Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Veiðar á norsk-íslenskri síld.
Veiðar á norsk-íslenskri síld.
Mynd / Þorgeir Baldursson
Í deiglunni 28. febrúar 2023

Hrun og ris norsk-íslensku síldarinnar

Höfundur: Kjartan Stefánsson

Fáar fisktegundir ef nokkrar eru sveipaðar jafnmiklum ævintýraljóma og Norðurlandssíldin svonefnda. Hún ásamt þorskinum lyfti Íslendingum úr fátækt í velmegun á síðustu öld. Síldin skilar enn þá verðmætum í þjóðarbúið þótt mikilvægi hennar sé ekki jafnmikið og áður var.

Sú síld sem kölluð var Norður­landssíld eða Íslandssíld hér áður fyrr er af norska vorgots­ síldarstofninum. Hún hrygnir aðallega við vesturströnd Noregs í febrúar til apríl en kemur hingað í ætisleit á sumrin og það er gjarnan stórsíld sem leitar lengst í vestur. Stærsta síld sem vitað er að veiðst hafi hér við land fékkst út af Skjálfanda árið 1955. Hún var 46,5 sentímetra löng. Annars verður síldin sjaldan lengri en 30 til 40 sentímetrar, segir í bókinni Íslenskir fiskar eftir Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson.

Síldin veiddist aðallega fyrir norðan og austan og hún gat verið að einhverju marki blönduð íslenskri síld og er svo enn í dag. Norðurlandssíldin er nú á tímum nefnd norsk­íslensk síld.

Nokkrir síldarstofnar

Í þessari grein verður fjallað um veiðar og vinnslu Íslendinga á norsk­ íslenskri síld en lítillega minnst á aðra síldarstofna.

Fyrir utan norsk­íslensku síldina eru margir síldarstofnar í norð­austanverðu Atlantshafi, misjafnlega stórir. Má þar nefna Hvítahafssíld, Múrmansksíld, þrjá stofna haust­ gotssíldar í Norðursjó og við vesturströnd Skotlands og tvo íslenska síldarstofna, vorgots­ og sumargotssíld, að því er fram kemur í grein á vef Hafrannsókna­ stofnunar sem byggist á bókinni Íslenskir fiskar.

Íslenska sumargotssíldin, sem einnig var kölluð Suðurlandssíld, veiðist á haustin og eitthvað fram á vetur. Íslenska vorgotssíldin, sem gaf góðan afla í eina tíð, er hins vegar nánast útdauð af völdum ofveiði, óhagstæðra umhverfisskilyrða og að einhverju leyti vegna Surtseyjargossins sem eyðilagði mikilvægar hrygningarslóðir hennar.

Ein mest veidda fisktegundin

Síld hefur um langan aldur verið ein mest veidda fisktegundin í heiminum. Síldveiðar voru stundaðar í Norðurálfu löngu áður en sögur hófust. Flestir síldarstofnar í Norðaustur­Atlantshafi hrundu á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar en hafa náð sér aftur nema vorgotssíldarstofninn við Ísland.

Árið 1966 veiddust alls um 3,6 milljónir tonna af síld í Norðaustur­ Atlantshafi og er það mesti afli sem náðst hefur. Það ár veiddust tæpar 2 milljónir tonna af norsk­íslenskri síld, þar af veiddu Íslendingar um 690 þúsund tonn og er það mestur afli þeirra af þessum eðalfiski á einu ári. Önnur ár voru aflabrögðin ekki eins góð. Á árunum 1950 til 1960 var aflinn til dæmis undir 50 þúsund tonnum á ári.

Hrun og ris stofnsins

Norsk­íslenski síldarstofninn hrundi eftir 1968 eins og margoft hefur verið fjallað um á opinberum vettvangi. Kom þar einkum til mikil veiði á ungsíld, sem vó þungt, breytt umhverfisáhrif og skortur á aðalfæðu síldarinnar, rauðátunni.

Síldin sást ekki hér við land í ein 25 ár eða svo en kom hingað aftur 1994. Það ár veiddu íslensk skip um 21 þúsund tonn. Eftir að veiðar hófust á ný var ársaflinn minnstur, tæp 43 þúsund tonn, árið 2015 en mestur, rúm 269 þúsund tonn, árið 2009.

Seinni árin hefur heildarafli allra þjóða farið mest í tæpar 1,7 milljónir
tonna árið 2009. Heildarafla­ mark allra þjóða var tæp 828 þúsund tonn árið 2022.

Veiðar úr stofninum hafa verið umfram ráðgjöf Alþjóða­ hafrannsóknaráðsins (ICES) síðan árið 2013.

