarða í Reykjavík. Hér má sjá þann í Elliðaárdalnum.
Í samstarfi við Reykjavíkurborg starfrækir Garðyrkjufélag Íslands tvo grenndargarða í Reykjavík. Hér má sjá þann í Elliðaárdalnum.
Mynd / Aðsendar
Viðtal 10. maí 2024

Grenndargarðar bæta lýðheilsu

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Grenndargarðar í borgum, bæjum og þorpum njóta vaxandi vinsælda í kjölfar aukinnar umhverfisvitundar víða um lönd.

Finna má þó nokkra íslenska grenndargarða, ýmist á vegum sveitarfélaga, stofnana eða félagasamtaka, fyrir almenning eða tiltekna hópa. Má sem dæmi nefna skólagarða víða um land og matjurtagarða sem leigja má í mörgum byggðakjörnum landsins.

Lilja Sigrún Jónsdóttir.

Lilja Sigrún Jónsdóttir hefur ræktað eigið grænmæti um þriggja áratuga skeið og lengi haft áhuga á grenndargörðum sem samfélagsverkefni. Hún segist stundum kalla þetta samfélagslækningar. Lýðheilsuvinna hafi ætíð höfðað til hennar og grenndargarðar séu angi af slíku.

Lilja er heimilislæknir og hefur auk þess unnið við verkefnastjórnun og rannsóknir. Einnig er hún formaður stjórnar Urtagarðsins í Nesi og formaður Íbúasamtaka Laugardals. Ræktun kynntist hún fyrst í skólagörðum og er með skika í grenndargarðinum Smálöndum í Elliðaárdal í Reykjavík. Hún heldur auk þess tengslum við almenningsræktun í gegnum t.d. fræsafn í samstarfi við Borgarbókasafnið í Sólheimum.

Óreyndir nytu leiðsagnar

Lilja útskýrir grenndargarð sem ræktunarsvæði þar sem megi fá reiti til útleigu til matjurtaræktunar. Þeir séu gjarnan 20–25 m2 að stærð og megi vísa til sem skika eða nytjagarða. Leigjendur skika geti haft sama garð til leigu ár eftir ár og garðarnir séu ekki plægðir í heild. Ávinningur af þessu sé að leigjendur geti lagst í endurbætur á jarðvegi, e.t.v. sett niður gróðurramma/vermireiti og ræktað fjölærar jurtir án þess að þær skemmist á milli ára.

Lilja hefur áður hvatt opinberlega, m.a. með blaðaskrifum 2008, til þess að sveitarfélög byðu fram svæði til matjurtaræktunar fyrir almenning; annars vegar skika fyrir reynt fólk í matjurtaræktun og hins vegar úrlausn fyrir óreyndara fólk með leiðsögn og stuðningi. Hún benti jafnframt á fyrirmyndir erlendis frá, m.a. Norðurlöndum og víðar (þekkjast í Danmörku sem koloniehave) og Bretlandi (e. allotment).

Færðust á jaðarinn

Spurð um aðdraganda fyrstu grenndargarða hér á landi svarar Lilja að löng hefð sé fyrir skólagörðum á Íslandi og í Reykjavík hafi fyrir miðja 20. öld verið töluvert af kálgörðum, m.a. í Kringlumýri og Vatnsmýri. Um tíma hafi verið garðar nálægt Korpu og síðar í Skammadal.

„Árið 2008 buðu þegar nokkur sveitarfélög íbúum upp á að fá skika til ræktunar í matjurtagörðum, oftast til eins árs í senn, og sá sveitarfélagið þá um að plægja garðana og úthluta á hverju vori. Ýmsir nýttu sér þetta en framkvæmd var misjöfn eftir sveitarfélögum. Of víða hafði þessi landnýting vikið fyrir byggð og flust í útjaðar sveitarfélaga í nokkrum skrefum,“ segir hún.

Lilja leiddi á þessum tíma óformlegan hóp áhugafólks um nytjaræktun í þéttbýli. „Við funduðum með garðyrkjustjóra Reykjavíkur, Þórólfi Jónssyni, til að ræða hvar mætti mögulega setja niður garða sem leigðir væru út á öðrum forsendum en þeim sem þegar voru í boði þá. Í framhaldi fór ég með erindi fyrir stjórn Garðyrkjufélags Íslands (GÍ). Vilhjálmur Lúðvíksson formaður tók mér vel og félagið gerði samkomulag við Reykjavíkurborg um að útvega land undir slíka ræktun. Það hafðist vorið 2009 og var sem tilraunaverkefni sumarlangt,“ segir hún. Í þessari vinnu hafi vantað hugtak fyrir garðlönd til langtímaleigu og lagði Lilja til yfirheitið grenndargarður fyrir svæðið allt og innan þess væru skikar eða nytjagarðar til útleigu.

Verkefnið gekk vel og sumarið 2010 var bætt við fleiri grenndargörðum. Urðu þeir mest þrír í Reykjavík og einn í Kópavogi en rekstur þeirra reyndist áhugamannafélagi of erfiður og því var dregið saman. Lilja segir GÍ enn vera með tvo grenndargarða í rekstri á sömu forsendum og áður.

„Samkomulagið við Reykjavíkur­ borg kveður á um einfaldan rekstur: borgin útvegar rennandi kalt vatn á staðnum og öllum Reykvíkingum stendur til boða að leigja þar skika. Í vor hefst því sextánda rekstrarárið í Smálöndum og í Grafarvogi, það fimmtánda frá því að gert var fast samkomulag um grenndargarða,“ segir Lilja.

