Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Matvælaráðuneytið stóðu fyrir kynningu á skýrslunni „Bleikir akrar – Aðgerðaáætlun um aukna kornrækt“ á Hilton Nordica hóteli þann 15. mars sl. Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra og höfundar skýrslunnar: Egill Gautason, Hrannar Smári Hilmarsson og Helgi Eyleifur Þorvaldsson.
Matvælaráðuneytið stóðu fyrir kynningu á skýrslunni „Bleikir akrar – Aðgerðaáætlun um aukna kornrækt“ á Hilton Nordica hóteli þann 15. mars sl. Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra og höfundar skýrslunnar: Egill Gautason, Hrannar Smári Hilmarsson og Helgi Eyleifur Þorvaldsson.
Mynd / Matvælaráðuneytið
Í deiglunni 24. mars 2023

Efling kornræktar í öndvegi

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Þær tillögur sem starfshópur Landbúnaðarháskólans leggur fram til eflingar kornræktar munu reynast mikilvægt innlegg við forgangsröðun verkefna við gerð fjármálaáætlunar ríkissjóðs til næstu fimm ára.

Aðgerðaáætlun í þrjátíu liðum var kynnt á fundi matvælaráðherra í síðustu viku. Í henni er lagt til 500 milljóna króna úthlutun í framleiðslu- og fjárfestingastuðning og 120 milljóna króna árlegt fjárframlag í kynbótastarf.

Matvælaráðuneytið stóð fyrir kynningu á skýrslu starfshópsins „Bleikir akrar – Aðgerðaáætlun um aukna kornrækt“ á Hilton Nordica hóteli þann 15. mars sl. Í máli Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra kom fram að raunverulegur pólitískur vilji væri fyrir því að efla kornrækt. Nú stæði yfir vinna við gerð fjármálaáætlunar til næstu fimm ára og tillögurnar yrðu mikilvægt innlegg í vinnu matvælaráðuneytisins við forgangs­röðun þeirra aðgerða sem lagðar verða fram.

„Það sem vakti mesta athygli mína er sá andi sem skýrslan er skrifuð í. Hún snýst ekki um varnarstöðu, hún snýst um stórhuga áform um sókn. Hún snýst um að við sem þjóð getum brauðfætt okkur á 21. öldinni. Hún snýst um að skapa skilyrði fyrir því að ný búgrein fái þrifist og fari að vaxa án hjálpardekkja innan tiltekins tíma,“ sagði Svandís meðal annars.

Hún lagði áherslu á að fjár­festingar væri forsenda framfara. „Það er staðreynd að með bættum framleiðslutækjum fáum við meira fyrir minna. Því er að mínu viti skynsamlegri ráðstöfun á opinberu fé að hvetja til fjárfestinga heldur en að ráðstafa fé í stuðning sem með tímanum eigngerist og færist fjær markmiði sínu.“

Kornrækt á Íslandi 2022 og skipting uppskeru milli landshluta. Heildaruppskera var um 10.700 tonn af 3.450 ha svæði og var því að meðaltali 3,1 tonn á hektara. Grænu svæðin sýna land undir 100 metra yfir sjávarmáli.
Mynd / Úr Riti LbhÍ nr. 162
Stærðarhagkvæmni

Í aðgerðaráætlun starfshópsins er lögð til stofnun kornræktarsjóðs sem muni styðja við innviðauppbyggingu og standi skil á 40% af kostnaði við byggingu á þurrkstöðvum og geymslum og kaupum á kornflutningavögnum og þreski- vélum. Forgangsraðað yrði til að byggja stóra kornmóttöku á hagkvæmu svæði með miklum ræktunarmöguleikum. Slík stöð yrðir máttarstólpi í kornþurrkun og móttöku á Íslandi.

„Kostnaður við byggingu á 10.000 tonna þurrkstöð er helmingi minni á hvert kg heldur en kostnaður við 1.000 tonna stöð. Það er ekki síst þess vegna sem mikilvægt er að byggja upp stórar stöðvar. Hár þurrkkostnaður veldur því að margir bændur velja frekar að rækta minna magn korns og sýra það frekar en þurrka. Möguleiki á ódýrri þurrkun gæti hvatt bændur til að auka umfang sinnar ræktunar, sem gæti þá einnig aukið stærðarhagkvæmni ræktunarinnar. Þó að töluvert sé til af nothæfum þurrkurum á landinu, þá eru þeir flestir fremur afkastarýrir og litlar geymslur við þurrkarana. Fjárfestingarstuðningur myndi mæta uppsafnaðri fjárfestingarþörf í þessari starfsemi. Hann yrði bæði notaður til nýframkvæmda og stækkunar og endurbóta eldri húsa,“ segir í skýrslunni.