Engin sátt um skiptingu heildarkvótans

Norðmenn, Íslendingar, Færeyingar, Rússar, Bretar og þjóðir innan ESB stunda veiðar á norsk­íslensku síldinni. Heildaraflamark er ákveðið ár hvert á vettvangi Norð­ austur­Atlantshafsfiskveiðiráðsins (NEAFC). Gert er ráð fyrir að hlutaðeigandi strandríki komi sér saman um skiptingu heildarkvótans.

Stundum hefur það tekist en oftar ekki í seinni tíð. Samkvæmt samkomulagi frá 2007 var hlutur Íslands 14,51% af heildarveiðinni en frá 2013 hefur ekki náðst sátt um skiptinguna. Hver og einn hlutaðeigandi gefur einhliða út aflamark á hverju ári.

94% aflans í íslenskri lögsögu

Á síðasta ári veiddu Íslendingar um 112 þúsund tonn af norsk­íslenskri síld. Árið þar á undan var aflinn rúm 114 þúsund tonn og var allur veiddur í flotvörpu.

Rúmlega 94% aflans 2021 fékkst innan íslenskrar lögsögu og 6% á alþjóðlegu hafsvæði. Veiðar úr stofninum fóru fram frá júní til nóvember og var mest veitt í september (48%), að því er kemur fram í upplýsingum frá Hafrannsóknastofnun. Af fréttum að dæma gekk einnig vel að ná norsk­íslensku síldinni í íslensku lögsögunni á vertíðinni 2022.

Alþjóða hafsvæðið austan við íslensku lögsöguna og norðan við þá færeysku er nefnt Síldarsmugan. Þar geta íslensk skip veitt af kvóta sínum í norsk­íslenskri síld ef á þarf að halda. Einnig hafa þau heimild til að veiða síldina í færeysku lögsögunni.

Hagræðing, öflug skip og sjálfvirkni

Veruleg hagræðing eða samþjöppun hefur orðið í síldveiðum sem og öðrum veiðum á uppsjávarfiski. Samhliða hefur uppsjávarflotinn verið endurnýjaður. Færri en öflugri og burðarmeiri skip eru nú að veiðum en áður og þau er búin kælitönkum sem halda hráefni fersku fram að löndun. Einnig hafa verið byggð hátæknivædd frystihús fyrir uppsjávarfisk þar sem sjálfvirkni ræður ríkjum. Mannshöndin kemur varla nærri eiginlegri vinnslu lengur. Fiskimjölsiðnaðurinn hefur líka tekið stakkaskiptum með verksmiðjum sem framleiða hágæðamjöl.

Níu útgerðir með kvótann

Kvóta Íslands í norsk­íslensku síldinni á síðasta ári var úthlutað á skip sem eru í eigu 9 útgerðarfélaga. Eitt félagið er þó aðeins með 0,4% kvótans.

Kvótahæsta félagið 2022 var Síldarvinnslan hf. í Neskaupstað með 21,5% af heildinni. Ísfélag Vestmannaeyja hf. var í öðru sæti með 20,2% og í því þriðja var Brim hf. Reykjavík með 14,1%. Í fjórða sæti er Vinnslustöðin hf. í Vestmannaeyjum með um 10% og er þar meðtalinn kvóti dótturfélagsins Huginn ehf.

Þrjú kvótahæstu félögin voru með 56% kvótans.

Vilhelm aflahæstur

Á síðasta ári stunduðu 23 skip veiðar á norsk­íslensku síldinni. Þeirra aflahæst var skip Samherja, Vilhelm Þorsteinsson EA, með 13.561 tonn. Þar á eftir kom Börkur NK með 9.770 tonn og Beitir NK var í þriðja sæti með 9.686 tonn. Síldarvinnslan gerir út Börk og Beiti. Tíu aflahæstu skipin voru með 71% aflans.

Heildaraflamark íslenskra skipa í norsk­íslenskri síld á árinu 2023 er rúm 92 þúsund tonn.

Saltsíldin því sem næst horfin

Hér áður fyrr var manneldisvinnsla á síld aðallega og nær eingöngu söltun. Síldin var hausskorin og slógdregin og söltuð í tunnur. Lítils háttar var fryst af síld og um tíma var síld flutt út niðurlögð í dósir í einhverjum mæli. Þar voru gömlu góðu gaffalbitarnir á ferðinni.

Vinnsla síldarinnar hefur gjörbreyst frá því sem áður var. Nú er megnið af síldinni fryst, í flökum eða heilfryst. Örlítið er enn þá saltað til útflutnings og er þá um að ræða bita og flök, ekki heila síld eins og áður. Aðeins eitt fyrirtæki heldur í þessa
hefð, Loðnuvinnslan á Fáskrúðsfirði.