Í dag leigir Reykjavíkurborg út um 600 matjurtagarða á sex stöðum í borgarlandinu sem og í Skammadal í Mosfellsbæ. Önnur sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins, og Akureyri, bjóða einnig upp á matjurtagarða til leigu, sem og önnur sveitarfélög víða um land.

Embla Katrín Jónatansdóttir, var alsæl með fallega
kartöfluuppskeru úr nytjagarði í Smálöndum.
Gagnsemi, virkni og betra fæði

Í Evrópu er, að sögn Lilju, löng hefð fyrir görðum bæði af svipuðum toga og einnig svokölluðum kotgörðum, eða koloniehave, sem eru ívið stærri um sig (100–200 m2 land með smáhýsi) og það alþekkt að margra ára bið sé eftir að komast að. Hún segir að áhugavert væri að koma á fót slíkum görðum hér á landi. Í Bandaríkjunum hafi garðar verið stofnsettir sem samfélagsverkefni í hverfum þar sem íbúar eru félagslega illa settir og hafi það sýnt sig í að gera gagn, auka virkni íbúa og auka neyslu grænmetis.

„Í grenndargarði er samfélag fólks sem þekkist ekki fyrir en ætlar að njóta þess að vera í samfélagi og hjálpast að við sameiginleg verkefni,“ segir Lilja og heldur áfram: „Verkefni, þar sem kynslóðir geta starfað saman, fjölskylda og/ eða vinir geta sameinast í að skapa, rækta og njóta uppskeru saman, eru ómetanleg. Dásemdarstundir á vorin verða ógleymanlegar þegar beð eru hreinsuð og spakir þrestir koma að vitja um orma. Það hefur heyrst að það að reyta arfa sé á við bestu núvitund.

Árangur í rekstri grenndargarðs verður að metast af upplifun og uppskeru ræktenda, hvort fólk heldur í garðinn til lengri tíma eða skemmri og hvort séu einhverjar áskoranir í umönnun eða framkvæmd,“ segir Lilja enn fremur. „Það er ljóst að úr þessum görðum sem hafa verið í ræktun í 16 ár hefur verið uppskorið grænmeti í tonnavís. Gleði, vináttu og vellíðan er erfitt að mæla en tryggð ræktenda segir einhverja sögu. Á hverjum tíma hætta einhver og koma ný, árlega ef til vill 10–15% af ræktendahópnum, en til staðar er enn töluverður kjarni ræktenda sem hefur verið frá upphafi.“

Hún segir fjölbreytni þess grænmetis sem ræktað hafi verið á svæðinu mikla og þar hafi grannar gjarnan lært hver af öðrum og deilt plöntum og fræjum. Fjölbreytt úrval af kartöflum og útsæðisskipti hafi einnig verið vinsæl. Ákveðin festa í starfinu hafi gagnast öllum ræktendum. „Við höfum getað haft verkfærageymslu á svæðinu, útvegað okkur húsdýraáburð til eigin afnota og haft vinnudaga til að snyrta svæðið,“ segir hún jafnframt.

„Það tekur reynslulitla ræktendur tíma að sætta sig við að ekki fæst öll uppskera í hús og að gera þarf ráð fyrir afföllum. Þau geta verið vegna óvenjulega góðrar tíðar fyrir óværu eins og snigla, eða að óprúttnir aðilar gerist hirðusamir á svæðinu. Lausnin hefur verið að rækta umfram eigin þarfir og láta svo ekki ergja sig of mikið ef eitthvað fer forgörðum. Það er sárara að lenda í skemmdarverkum og hefur sárasjaldan gerst.“

Grenndargarðar eru að sögn Lilju fyrir fólk úr öllum stigum samfélagsins. „Í garðinn hefur komið eldra fólk sem ef til vill hefur ekki verið mikið að reyna á sig líkamlega en yngist um mörg ár við að pjakka í moldina. Það er einnig gaman og gagnlegt að fá að rækta grænmeti með fólki af erlendum uppruna því þaðan kemur verkkunnátta sem er ólík því sem hér hefur tíðkast og er það vel,“ segir hún.

Grenndargarðar séu í skipulagi

Lilja telur mikilvægt í þéttbýli að landrými sé varið til útivistar og grenndarræktunar innan skipulags sveitarfélaga. „Aðalskipulag Reykjavíkur segir að gera skuli ráð fyrir landi undir grenndargarða í nýjum hverfum. Íbúar mega þá vænta þess. Það væri gaman að sjá aukna áherslu á að varðveita aðgengi að landi undir ræktun í nærumhverfi fólks í eldri hverfum. Það styður einnig við loftslagsmarkmið.“

Að rækta sitt eigið grænmeti er að sögn Lilju áhugamál og lífsstíll, eins og t.d. hestamennska, stangveiði eða að spila golf. „Það fer minna fyrir ræktun í samfélaginu enda hverfa borgarbændur í skuggann af stórræktendum og öðru fagfólki. Fólk sem ekki ræktar spyr alltaf um uppskeruna í magntölum og vissulega gætum við keppt um stærstu rófuna eða kálhausinn. Sá hluti er þó bara partur af gleðinni á sama hátt og að veiðimenn eru ekki alltaf fengsælir. Líf ræktandans sem gleðst að vori yfir smáum kímplöntum og syrgir að hausti þegar þarf að fara að kaupa aftur salat og annað grænmeti er í takt við náttúruna og árstíðirnar. Svo kemur alltaf aftur vor að loknum vetri,“ segir Lilja að lokum.

Skylt efni: grenndargarðar

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt