Mynd/MHH Sigríður Einarsdóttir ræður ríkjum í Fjöruhúsinu á Hellnum.
Fólk 29. júlí 2019

Brjálað að gera hjá Siggu í Fjöruhúsinu

Magnús Hlynur Hreiðarsson

„Ég kvarta ekki, það er alltaf brjálað að gera, ekki síst eins og sumarið er búið að vera, logn og sól nánast alla daga og allir í sumarskapi,“ segir Sigríður Einarsdóttir, eða Sigga eins og hún er alltaf kölluð, en hún er eigandi Fjöruhússins á Hellnum á Snæfellsnesi.

Sigga opnaði kaffihúsið 9. júlí árið 1997 því henni fannst sniðugt að selja kakó og kleinur í húsinu en smátt og smátt breyttist vöruúrvalið. Húsið var, áður en það breyttist í kaffihús, aðstaða fyrir sjómenn þar sem þeir geymdu veiðifærin sín og unnu með aflann á ýmsan máta.

Fjöruhúsið er líklega minnsta kaffihús landsins en þar komast aðeins 24 í sæti inni en í góðu veðri er líka hægt að sitja úti á palli. 

„Ég er með frábært starfsfólk, við erum sex sem vinnum á kaffihúsinu yfir sumarið en svo fækkar yfir veturinn. Ég hef opnað um páska og hef oftast opið út október,“ segir Sigga.


Fjöruhúsið er ekki ýkja stórt en fjöldi fólks leggur leið sína þangað.