Mjöl og lýsi er mikilvæg afurð sem fyrr. Þótt allri síld sé nú landað til manneldisvinnslu fara afskurður og frákast til framleiðslu á fiskmjöli og lýsi. Getur það verið umtalsvert magn sem þannig fellur til.

Síld skilaði 5,2% af verðmæti sjávarafurða

Árið 2021 voru fluttar út síldarafurðir fyrir 15,3 milljarða króna, sem er um 5,2% af útflutningsverðmæti sjávarafurða í heild, samkvæmt tölum á vef Hagstofunnar. Þettar eru heildartölur fyrir síld og ekki gerður greinarmunur á afurðum úr norsk­íslenskri síld og íslensku sumargotssíldinni. Ljóst er að hlutur norsk­íslensku síldarinnar vegur töluvert þyngra því meira sem er veitt af henni og hún er alla jafna stærri og verðmeiri.

Skipting eftir afurðum er þannig að fryst síld skilaði 8,5 milljörðum króna, mjöl og lýsi gaf 5,8 milljarða, ísuð síld rúman milljarð og söltuð síld aðeins 32 milljónir.

Noregur helsta viðskiptalandið

Hér áður fyrr keyptu Svíar og Rússar megnið af saltsíld sem flutt var héðan út. Nú er Noregur stærsti kaupandi síldar, keypti síldarafurðir af okkur fyrir 5,2 milljarða í fyrra og er þar aðallega um að ræða síldarmjöl og lýsi sem notað er í framleiðslu á fóðri fyrir laxeldi. Pólland kemur næst á eftir Noregi sem mikilvægasta viðskiptalandið. Þangað fóru síldarafurðir að verðmæti 2,9 milljarðar og Litháen er í þriðja sæti með 1,9 milljarða.

Heilfryst síld og önnur fryst síld fer að langstærstum hluta til Austur­Evrópu.

IKEA stærsti smásali á síld í Skandinavíu

Hér í lokin má til gamans rifja upp frétt í Fiskifréttum frá árinu 2012. Þar er vísað í erindi sem flutt var á Sjávarútvegráðstefnunni og fjallaði um hvað verður um uppsjávarfisk frá Íslandi.

Megnið af uppsjávarafurðum er frystur fiskur sem fer í framhaldsvinnslu erlendis. Hér er um síld, makríl, loðnu og kolmunna að ræða. Erlendis er fiskurinn maríneraður, saltaður, reyktur og þurrkaður. Einn vinsælasti síldarrétturinn í Austur­Evrópu er til dæmis marineruð síld með kartöflum, dilli og lauk. Síld er einnig niðurlögð í dósir og krukkur. Fyrirlesari sýndi sem dæmi mynd af krukku með síld í sem merkt var IKEA. „Fáir vita að IKEA er stærsti smásöluaðili á síld í Skandinavíu en það er staðreynd,“
sagði hann.

Hvort IKEA sé stærsti smásali síldar í Skandinavíu enn þann dag í dag skal ósagt látið en í verslun IKEA á Íslandi má að minnsta kosti finna þrjár tegundir af marineraðri síld innan um og saman við sænsku kjötbollurnar!

Skylt efni: síld

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs
Fréttaskýring 18. apríl 2024

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs

Alþingi samþykkti 21. mars sl. breytingu á búvörulögum sem felur í sér undanþágu...

Mikilvægasta rými jarðar
Fréttaskýring 29. mars 2024

Mikilvægasta rými jarðar

Stærsta innlögn nýrra fræsafna í Alþjóðlegu fræhvelfinguna á Svalbarða átti sér ...

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg
Fréttaskýring 8. mars 2024

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg

Vísbendingar eru um að bændur séu líklegri til að þjást af einkennum streitu og ...

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast
Fréttaskýring 23. febrúar 2024

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast

Á komandi áratugum er líklegt að landbúnaður breytist verulega. Þættir eins og t...

Úrgangsmálin í ólestri
Fréttaskýring 9. febrúar 2024

Úrgangsmálin í ólestri

Í byrjun síðasta árs tóku gildi lög hér á landi þar sem bann er lagt við urðun á...

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika
Fréttaskýring 30. janúar 2024

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika

Aðstöðumunur kúabænda vegna mismunandi stuðnings við kvótakaup milli landsvæða h...

Auður, kvóti, mjólk og skuld
Fréttaskýring 26. janúar 2024

Auður, kvóti, mjólk og skuld

Þegar tiltekinn hópur bænda hefur tök á að eignast mjólkurkvóta með því að vera ...

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða
Fréttaskýring 13. janúar 2024

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða

Eyþór Einarsson, ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML), segir að ...