Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Haraldur Sveinsson heldur stoltur í forystuána sína sem rekur ættir að Arnarvatni í Mývatnssveit og skartar klukku í horni. Í baksýn má sjá Helga Haraldsson á Hrafnkelsstöðum, föðurbróður Haraldar, sem þá var landsþekktur fjárræktarmaður og fjölfræðingur
Haraldur Sveinsson heldur stoltur í forystuána sína sem rekur ættir að Arnarvatni í Mývatnssveit og skartar klukku í horni. Í baksýn má sjá Helga Haraldsson á Hrafnkelsstöðum, föðurbróður Haraldar, sem þá var landsþekktur fjárræktarmaður og fjölfræðingur
Á faglegum nótum 1. september 2015

Íslenska forystuféð − seinni hluti

Höfundur: Jón Viðar Jónmundsson
Hér verður fram haldið umræðu um nokkur atriði í könnun á íslensku forystufé sem byrjað var að kynna í síðasta blaði.  
 
Út frá fornum sögum virðist ekki ástæða til að efast um að þetta fé kemur til landsins með landnámsmönnum eins og annað búfé. Fyrstu lögbækur vitna sterkt um gríðarmikið notagildi þess í fjárbúskap strax á fyrstu öldum. Engar    heimildir gera hins vegar mögulegt að meta hlutdeild þessa fjár í sauðfjárfjölda í landinu.
 
Áður hefur verið sleginn vari um að nota upplýsingar úr bókinni Forystufé of bókstaflega til að meta dreifingu þess um landið. Hún og aðrar heimildir sem mögulegt er að styðjast við benda samt til að dreifing forystufjár hafi verið ákaflega breytileg eftir landsvæðum. Búseta þess stóð föstustum fótum á Norðurlandi og Austurlandi að hluta en avar áreiðanlega takmörkuð í öðrum landshlutum. Áreiðanlega hafa samt einhverjir flutningar átt sér stað með prestum sem oft fluttu bústofn sinn og hyski á milli landshluta. Þekkt er dæmi um flutning til Barðastrandar snemma á síðustu öld úr Svarfaðardal á slíku fé og fékk einhverja takmarkaða útbreiðslu í aðrar sveitir þar vestra. Ekki hef ég samt fundið dæmi um flutning á þannig fé af þessu svæði á fjárskiptaárunum og það mun nánast hafa útrýmst við riðuniðurskurð á Barðaströnd á níunda áratug síðustu aldar. Víða í skrifum Halldórs Pálssonar kemur fram að forystufé sé ekki að finna á Vestfjörðum. Þó að ég hafi fundið dæmi þess í gömlum fjárbókum þá eru það alla jafnan einstakar kindur sem ekki gerðu neina framræktun mögulega.
 
Forystufé var skotið undan niðurskurði
 
Fjárskiptin um miðja síðustu öld útrýmdu öllu fé utan Vestfjarða á svæðinu frá Mýrdalssandi vestur og norður að Jökulsá á Fjöllum. Vitað er að forystufé var skotið undan niðurskurði en þær kindur virðast hafa lent í höndum aðila sem ekki hafa borið gæfu til að standa nógu skipulega að framhaldsræktun þess. Mest af nýja fénu var sótt til Vestfjarða. Í Suður-Þingeyjarsýslu, Eyjafjörð, Skagafjörð austan vatna, útsveitir á svæðinu milli Blöndu og Héraðsvatna og Árnessýslu kom að misjöfnum hluta þó fé sem rakti uppruna sinn í Norður-Þingeyjarsýslu og fluttist þannig á þessi svæði forystufé að nýju.
 
Fyrstu skrefin í frekari útbreiðslu á önnur svæði eru stigin þegar sæðingar hefjast frá Laugardælum síðla á sjötta áratugnum. Öll þau ár sem þær sæðingar voru stundaðar voru forystuhrútar í notkun þar og lögðu þeir grunn að uppbyggingu forystufjárstofns á ýmsum búum á Vesturlandi og Norðurlandi vestra. Mér hefur samt ekki tekist að rekja ættir til þessara hrúta fyrir neitt núlifandi fé. Lengi var að vísu til stofn með traustar ætternisupplýsingar af þessum meiði á Hesti, þó að ráðamönnum þar hafi tekist að útrýma honum þar á bæ. Í uppsveitum Borgarfjarðar eru samt kindur sem áreiðanlega mun með tímanum taka að rekja í þetta fé sem var á Hesti.
 
Ákvæði um forystukyn sett í búfjárræktarlög
 
Næsti sögulegi atburður í verndun og útbreiðslu forystufjár verður þegar Sigurður Björgvinsson bóndi á Neistastöðum kemur á Alþingi sem varamaður og flytur þar tillögu um að setja í búfjárræktarlög ákvæði um að sæðingastöðvarnar skuli ætíð bjóða til notkunar hrúta af forystufjárkyni. 
 
Í framhaldi af því hafa frá því um 1980 ætíð verið til boða slíkir hrútar þar. Þeir hafa orðið mjög mótandi um ræktun þessa fjár í landinu síðustu áratugina.
 
Allt forystufé í landinu rekur uppruna sinn í Norður-Þingeyjarsýslu
 
Ljóst er að allt forystufé í landinu í dag rekur uppruna sinn í Norður-Þingeyjarsýslu þar sem miðpunkturinn er í Núpasveit og Öxarfirði auk þess sem áhrif sveitanna við Þistilfjörð eru mikil. Smá áhrifa gætir líka frá fé úr Bakkafirði, Vopnafirði og Hólsfjöllum. Upprunasvæðið er því lítið og utan þess er ekki að finna neitt forystufé af öðrum ættargrunni.
 
Einn þáttur í því að meta hve vel hafi tekist til um varðveislu stofnsins er að skoða þróun í skyldleikarækt í stofninum. Til þess að það sé mögulegt verður að safna ætternisupplýsingum. Þar reyndist þrítugan hamarinn að klífa eins og Sigríður hafði áður reynt í sinni rannsókn. Að vísu tókst að bæta við umtalsverðum upplýsingum í þeim efnum en samt eru þessar ætternisupplýsingar því miður alltof gloppóttar. Um 40% af forystufénu er að vísu tilkomið við sæðingar og þar eru faðernið á hreinu. Ættir hrútanna á stöðvunum verða hins vegar ekki raktar á nokkurn hliðstæðan hátt og fyrir aðra stöðvarhrúta. Til skamms tíma hefur það fremur heyrt til undantekninga að forystufé væri skráð í skýrsluhaldinu, en í þeim tilvikum bætist við sú brotalöm að mjög algengt er ef faðerni er af heimastofni að þeir hafi ekki verið skráðir vegna fátæktar þeirra með afkvæmafjölda. Þó að þessar kindur sé yfirleitt eftirminnanlegar þá virtist minna manna um ættir þeirra vera ótrúlega svikult. Við bætist að talsvert af forystufé síðustu áratuga er komið á viðkomandi bú við kaup. Oftar en ekki gleymist að afla ætternisupplýsinga með gripnum og ákaflega seinlegt og oft ómögulegt reyndist að stagla í slík göt. Ávallt hefur eitthvað verið um flutning á þessu fé á gráu svæði, einkum áður en leyfi til flutninga urðu almennari á síðustu árum. Fyrir kom að neitað væri að veita þessar upplýsingar af þeirri ástæðu þó að slíkur tepruskapur heyrði samt frekar til undantekninga í þessum málum.
 
Brýnt að tryggja skráningu 
 
Eitt brýnasta mál í sambandi við viðhald og verndun stofnsins á komandi árum er að tryggja að allt forystufé í landinu verði skráð í skýrsluhaldinu. Það er lykilatriði í sambandi við að fylgjast með þróun stofnsins. Það ætti að hjálpa í þessum efnum að ákveðið hefur verið að stofninn verði í framtíðinni þar sérmerktur út frá grunni þessara upplýsinga. Þegar kemur að útreikningum á afurðum búsins verður þessu fé haldið utan þeirra kappleikja á komandi árum.
 
  Hér verður ekki fjallað neitt um niðurstöður útreikninga á skyldleikarækt í stofninum að öðru leyti en að segja að ný skyldleikarækt og árleg aukning í skyldleikarækt hefur góðu heilli verið langt innan þeirra marka sem ástæða er til að hafa áhyggjur af.
 
Forystufjáreigendur í Norður-Þingeyjarsýslu þar sem kjarni ræktunarstarfsins er hafa verið með fádæmum lagnir við framkvæmd sinnar ræktunar. Þeir nota sjálfir sæðingar mjög lítið en nota marga hrúta, en mjög takmarkað hvern og einn, til endurnýjunar á stofninum og sækja þá í þær hjarðir innan svæðisins sem eru hvað fjarskyldastar. Eina ræktunarlega slysið sem orðið hefur er á ábyrgð okkar sem staðið höfum að hrútavali á stöðvarnar en þar gerðustum við sekir um alltof mikla notkun á Blesa 98-884 og sonum hans. Þetta voru hrein mistök þar sem ekki var þar að sækja neina sérstaka eiginleika umfram aðra forystuhrúta sem voru í boði á þeim tíma. Allt bendir til að sú regla sem unnið hefur verið eftir nú um áratug að velja hrúta á stöðvarnar til tveggja ára notkunar, einn vetur á hvorri stöð, skili okkur góðum árangri í viðhaldi stofnsins.
 
