Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 mánaða.
Hrafnhildur og Barði, leikstjórar heimildamyndarinnar Bóndinn og verksmiðjan, en í myndinni koma fram alvarlegar ásakanir um mengunarmál hjá Norðuráli.
Hrafnhildur og Barði, leikstjórar heimildamyndarinnar Bóndinn og verksmiðjan, en í myndinni koma fram alvarlegar ásakanir um mengunarmál hjá Norðuráli.
Mynd / Sturla Óskarsson
Viðtal 22. júlí 2025

Bóndi fer í stríð

Höfundur: Sturla Óskarsson

Heimildamyndin Bóndinn og verksmiðjan fjallar um Ragnheiði, bónda á Kúludalsá í Hvalfirði, sem telur að flúormengun frá Norðuráli hafa verið orsakavaldur veikinda hesta sinna og áralangar deilur hennar við bæði álverið og íslenska ríkið. Blaðamaður Bændablaðsins spjallaði við leikstjóra myndarinnar, Hrafnhildi Gunnarsdóttur, og Barða Guðmundsson, í aðsetri framleiðslufyrirtækis Hrafnhildar, Krumma Films, í Gufunesi.

Í myndinni koma fram alvarlegar ásakanir um mengunarmál hjá Norðuráli en Hrafnhildur tekur þó fram að Bóndinn og verksmiðjan sé fyrst og fremst saga Ragnheiðar. „Við reyndum að fá viðtöl við Norðurál en þeir vildu ekki veita okkur viðtal. En myndin er sögð út frá sjónarhóli Ragnheiðar, svo það sé sagt. Við höfum tiltölulega óheftan aðgang að henni og hún lét okkur oft vita þegar eitthvað var að koma upp. Og þessi dómsmál sem hún fer í. Dómstólarnir láta einstaklinginn sanna að það sé mengun sem er að drepa hestana en þeir krefja ekki mengunarvaldinn um að sanna að þeir séu ekki valdir að því,“ segir Hrafnhildur. Í myndinni er Ragnheiði fylgt eftir í dómsmáli sem hún höfðaði gegn Norðuráli vegna mengunarslyss árið 2006 þegar þurrhreinsibúnaður álversins varð óvirkur um tíma og styrkur flúors mældist yfir mörkum. Ragnheiður taldi þessa mengun vera orsakavald í veikindum hestanna en hún tapaði málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur og Landsréttur staðfesti síðar þá niðurstöðu.

Þagnarveggur í sveitinni

Myndin tók 11 ár í framleiðslu. „Að vísu tók aðeins lengri tíma að klára myndina en við lögðum upp með en það var aðallega vegna þess að orðið í sveitinni var, á mörgum stöðum, að þetta væri allt Ragnheiði að kenna. Hún færi illa með hestana og kynni bara ekki að fara með hross. Ég vildi ekki klára myndina fyrr en við fengjum einhvern annan í sveitinni til þess að segja okkur að þeirra hestar væru líka veikir,“ segir Hrafnhildur, en hennar upplifun var að nokkurs konar þagnarveggur hafi mætt þeim í sveitinni og enginn hafi viljað tjá sig um málið. Í gegnum persónuleg tengsl hafi Hrafnhildur loks heyrt af bónda sem hafði sams konar sögu að segja. „Helmingur stóðsins á bænum var kominn með svipuð einkenni. Hann var tilbúinn að tala við okkur og segja okkur frá því. Og við heyrum að það er verið að slátra hestum mikið út af einkennum hófsperru í Hvalfirði. Við erum náttúrlega ekki rannsakendur en þetta er það sem við höfum heyrt,“ segir Hrafnhildur.

Þrátt fyrir að þurrhreinsibúnaði Norðuráls hafi aftur verið komið í lag eftir mengunarslysið taldi Ragnheiður að enn væri of mikill útblástur flúors frá álverinu, þar sem hestar hennar héldu áfram að veikjast. „Þetta virðist vera árviss viðburður á ákveðnum tíma árs. Í júlí, ágúst, fer eftir veðrinu það árið. Svo kom út mjög merkilegt mastersverkefni, rannsókn á flúormengun á landinu, og niðurstöðurnar voru þær að það væri fjórfalt meira flúor í kringum Grundartangasvæðið í beinum hesta og kinda. Ef þú tekur hest í Skagafirði þá er hann bara með allt annað flúormagn í beinum,“ segir Hrafnhildur. „Svo voru virtir vísindamenn í ein þrjú ár að rannsaka þetta á vegum ráðuneytisins og þeir komust að þeirri niðurstöðu að þetta væri vegna flúormengunar, að öllum líkindum,“ bætir Barði við.