Stofnun kornsamlags er enn fremur meðal tillagna starfshópsins. Slíkur milliliður, sem tekur á móti korni frá bændum, metur gæði og áframselur, er grundvöllur fyrir öflugum íslenskum kornmarkaði að mati hópsins og horfa þeir til samlaga sem þekkist í nágrannalöndunum sem fyrirmynd.

Plöntukynbætur forgangsmál

Að mati starfshópsins er forgangs- mál að stjórnvöld tryggi fjármögnun fyrir plöntukynbætur fyrir íslenskar aðstæður til langs tíma. LbhÍ hefur verið boðið að taka þátt í byltingarkenndu kynbótastarfi sænska fyrirtækisins Lantmännen sem notast við erfðamengjaúrval og leggur starfshópurinn til að Ísland þekki boðið og stundi samhliða því kynbætur á byggi, höfrum og hveiti. Áætlaður kostnaður nemur 120 milljónum króna á ári.

Samhliða því er lagt til að stjórnvöld beiti sér fyrir uppbyggingu á Jarðræktarmiðstöð LbhÍ sem verður brátt byggð á Hvanneyri. Magnús Óskarsson, fyrrverandi kennari við Bændaskólann á Hvanneyri, arfleiddi LbhÍ að alls 200 milljónum króna til að byggja upp aðstöðu til rannsókna og kennslu í jarðræktarfræðum sem nýttar verða til kaupa á tækjabúnaði þegar stöðin hefur verið reist.

Framleiðslustuðningur

Aukinn opinber stuðningur er nauðsynlegur til að efla kornrækt að mati starfshópsins og því leggur hann til framleiðslutengdan stuðning fyrir framleitt korn sem fer á markað í gegnum kornsamlag. Stuðningurinn yrði í fyrstu 15 kr/kg fyrir bygg og hafra en 20 kr/kg fyrir hveiti. Gert er ráð fyrir að stuðningurinn minnki með aukinni innlendri ræktun.

Þá er lagt til að afnema skerðingu jarðræktarstyrkja vegna umfangs á hverju lögbýli og flýta greiðslu jarðræktarstyrkja. Í dag er fastri heildarupphæð dreift jafnt á umsækjendur um jarðræktarstyrki eftir umfangi ræktunar í hekturum en stuðningurinn skerðist fyrir ræktun sem er meiri en 30 ha að umfangi.

„Við teljum að kornframleiðsla hvers bús á Íslandi sé of lítil og sækja megi umtalsverða stærðarhagkvæmni með því að auka stærð kornbýlanna. Lítið umfang hvers bónda er hluti af ástæðunni fyrir háum vélakostnaði í íslenskri kornrækt. Ef að bændur hafa fleiri hektara undir í ræktun geta þeir náð fram stærðarhagkvæmni og minnkað fastan kostnað á hvert uppskorið tonn. Núverandi fyrirkomulag, með þaki á umfang hvers ræktanda, letur því aukna hagræðingu í greininni og því leggjum við til að þakið sé afnumið fyrir kornrækt,“ segir í skýrslunni.

Einnig er mælst til þess að stofnað verði fagráð í jarðrækt og þróunar- sjóður jarðræktar sem fengi 20 milljónir kr. til úthlutunar árlega til að styrkja rannsóknir og þróun í jarðrækt. Einnig sé þörf á skýrum ræktunarleiðbeiningum fyrir kornrækt við íslenskar aðstæður.
Fleiri áríðandi verkefni

Einnig er mælst til þess að stofnað verði fagráð í jarðrækt og þróunar- sjóður jarðræktar sem fengi 20 milljónir kr. til úthlutunar árlega til að styrkja rannsóknir og þróun í jarðrækt. Einnig sé þörf á skýrum ræktunarleiðbeiningum fyrir kornrækt við íslenskar aðstæður. Því tengdu er lagt til að kennsla í kornrækt verði þróuð og efld innan náms LbhÍ. Einnig þurfi að kortleggja allt mögulegt ræktarland.

Aðkallandi rannsóknir snúa meðal annars að áhrifum skjólbelta og skjólskóga á uppskeru og ræktunaröryggi og rannsókna kornræktar á rýru landi og söndum.

Þá sé mikilvægt að standa vörð um þær góðu ræktunaraðstæður sem eru hér á landi, en fáir landlægir skaðvaldar eru hér til staðar. Því leggur starfshópurinn til endurskoðun á reglum um innflutning á lifandi plöntum og jarðvegi með það að markmiði að draga úr hættu á innflutningi skaðvalda.

Fimm tillögur sem tengdar eru við ágang fugla á kornakra eru lagðar fram. Snýr það að rannsóknum á tjóni af völdum fugla, mögulegum aðgerðum til að sporna við ágangi og endurskoðun á fyrirkomulagi trygginga því tengdu.

Kornbændur hafa kallað eftir tryggingakerfi fyrir kornuppskeru og lagt er til að ríkið beita sér fyrir því að vátryggingafélög bjóði upp á uppskerutryggingu og að Bjargráðasjóður bæti uppskerubrest á korni.

Lágmarksbirgðir og viljayfirlýsingar

Í skýrslunni eru einnig skilgreindar lágmarksbirgðir af kornvöru í landinu. Tillaga starfshópsins er að þær þurfi að samanstanda af um sex mánaða veltulager neyðarbirgða af sojamjöli, maís, fóðurhveiti og hveiti til manneldis auk þriggja mánaða lagers af steinefnum, vítamínum, olíum, melassa og öðrum aukaefnum til fóðurgerðar. Einnig þurfi að vera til varalager af sáðvöru.

Skýrslunni fylgir viljayfirlýsingar tólf stórnotenda á korni á Íslandi. Í þeim er lýst yfir stuðningi við að stjórnvöld beiti sér fyrir nauðsynlegum hvötum til að koma megi á fót kornmarkaði á Íslandi og vilja þeirra til að versla íslenskt korn ef það yrði framleitt hér á landi. Meðal þeirra er forsvarsmenn fóðursala, brugg- og matvælafyrirtækja.

Starfshópinn skipuðu þeir Helgi Eyleifur Þorvaldsson, aðjúnkt og brautastjóri búfræðibrautar hjá LbhÍ, Egill Gautason, lektor við deild ræktunar og fæðu hjá LbhÍ, og Hrannar Smári Hilmarsson, tilraunastjóri í jarðrækt hjá LbhÍ. Auk þess önnuðust Þorleikur Jóhannesson og Óskar Pétur Einarsson, verkfræðingar hjá Verkís, tiltekna útreikninga og Daði Már Kristófersson skrifaði einn kafla skýrslunnar.

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs
Fréttaskýring 18. apríl 2024

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs

Alþingi samþykkti 21. mars sl. breytingu á búvörulögum sem felur í sér undanþágu...

Mikilvægasta rými jarðar
Fréttaskýring 29. mars 2024

Mikilvægasta rými jarðar

Stærsta innlögn nýrra fræsafna í Alþjóðlegu fræhvelfinguna á Svalbarða átti sér ...

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg
Fréttaskýring 8. mars 2024

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg

Vísbendingar eru um að bændur séu líklegri til að þjást af einkennum streitu og ...

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast
Fréttaskýring 23. febrúar 2024

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast

Á komandi áratugum er líklegt að landbúnaður breytist verulega. Þættir eins og t...

Úrgangsmálin í ólestri
Fréttaskýring 9. febrúar 2024

Úrgangsmálin í ólestri

Í byrjun síðasta árs tóku gildi lög hér á landi þar sem bann er lagt við urðun á...

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika
Fréttaskýring 30. janúar 2024

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika

Aðstöðumunur kúabænda vegna mismunandi stuðnings við kvótakaup milli landsvæða h...

Auður, kvóti, mjólk og skuld
Fréttaskýring 26. janúar 2024

Auður, kvóti, mjólk og skuld

Þegar tiltekinn hópur bænda hefur tök á að eignast mjólkurkvóta með því að vera ...

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða
Fréttaskýring 13. janúar 2024

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða

Eyþór Einarsson, ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML), segir að ...