Eitt atriði enn í sambandi við verndum stofnsins er hvernig hann dreifist milli búa. Á mynd er sýnt hvernig stærðardreifing þeirra rúmlega 400 hjarða af forystufé er. Stöplaritið sýnir fjölda í hverjum stærðarflokki en heila línan hve stóran hluta stofnsins sé að finna í hjörðum af viðkomandi stærð eða minni. Þar má sjá að 57% búanna með forystufé hafa eina eða tvær kindur en á þessum meirihluta búanna er að finna innan við 25% stofnsins. Þegar stofninn er talinn á þennan hátt næst helmingur fjárins þegar komið er í bú með fimm kindur en þá eru komin til sögunnar yfir 80% allra búa með slíkt fé. Stærsta forystufjárhjörðin taldi 20 slíkar kindur. Nú veit ég að í dag hafa einhverjar af stærstu hjörðunum fjölgað þessu fé þannig að þær finnast nú stærri. Því miður hefur það líka gerst að hið minnsta tvær af stærstu hjörðum voru á búum þar sem fjárbúskapur er nú aflagður. Þessi mikla dreifing stofnsins á fjölda búa er tvímælalaust mikill styrkur fyrir verndun og viðhald hans.
 
Viðhald og verndun stofnsins hefur tekist með afbrigðum vel
 
Það sem hér er sagt sýnir að viðhald og verndun stofnsins hefur tekist með afbrigðum vel. Þekki ég í raun ekki annað dæmi í heiminum um slíkan árangur í jafn litlum stofni. Einu áföllin sem benda má á verða að skrifast á reikning okkar sem einhverja ábyrgð áttum að bera.
 
Á mikilvægustu forystufjáreiginleikunum höfum við engar beinar mælingar og því ekki tilefni til umræðu. Útlitseiginleika, liti og horn má hins vegar skoða nánar. Forystuféð er að meginstofni hyrnt. Í stofninum á norðausturhorninu er hins vegar að finna gamlar línur af kollóttu og hnýflóttu fé (raunverulega hnýfilhyrnt en ekki blendingshnýflar), sem væri skaði að hyrfi úr stofninum. Ferhyrnt fé er hins vegar áreiðanlega aðskotahlutur í þessu fé og mætti hverfa það litla sem slíka blöndun er enn að finna. Annað fé í landinu getur borið þunga þeirrar ræktunar. Hjá forystufé er verið að leita að vitsmunum en ekki þungum haus.
 
Hefur ætíð skorið sig úr öðru fé vegna lita
 
Forystufé hefur ætíð skorið sig úr öðru fé vegna lita. Að grunni til er það með aðra liti en hvítan. Hvort hvítur litur hjá því sé ekki alfarið kominn inní stofninn með innblöndum skal ósagt látið. Það örfá hvíta fé sem fram kom í könnuninni reyndist stundum við nánari skoðun tvílitt og bar þann sérstaka lit sem þeir frændur Leifur 02-900 og Jóakim 08-863 erfðu til afkomenda sinna.
 
Samanburður lita við könnun Lárusar bendir ekki til stórfelldra breytinga á undanförnum tveim áratugum. Breytingin sem gerst hefur er samt að hlutlausi erfðavísirinn hefur sótt á og þá á kostnað annarra erfðavísa. Frá því að könnunin var gerð hafa sæðingastöðvarnar hins vegar brugðið við til varnar bæði golsótta og gráa litnum. Samkvæmt bók Ásgeirs má álykta að golsótti liturinn hafi áður verið mun útbreiddar hjá forystufé en var orðið. Tvíliturinn vinnur einnig heldur á. Má segja að móhosótt eða móarnhöfðótt séu að verða einkennislitir hjá forystufé á síðustu árum. Mórauði liturinn er áfram frekar í sókn gagnvart þeim svarta. Svarbotnóttur eða einlitur svartur hrútur ætti því nú að vera á óskalista sæðingastöðvanna fyrir nýja stöðvarhrúta.
 
Erfðir á litarmunstrum hjá tvílitu fé hafa aldrei verið gerðar hér á landi. Kemur þar margt til en fyrst og fremst vöntun á gögnum. Skipulegar paranir til að rannsaka slíkt hafa ekki verið gerðar og einnig gera breytileg nöfn litarmunstra eftir landsvæðum málið ekki einfaldara. Hvort hjá forystufé geti verið að finna einhver önnur litamunstur en hjá öðru fé verður því ekki dæmt um. Hin sérstaki eyglótti litur sem Leifur 02-900 og afkomendur hans hafa erft hafa vakið grunsemdir hjá mér um að ekki megi útiloka slíkt. 

3 myndir:

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...