Ein í baráttu gegn stofnunum og stórfyrirtækjum

En hvers vegna telja þau Ragnheiði hafa verið svona ein í sinni baráttu? „Hún er þrjósk!“ segir Barði strax. „Hún er náttúrlega mjög þrjósk, hún Ragnheiður, og allt í lagi með það,“ bætir Hrafnhildur við og segir að „bændum í þessari sveit finnist þetta vera viðkvæmt mál vegna þess að það er náttúrlega verið að framleiða matvæli og ef það er talað um óhóflega mengun á svæðinu þá getur það haft áhrif á afkomu þína. Það getur haft áhrif á fasteignaverð. Þannig að það er ekki mjög vinsælt að ræða þetta eins og við rákum okkur á.“

„En þetta er ekki bara sinnuleysi og afskiptaleysi af hálfu fólksins sem er þarna í næsta nágrenni við hana heldur líka náttúrlega, sem er alvarlegra, Umhverfisstofnunar og Matvælastofnunar,“ segir Barði. Matvælastofnun komst að niðurstöðu þess efnis að orsakir veikinda hestanna væru offita og hreyfingarleysi sem leiddi til sykursýki II, eða EMS. Árið 2013 fékk matvælaog nýsköpunarráðuneytið tvo dýralækna til þess að kanna málið og komust þeir að þveröfugri niðurstöðu. Vegna styrks flúors í beinum hestanna á Kúludalsá töldu þeir líklegt að veikindi hestanna mætti rekja til flúormengunar. Þrátt fyrir það stendur Matvælastofnun enn við sinn úrskurð.

Í myndinni kemur fram gagnrýni um það að álverið sinni sjálft mengunarmælingum. „Norðurál borgar Eflu fyrir að mæla mengunina og það eru mælistöðvar hér og þar um Hvalfjörðinn. En það er mjög þekkt að ef það er kannski einhver ein stöð sem mælir mikið þá er henni bara oft kippt úr sambandi. Svo var til dæmis líka mælistöð þarna upp á Stekkjarási og það er búið að taka hana úr sambandi líka,“ segir Hrafnhildur.

Telja þau stórfyrirtæki hafa of mikil völd hér á landi? „Tvímælalaust!“ segir Barði. „Ég veit ekki hvort þú hefur lesið Draumalandið en það er talað um að þetta séu smáríki innan ríkisins, þessi risastóru fyrirtæki, og þetta hefur náttúrlega bara gríðarleg áhrif í þessu sveitarfélagi. Það vill enginn hallmæla því og það má ekki hallmæla því,“ segir Hrafnhildur.

Ragnheiður gefst ekki upp

Hrafnhildur hefur áður gert myndir um réttindabaráttu kvenna og samkynhneigðra, réttindabaráttu fjöldahreyfinga. Hvers vegna tekur hún nú að sér að fjalla um baráttu einnar konu? „Mér fannst bara Ragnheiður beitt svo miklu óréttlæti. Það er búið að eyðileggja búskapinn á þessari jörð, hún fær engar bætur, hún er fyrir utan eitthvað sem þeir kalla þynningarsvæði og mætir bara lokuðum dyrum alls staðar. Að því leyti fannst mér bara mikilvægt að segja þessa sögu. Við erum augljóslega að segja söguna frá hennar sjónarhorni. Ekki að við höfum ekki reynt að tala við aðra, það er ekki þannig, hún segir ákveðna sögu en það má alveg tala um þetta frá öllum hliðum, finnst mér,“ segir Hrafnhildur.

„Ég veit að þessi mynd er dálítið niðurdrepandi, nema hvað Ragnheiður gefst ekki upp. Ég ber ómælda virðingu fyrir Ragnheiði. Þótt henni finnist að myndin hefði frekar átt að vera eins og ritgerð,“ segir Hrafnhildur. En í viðtali við Morgunblaðið nýverið sagði Ragnheiður að þrátt fyrir að margt gott kæmi fram í myndinni þá teldi hún hana ekki ná að fanga baráttu sína og að hún gæti ekki lagt blessun sína yfir myndina.

Bubbi með lokalag

Bubbi Morthens á lokalagið í myndinni, hvernig kom hann inn í verkefnið? „Það var bara einn daginn þegar ég var að keyra til baka frá Ragnheiði að þá horfði ég yfir fjörðinn og hugsaði: Það verður að vera lag eftir Bubba í þessari mynd. Ég vissi að hann hefði búið í Kjósinni og hringdi bara þegar ég var að keyra undir Hvalfjörðinn og sagði: Bubbi, þú veist um hana Ragnheiði á Kúludalsá, geturðu ekki gert eitt lag fyrir okkur? Og hann gerði það!“ segir Hrafnhildur. „Hann var líka á sínum tíma ákafur andstæðingur þess að verksmiðjan risi þarna,“ segir Barði.

Vonast eftir breytingum og minnast hestanna

Hvað vilja þau að myndin skilji eftir sig?

„Við viljum sjá allt breytast, við viljum sjá að það verði engin mengun þarna og það verði tekið hraustlega á þessum hlutum. Og ég myndi gjarnan vilja sjá að Ragnheiður fengi sitt réttlæti fyrir baráttuna og bætur fyrir skaðann sem mengunin hefur valdið henni,“ segir Hrafnhildur. „Þeir þurfa að skoða sín mál verulega alvarlega. Ekki bara þeir heldur aðrir, Matvælastofnun og ríkið,“ segir Barði.

Þau segjast ekki ætla í áframhaldandi baráttu vegna málsins, með útgáfu myndarinnar sé þeirra hlutverki lokið. „Við gátum sagt sögu Ragnheiðar og við höfum gert það. Og sögu hestanna á Kúludalsá,“ segir Hrafnhildur. „Þessi mynd er náttúrlega gerð í minningu þeirra,“ segir Barði að lokum.

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt