Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Jakuxi – húsdýr Himalajafjalla
Á faglegum nótum 11. apríl 2017

Jakuxi – húsdýr Himalajafjalla

Höfundur: Vilmundur Hansen

Jakuxar eru líklega ein furðulegustu nytjadýr í heimi. Heimkynni þeirra eru á harðbýlum og víðfeðmum hásléttum Himalajafjalla sem stundum eru kallaðar þak heimsins. Þar er loftið þunnt og frost fer niður í -40° á Celsíus.

Jakuxar þrífast við aðstæður sem engin önnur húsdýr þola og eru nýtir sem burðardýr, kýrnar eru mjólkaðar og kjöt og innyfli nýtt til matar. Ullin er ofin og húðir sniðnar í tjöld, klæði og nytjahluti. Úr hornunum eru smíðuð hljóðfæri og listmunir auk þess sem mykjan er brennd sem eldiviður. Án jakuxa er ólíklegt að fólk gæti þrifist á hásléttum Himalajafjalla.

Áætlaður fjöldi jakuxa í heiminum er um 15 milljón og 90% af þeim fjölda er að finna í Kína, Himalajafjöllum, hásléttum Tíbet, Nepal, Mið-Asíu og norður til Mongólíu og Síberíu. Langflestir jakuxar eru húsdýr þrátt fyrir að enn sé að finna litlar hjarðir villtra jakuxa, sem eru í útrýmingarhættu, á afmörkuðum verndarsvæðum.

Erfitt er að henda reiður á fjölda jakuxa í hverju landi en langflestir, um 13 milljón, munu þeir vera í Kína og ríflega 600 þúsund í Mongólíu. Auk þess sem nokkur hundruð innflutta jakuxa er að finna í Bandríkjum Norður-Ameríku og stöku dýragarði.

Talið er að villtir jakuxar í heiminum séu innan við 15 þúsund og að þeir séu afkomendur taminna dýra sem hafa sloppið og aðlagast lífinu í náttúrunni.

Skyldir nautgripum

Jakuxar eru af sömu ættkvísl og nautgripir, Bos. Latneskt heiti villtra jakuxa er Bos mutus en taminna B. grunniens. Þeir sem láta sig flokkunarfræði jakuxa varða eru ekki á einu máli um hvort flokka eigi villta jakuxa sem sérstaka tegund eða undirtegund B. grunniens.

Talið er að hjarðir B. baikalensis, sem er útdauð tegund, hafi í eina tíð ráfað um sléttur Síberíu og jafnvel farið yfir Beringssund til Norður-Ameríku. 

Ólík öðrum nautgripum baula jakuxar ekki heldur gefa frá sér nokkurs konar urr eða rophljóð og mun tegundarheitið grunniens vera dregið af því.

Íslenska heitið jakuxi líkist enska heitinu yak sem mun upprunalega vera komið frá Tíbet þar sem það er samheiti yfir nautin. Mutus á latínu þýðir aftur á móti þögull eða hljóðlaus.

Ásýnd og líkamsstarfsemi

Í samanburði við íslenska nautgripi eru jakuxar stór dýr. Fullorðið villt naut getur náð tæpum tveimur metrum við herðakamb og um tveimur metrum frá haus og aftur á hala. Kýrnar eru smávaxnari.

Skrokkurinn er belgmikill og fæturnir stuttir og sterkir og með stórum hringlaga klaufum sem varna því að dýrin sökkvi í mýrlendi. Undir þykkri húðinni sem er án svitahola er líkaminn þakinn þykku og einangrandi fitulagi.

Jakuxar virðast rytjulegir að sjá vegna þess hversu langhærðir þeir eru og lafir hárið langt niður fyrir belginn á þeim. Hárið, eða jakuxaull eins og það er kallað, er þétt og einangrandi og ver dýrin fyrir kulda. Hali jakuxa líkist fremur tagli á hesti en hala nautgripa.

Villtir jakuxar eru yfirleit dekkri en tamdir, brúnleitir eða svartir en tamdir eru til í fjölda litum og litaafbrigðum, hvítir, dökkir eða tvílitir.

Hálsinn er stuttur en hausinn stór og breiður og aftan við hausinn er hnúður. Munnurinn er stór en augun og eyrun lítil. Hornin yfirleitt löng, 30 til 100 sentímetrar eftir kyni. Kollóttir jakuxar eru yfirleitt tamdir.

Villtir jakuxar eru stærri en tamdir. Jakuxakýr vega frá 200 og upp í 250 kíló en nautin eru talsvert þyngri, 350 til 600 kíló. Dæmi eru um að villt jakuxanaut hafi náð rúmu tonni að þyngd.

Jakuxar eru vel aðalagaðir að kulda og lífi hátt til fjalla. Lungun og hjarta eru stór og nýta súrefni vel. Frost allt að -40° á Celsíus hefur lítil áhrif á lífstarfsemi þeirra og reyndar er ekki vitað hversu mikið frost þeir þola. Í vondum veðrum hópa dýrin sig saman og mynda þéttan vegg umhverfis kálfana og halda þannig á þeim hita. Þeir sýna sömu hegðun stafi hætta að hópnum og mynda varnarvegg umhverfis ungviðið til að vernda það.

Reyndar eru jakuxar það vel aðlagaðir háfjallalofti að þeir þrífast illa á láglendi og þola varla við fari hiti yfir 15° á Celsíus.

Jakuxar eru jórturdýr með óvenju stórt vinstur sem gerir þeim kleift að melta mikið magn af trefjaríkri en næringarsnauðri fæðu eins og sölnuðu grasi, mosa og fléttum. Að meðaltali innbyrða jakuxar um 1% af líkamsþyngd sinni af fæðu á dag. Dýrin eru matvönd að því leyti að þau nærast nánast eingöngu á grasi, smárunnum, mosa og fléttum og svelta frekar í hel en að éta korn eða fóðurbæti.

Grikkir til forna kölluðu jakuxa poiphagos, sem þýðir grasæta, og hafa því eitthvað þekkt til dýranna á þeim tíma.

Jakuxar drekka mikið vatn yfir sumartímann en á veturna éta þeir snjó til að svala þorstanum.

Uppruni og tamning

Uppruni jakuxa er ofan við vaxtarmörk trjáa í 2.000 til 7.000 metra hæð á hásléttum Himalajafjalla, þar sem Tíbet er í dag, og þaðan munu dýrin hafa breiðst út til norðurs og suðurs. Á hásléttum Himalajafjalla, þar sem jakuxinn kann best við sig, eru sumrin stutt og köld, loftið rakt og alltaf má búast við næturfrosti. Jakuxinn er það spendýr sem hefur aðlagast lífi í mestri hæð yfir sjávarmáli.

Beinaleifar og fornminjar benda til að frummenn hafi verið farnir að veiða jakuxa sér til matar á steinöld en að hann hafi fyrst verið taminn af fólki af ættflokki Qiang-fólksins á hásléttum Suður-Kína fyrir um tíu þúsund árum.

Samkvæmt kínverskum sögnum er fólk af ættbálknum Qiang fyrsta fólkið í heiminum sem haldið er vitsmunum en ekki einungis eðlishvöt. Fornleifar benda til að Qiang-fólkið hafi verið brautryðjendur í húsdýrarækt og hugsanlega með þeim fyrstu til að hefja hana. Flestir þjóðflokkar sem nýta jakuxa að einhverju ráði í dag eru taldir á einn eða annan hátt vera afkomendur Qiang-fólksins.

Nytjar á jakuxum voru almennar í Kína 3000 árum fyrir upphaf okkar tímatals. Í fyrstu voru dýrin aðallega nýtt sem burðardýr en síðar var farið að nýta kýrnar til mjalta, ullina og húðir í fatnað og nytjamuni og kjötið til átu. Horn og bein í hljóðfæri og listmuni og mykjuna til brennslu og híbýlahitunar.

Jakuxa er víða getið, bæði í texta og myndum, í fornum kínverskum bókmenntum. Í riti frá því um 840 fyrir Krist er meðal annars sagt að nashyrningar og jakuxar séu ódrepandi skepnur. Í öðru riti frá árinu 400 fyrir upphaf okkar tímatals segir að í fjöllum í Hubei-héraði í austanverðu Mið-Kína finnist járn og gull í jörð og jakuxar á beit.

Fnykur

Á Vesturlöndum er sú trú lífseig að fýlan af jakuxum og skítalyktin af mykjunni úr þeim sé verri en að orð fái lýst og þannig að fólk sem finnur fnykinn í fyrsta sinn verði flökurt og kasti hreinlega upp. Sögur af þessu tagi munu algerlega úr lausu lofti gripnar. Raunin mun vera sú að jakuxar gefa frá sér mjög takmarkaða líkamslykt vegna þess að þeir svitna ekki og útgufun frá þeim því mjög takmörkuð. Hárið, eða ullin, er einnig frá náttúrunnar hendi lyktarlítil. Mykjan sem þeir skila af sér er mjög þurr og því nánast lyktarlaus.

Atferli og fang

Jakuxar eru hjarð- og flökkudýr. Í náttúrunni halda þau sig í mörgum litlum hópum með níu til tólf kúm og einu nauti. Margir litlir hópar sem halda sig nálægt hverjir öðrum mynda síðan hjörð með mörg hund­uð dýrum. Í eldi eru hjarðirnar yfirleitt minni.

Fengitími jakuxa er á sumrin, frá júlí og fram í september, og geta kýr verið blæsma fjórum sinnum, í nokkrar klukkustundir í senn, á því tímabili nái þær ekki fangi. Utan fengitímans halda tarfar, sem ekki ráða kúahjörð, sig oft saman í litlum hópum sem eru aðskildir frá meginhjörðinni.

Piparsveinahóparnir sækja í hjarðirnar um fengitímann og berjast vonbiðlarnir kröftuglega sín á milli með hljóðum, hótunum, krafsi og stimpingum þar sem hornin gegna stóru hlutverki um hylli beljanna og yfirráð yfir kúahjörð. Kynsvelt piparsveinagengi villtra jakuxaungnauta eiga einnig til að leita uppi eldiskýr um fengitímann.

Kýr bera yfirleitt einum kálfi á eins til tveggja ára fresti en tvíburafæðingar eru þekktar, sérstaklega ef mikið er um fæði og árferðið jakuxanum hagfellt.

Meðganga kúnna er milli 255 og 270 dagar og burður að öllu jöfnu í maí eða júní. Við burð leita kýr á öruggan stað frá hópnum og eru kálfarnir yfirleitt komnir á fætur og á spena tíu mínútum eftir fæðingu og stuttu síðar fylgir hann kúnni til hjarðarinnar.

Kálfar fylgja móður sinni og eru á spena fyrsta æviárið en sjá að mestu um sig sjálfir eftir það. Ull ungra villijakuxa er brúnleit en dökknar með aldrinum og verður allt að því svört með árunum.

Dýrin verða kynþroska á þriðja til fjórða ári og þau ná um tuttugu ára aldri. Líftími villtra jakuxa er yfirleitt skemmri en taminna.

Kynblöndum jakuxa og annarra nautgripa

Skyldleiki jakuxa og nautgripa er það mikill að þrátt fyrir að teljast hvort sín tegundin geta dýrin átt saman afkvæmi.

Í Nepal, Tíbet, Kína og Mongólíu er 2000 ára hefð fyrir því að leiða jakuxakýr undir tudda nautgripa eða sebú-naut. Sé afkvæmið naut er það ófrjótt en kvígur eru frjóar. Afkvæmið kallast Bos primigenius taurus. Afkvæmi jakuxa og nautgripategundar sem kallast sebú, Bos primigenius indicus, kallast B. p. indicus og er líkt komið á með frjósemi þeirra og afkvæmum jakuxa og nautgripa.

Tilhleypingar eða öllu heldur sæðingar frá því um aldamótin 2000 sýna að jakuxakýr geta eignast afkvæmi með vísundum, Bison sp., frá Norður-Ameríku og vatnabuffalóum, Bubalus sp., frá Asíu.

Nokkrar tilraunir voru gerðar til að flytja jakuxa frá upprunalegum heimkynnum sínum til Evrópu, Norður-Ameríku og annarra svæða í Asíu um miðja nítjándu öld. Hugmyndin var að nytja dýrin þar.

Nánast allar þessar tilraunir fóru út um þúfur þar sem dýrin þoldu ekki við í nýju heimkynnunum og vesluðust upp og drápust fljótlega. Best vegnaði nokkrum jakuxum sem komið var fyrir Frakklands megin í Pýrenea-fjöllum þar sem þeir lifðu í nokkur ár áður en drápust svo.

Jakuxar í trúarbrögðum og þjóðtrú

Jakuxinn gegnir viðamiklu hlutverki í trúarbrögðum Tíbeta og annarra íbúa Himalajafjalla. Nautum er fórnað við trúarlegar hátíðir verndarguðum til friðþægingar. Ein slík fórnarathöfn felst í því að sleppa tömdum jakuxa út í náttúruna sem þakklætisvotti um gjafir guðanna. Bein og hauskúpur jakuxa eru iðulega lögð á altari í búddahofum og hauskúpur á heimilum eru sagðar bægja frá illum öndum. Víða við fjallastíga eru reistar eins konar jakuxatótemsúlur sem verndargripir.

Jakuxar eru hvoru tveggja gjald brúðguma til fjölskyldu brúðar við brúðkaup og heimanmundur brúðar.

Blóð jakuxa er notað til lækninga og sé það drukkið er það sagt styrkjandi.

Nytjar í dag

Samfélög manna í Himalajafjöllum, hvort sem þau tilheyra Kína, Tíbet eða Nepal, auk fólks sem býr í Mongólíu, eru að miklu leyti háð jakuxum um lífsafkomu sína. Ríkidæmi fjölskyldna er metið á grundvelli þess hvað þær eiga marga jakuxa.

Sem fyrr segir eru kýrnar mjólkaðar og er fituinnihald mjólkurinnar milli 7 og 8%. Kjötið er nýtt til átu, bæði ferskt og þurrkað. Ullin og húðir veita skjól og fatnað og mykjan yl. Jakuxar í eldi eru rúnir einu sinni á ári og spunnið band úr ullinni.

Jakuxamjólk þykir góð út í te, til smjör- og ostagerðar og úr henni er bruggaður áfengur drykkur. Í Tíbet eru búnir til skúlptúrar í jakuxasmjöri guðunum til heiðurs á trúarhátíðum. Smjörið er brennt sem ljósmeti líkt og gert var með lýsi hér á landi í eina tíð.

Jakuxahár er notað í hárkollur og gerviskegg fyrir almenning og leikhús í Asíu og úr beinum og hornum eru búnar til flautur, greiður, hnappar og skrautmunir.

Jakuxar eru ekki síst nýtir sem burðardýr og geta þeir borið byrðar allt að 150 kíló dögum saman við erfiðar aðstæður. Sterkir fæturnir og breiðar klaufarnar gera dýrin fótviss í skriðum og á þröngum fjallastígum.

Jakuxum er einnig beitt fyrir plóga við jarðrækt og sem reiðskjótar á löngum leiðum. Stundaðar eru jakuxaveðreiðar í Mongólíu, Tíbet og Pakistan. Jakuxapóló er nýtilkomin íþrótt og aðallega ætluð ferðamönnum til skemmtunar. 

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...